Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að koma til skila þeirri orðsendingu til næstsíðasta ræðumanns, sem talaði um að það ætti að fá fjmrh. til að taka til máls, að hann sé a.m.k. staddur í húsinu þegar ég er hérna í ræðustólnum.
    Ég tel að þær hugmyndir sem hafa verið settar fram varðandi virðisaukaskatt og verðlagningu á matvælum séu eitt af þeim málum sem þurfi að skoða mjög rækilega á næstu mánuðum varðandi það form sem virðisaukaskatturinn mun taka hér þegar hann tekur gildi. Þegar við ræddum um frestun á gildistöku virðisaukaskattsins fyrir jól lýsti ég því yfir í hv. deild og einnig í hv. Nd. að ég mundi verða við þeirri ósk að búa til samstarfsvettvang allra þingflokka til að fá aðstöðu til þess að fylgjast með framgangi málsins og ég hef hugsað mér núna næstu daga að ræða það mál við formenn þingflokkanna. Við höfum hafið sérstaklega seinni hluta þeirrar vinnu sem snertir undirbúning að gildistöku virðisaukaskattsins hjá embættismönnum og sérfræðingum, en fyrri hluti þeirrar vinnu fór fram á sl. ári.
    Það er alveg ljóst að það eru skiptar skoðanir um það hvort virðisaukaskattur með tveimur þrepum sé góður kostur. Sumir halda því fram að það geri eftirlit með framkvæmd skattheimtunnar mun erfiðari, það skapi meiri möguleika til undansláttar og geri kerfið sjálft ekki eins skilvirkt svo að ég noti þekkt orðalag. Ýmsir af stjórnendum og starfsmönnum í skattakerfinu hér á landi draga meira að segja í efa að það sé nægilega vel mannað til að geta framkvæmt svo vel sé innheimtu skattsins á þann hátt að hann sé tvískiptur. Ég held þess vegna að það sé alveg nauðsynlegt að það sé hv. alþm. ljóst að ef farið verður inn á þá braut að hafa virðisaukaskattinn í fleiri en einu þrepi mun það hafa í för með sér þó nokkra mannaflaaukningu í skattheimtukerfinu og á skattstofunum og auka þar með útgjöld ríkisins hvað það snertir og fjölda starfsfólks sem þar starfar. Þetta er þáttur sem mér finnst hv. Alþingi hvorki nú né e.t.v. við umræðuna um virðisaukaskattinn á sínum tíma hafa gert sér nægilega skýra grein fyrir, að virðisaukaskatturinn krefst aukningar starfsmanna á skattstofum og í skattheimtukerfinu sem nemur allnokkrum tugum.
    Ég hef verið þeirrar skoðunar og Alþb. einnig alllengi að það sé á margan hátt eðlilegt að hafa lægra söluskatts- og virðisaukastig á almennum matvælum en á öðrum vörum. Sú grundvallarstefna okkar er ekki breytt. Það er hins vegar ljóst að samstarfsflokkar okkar sumir og eintakir þingmenn þeirra eru með aðrar skoðanir á þessum málum og mér er ekki alveg ljóst hverjar eru skoðanir allra þingflokka stjórnarandstöðunnar í þessu efni. Þetta verður þess vegna væntanlega eitt af þeim málum sem verða skoðuð á þeim samstarfsvettvangi þingflokkanna sem búinn verður til varðandi virðisaukaskattinn.
    Ég hef hins vegar gefið embættismönnum þau fyrirmæli að undirbúningnum verði hagað með þeim hætti að það verði hægt að taka upp virðisaukaskatt

hvort heldur menn vilja hafa hann í einu þrepi eða tveimur svo að það verði ekki skortur á undirbúningi í sjálfu sér sem komi í veg fyrir að menn geti hrint í framkvæmd pólitískri ákvörðun um að hafa fleiri en eitt þrep í virðisaukaskattinum og þar á meðal lægra þrep á matvælum. Ég held hins vegar að það sé alveg nauðsynlegt að hv. þm. geri sér grein fyrir því að þar með mun þurfa að fjölga þó nokkuð starfsmönnum í skattkerfinu.
    Það eru heldur engin ný tíðindi, en ég get sagt það enn einu sinni hér, að afstaða Alþb. til matarskattsins er út af fyrir sig alveg óbreytt. Það er hins vegar eðli stjórnmála að þegar menn ganga til samstarfs við aðra flokka í samsteypustjórnum á Íslandi gera menn ákveðnar málamiðlanir. Menn víkja til hliðar ákveðnum áherslum sem flokkarnir hafa lagt í einstökum málum gegn því að ná öðrum fram og það er einu sinni eðli stjórnmálanna að þau eru list hins mögulega. Við gerðum slíkt samkomulag, höfum þess vegna staðið við það og það breytir engu um það hvað menn lesa upp úr mörgum ræðum hér á Alþingi. Ég hélt satt að segja að mönnum væri ljóst að það væri eðli samsteypustjórna á Íslandi að menn gerðu samkomulag milli flokka með ólíkar stefnur. Íslenska þjóðin hefur enn ekki kosið að fela einum flokki að fara með stjórn landsins og framkvæma sína stefnu. Þess vegna hefur íslenska þjóðin lagt þá lýðræðislegu skyldu á þingmenn, þó sumir vilji gleyma henni stundum, að gera málamiðlanir, þ.e. víkja frá stefnu síns flokks og gera samkomulag við aðra flokka um niðurstöður. Það er sú lýðræðislega krafa sem íslenska þjóðin hefur sett fram með því að velja flokka til þingsetu með þeim hætti sem hún hefur gert. Íslenska þjóðin hefur þess vegna óskað eftir málamiðlunum milli flokkanna og það er lýðræðisleg skylda flokkanna að taka þátt í því málamiðlunarstarfi ef þeir flokkar vilja nýta þann styrk sem þjóðin veitir þeim og haga sér í samræmi við lýðræðislegan vilja þjóðarinnar.
    Þetta hefur markað stefnu Alþb. ekki bara nú heldur í marga áratugi. Það er t.d. alveg ljóst að Alþb. er andvígt þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Alþb. er andvígt dvöl bandaríska hersins á Íslandi. Matarskatturinn er þess vegna ekkert sérstakt mál sem Alþb. kann að hafa aðra afstöðu til en margra annarra mála. Við höfum aldrei ætlast til þess að þeir flokkar sem við gengjum til samstarfs við í ríkisstjórnum samþykktu öll okkar
stefnumál. Það hefur satt að segja enginn flokkur sem tekið hefur þátt í samsteypustjórnum gert það að skilyrði. ( GuðmÁ: Hvað samþykktu þeir?) Hvað samþykktu þeir? Ja, það er eins og ég lýsti áðan og eru væntanlega ekki nein ný tíðindi fyrir hv. þm. að sú efnahagsstefna sem núv. ríkisstjórn byggir á er niðurstaða samninga milli flokkanna á sínum tíma. Við töldum mjög mikilvægt að þar væri gripið til aðgerða í efnahagsmálum sem hér forðuðu stórfelldu atvinnuleysi. Það hefur í grófum dráttum tekist, tekist miklu betur en ýmsir talsmenn stjórnarandstöðunnar spáðu í október- eða nóvembermánuði.

    Það er líka alveg ljóst að við höfum óskað eftir ágætu samstarfi bæði við Kvennalistann sem hér hefur talað og Borgfl. um þessi mál. Mér hefur fundist stundum dálítið skorta á að fulltrúar Borgfl. og Kvennalistans gerðu sér grein fyrir því að slíkt samstarf byggir á málamiðlun. Íslenska stjórnkerfið byggir á málamiðlunum og eins og ég sagði áðan: Þjóðin hefur lýst þeim lýðræðislega vilja sínum að við gerum slíkar málamiðlanir. Annars hefði hún kosið einn flokk til meirihlutavalds á Alþingi. Mér finnst þess vegna að þeir flokkar sem ekki vilja í alvöru ganga til viðræðna við okkur um slíkar málamiðlanir geri sér ekki alveg grein fyrir því hvaða lýðræðislegu skyldur hvíla á þeim.
    Það er svo alltaf matsatriði hverju sinni hverju menn ná fram og hvort menn telja það vera nægilegt til að vega upp það sem menn ná ekki fram. Það er alveg ljóst að við náðum ekki fram okkar stefnu í matarskattsmálum. Það eru engin tíðindi. Það er búið að vera ljóst síðan í lok septembermánaðar og ég er satt að segja dálítið hissa á því að heyra um það í dag einhverjar ræður eins og það sé ný uppgötvun, búið að vera ljóst í meira en hálft ár. En það breytir því ekki að það hefur verið ákveðið af þessari hæstv. ríkisstjórn að skoða það mál sérstaklega í tengslum við gildistöku virðisaukaskattsins hverjir eru kostir þess og þá gallar að taka upp virðisaukaskatt með fleiri en einu þrepi þar sem lægra þrepið væri á matvælum. Við höfum lýst okkur reiðubúna að ræða það við stjórnarandstöðuflokka, vorum reiðubúnir að ræða það ítarlega við Borgfl. fyrir nokkrum vikum og erum enn, erum reiðubúnir að ræða það við Kvennalistann og erum enn, erum reiðubúnir að ræða það við Sjálfstfl. ef Sjálfstfl. hefur það sem stefnumið. Mér er hins vegar ekki ljóst hvort það er stefnumið Sjálfstfl. vegna þess að ýmsir talsmenn hans töluðu mjög eindregið fyrir því að virðisaukaskatturinn væri bara með einu þrepi.
    Ég vona þess vegna að ég hafi svarað þeim spurningum sem til mín voru bornar um hvað væri verið að gera í þessum málum og hver væri stefna ríkisstjórnarinnar. Svo ég dragi það saman í fáeinar setningar viljum við láta skoða hvaða kosti það hefur í för með sér að hafa lægra skattþrep vegna matvæla þegar virðisaukaskattur verður innleiddur. Það er hins vegar ekki uppgert mál innan ríkisstjórnarinnar. Við viljum líka gjarnan geta rætt það við flokka í stjórnarandstöðunni, sérstaklega þá sem hafa lýst sig t.d. hér í umræðunum hafa áhuga á að ræða það við okkur.
    Ég hef talið nauðsynlegt að undirbúningsvinnan við gildistöku virðisaukaskattsins, sem er mjög flókin, tæki mið af því að skatturinn gæti hvort heldur sem væri verið í einu þrepi eða tveimur. Þess vegna er ekkert í vinnubrögðum núv. ríkisstjórnar sem útilokar að sú aðferð verði tekin upp verði það vilji þingsins á sínum tíma að gera það. Það liggur hins vegar ekki fyrir enn og er eitt af þeim pólitísku verkefnum sem við þurfum öll í sameiningu að fást við.