Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að taka þátt í þessari umræðu og lýsa stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi afstöðuna til þess hvort það eigi að hafa tvö þrep í virðisaukaskatti. Það var athyglisvert í hans ræðu að útiloka það ekki og hlýt ég að fagna því að það er eitthvað að gerast í þessari ríkisstjórn sem gæti orðið hinum lægst launuðu til góða, en ljóst er að lækkun matarverðs kemur þeim til góða sem hlutfallslega eyða mest í þennan vörulið.
    Ég rifja upp að þegar þessi skattur var settur á, fyrst matarskatturinn og síðan ákveðið með virðisaukaskattinum að það skyldi vera eitt skattþrep, man ég eftir því að mjög harðar umræður urðu á Alþingi, sérstaklega frá stjórnarandstöðunni og þá sérstaklega frá Alþb., um að það kæmi ekki til greina að fara í ríkisstjórn nema þessi skattur yrði felldur niður eða a.m.k. lækkaður. Ég man ekki orðalagið sem hv. þm. Alþb. notuðu þá, en það mátti alla vega vera ljóst að þeir töldu þetta atlögu gegn því fólki sem þeir töldu sig málsvara fyrir, hina lægst launuðu í þjóðfélaginu. ( KP: Var ekki svo um fleiri?) Ég á von á því og ég man eftir því að við þingmenn Borgfl. lögðum mikla áherslu á að fella þennan skatt niður og við höfum verið trúir því og í stjórnarmyndunarviðræðum eða könnunarviðræðum sem fóru fram í janúar settum við þetta einmitt á oddinn og hvikuðum hvergi frá því. Ég vona að þeir sem hafa fylgst með sjái að við stóðum við þau orð sem við höfðum uppi þegar það mál var til umræðu.
    En það var annað athyglisvert í ræðu hæstv. fjmrh. þegar hann talar um málamiðlanir sem flokkar þurfi að grípa til þegar mynduð er ríkisstjórn. Ég man eftir því að þegar við í september vorum fyrst beðnir um að koma til þeirra viðræðna lá það alveg ljóst fyrir hvað Framsfl. og Alþfl. ætluðu að nota sem sinn samningsgrunn og það varð niðurstaðan. Alþb. kom ekki einu einasta máli í gegn nema það fékk í gegn að það yrði ekki reist álver hér nema með þeirra leyfi og að varaflugvöllur eða hernaðarmannvirki yrðu ekki leyfð nema með þeirra leyfi. En um matarskattinn fóru því miður mjög fá orð. Alþb. gekk inn í ríkisstjórnina án þess að reyna svo mikið sem að lækka þennan skatt.
    En ég fagna því að það er óbreytt afstaða Alþb. til söluskattsins á matvæli og þá virðisaukaskattsins þegar hann kemur og ég vænti þess að það frv. sem ég hef lagt hér fram um niðurfellingu á söluskatti fái stuðning hjá einhverjum þingmönnum Alþb. og það frv. sem hér er, sem Júlíus Sólnes er 1. flm. að, fái líka stuðning og að þingmenn Alþb. verði trúir sinni sannfæringu að það sé rétt að það skuli vera tvö söluskattsstig eða þá tvö virðisaukaskattsstig. Og ég vona það líka um Alþfl.
    Það er rétt að með tveimur virðisaukaskattsstigum mun þurfa að fjölga hjá innheimtuaðilum. Það liggur líka ljóst fyrir að með upptöku virðisaukaskattsins þarf að fjölga. Mig minnir að talað hafi verið um að fjölga við upptöku virðisaukaskattsins um 30 manns hjá tollstjóra.

    Ég hef ekki sömu skoðun og hæstv. fjmrh. og fyrirrennari hans að eitt söluskattsstig eða eitt virðisaukaskattsstig hafi úrslitaáhrif um hvernig innheimtan gangi. Ég hef frekar trú á því að með virku eftirliti og virkum viðurlögum megi bæta innheimtuna. Mér er það a.m.k. kunnugt að allur sá söluskattur sem á að greiða innheimtist ekki, bæði að það er beinn undandráttur og einnig hitt að það er skilað söluskattsskýrslum og skatturinn síðan ekki innheimtur. Það er nauðsynlegt að hafa virkt eftirlit með söluskattsskilum, bæði því að þeir sem skila söluskattsskýrslum greiði í samræmi við það sem skýrslurnar segja til um og hins vegar að farið sé ofan í starfsemi hinna og þessara fyrirtækja og athugað hvort rétt skil hafi verið gerð. Þetta eftirlit hefur vantað og varð engin breyting þó svo að mælt væri fyrir um eitt söluskattsstig. Þarna er einmitt mergur málsins. Það er eftirlitið og stjórn eftirlitsins sem skiptir meginmáli en ekki hvað eru mörg stig í söluskatti og virðisaukaskatti.
    Ég get minnst á það hér að ég varð vitni að því í Bandaríkjunum að búð var lokað og allir sem voru inni í búðinni þurftu að yfirgefa þessa verslun. Það hafði nefnilega komið í ljós að eitthvað gruggugt var við skilin á virðisaukaskatti í þessari ákveðnu búð og eftirlitsaðilarnir höfðu heimild þegar svo stóð á til að loka þangað til eigandinn gerði fulla grein fyrir því hvernig á því stæði að það bæri ekki saman tölum. Ég er ekki að mæla þessu sérstaka kerfi bót, en eitthvað í þessa veru þyrfti að vera hér á landi. Það þurfa að vera ákveðin úrræði sem eftirlitsaðilarnir hafi til að koma í veg fyrir söluskattssvik. Það þýðir ekki eins og hér er að það sé 10--15 manna hópur sem sé að reyna að myndast við að hafa eftirlitið. Það þarf að vera miklu, miklu virkara.
    Þetta vildi ég segja í þessari umræðu. Ég held að það sé alveg ljóst að það eitt að hafa eitt söluskatts- eða virðisaukaskattsstig skipti ekki höfuðmáli eins og ég rakti áðan og það liggur líka ljóst fyrir að með því að hafa tvö söluskattsstig eða tvö virðisaukaskattsstig og lækka með því verð á matvælum sem er allt of hátt komi það hinum lægst launuðu til góða. Sérstaklega núna,
þegar samdráttur er í þjóðfélaginu og ekki er grundvöllur undir miklum hækkunum launa, verður ríkið að koma inn í og lækka verð matvæla og með þeim hætti að sýna að það sé vilji hjá því til að auka kaupmátt launa.
    Ég vil að lokum aftur þakka fjmrh. fyrir að taka þátt í þessari umræðu og vona svo sannarlega að þegar frv. mitt um lækkun á söluskatti kemur hér til umræðu verði hann við og tjái sig um það frv.