Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Það er kannski ekki ástæða til þess að lengja mjög þessa umræðu. Þeir hv. flokksbræður hafa ást við um skoðanir að því er varðaði það að menn ættu að vera sveigjanlegir í stjórnmálum.
    Ég get að mörgu leyti tekið undir með hæstv. fjmrh. Auðvitað eru menn í pólitík til að reyna að hafa áhrif og menn gera það oft á tímum með sveigjanleika. Menn geta ekki alltaf gengið beina braut þó að menn kannski vildu það sumir hverjir. Menn ná þá kannski meiri árangri með því að ná saman við aðra aðila þó það sé ekki nákvæmlega á sömu grundvallarforsendum og viðkomandi flokkur ætlaði sér að gera.
    En það sem ég ætlaði fyrst og fremst að segja nokkur orð um er það að menn hafa mikið rætt hér um launamál. Alltaf finnst mér eins og maður sé nánast í kennslustund þegar hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir fer í ræðustól. Það er eins og hún sé að kenna okkur hinum og við eigum að nema. Ekki dreg ég í efa hæfileika hv. þm. til þess þó að ég hafi ekki alltaf tekið mikið á mig af því og sé kannski slæmur nemandi þess vegna.
    Mér finnst hún eins og allt of margir aðrir þegar þeir tala um launamálin og kjaramálin gleyma hluta af því dæmi sem menn verða að hafa inni í myndinni þegar á að ræða kjara- og samningsmál. Við skulum taka dæmið eins og það stóð í haust. Hvað hefði átt að gerast þá? Það átti vissulega að eiga sér stað kauphækkun eins og um var samið. En samkvæmt lögum átti að fylgja því eftir með gífurlegum verðhækkunum sem hefðu tekið miklu meira en sem kauphækkuninni nam. Hvernig vildu menn bregðast við þessu? Ég hef ekki séð það. Þó var spurt um það í umræðum hér í haust. Ég hef ekki séð hvernig menn ætluðu sér að taka á þeim hluta dæmisins. Og þá spyr ég í framhaldi af því: Var launafólk, ekki síst það sem er verst sett gagnvart launum, betur sett þó það hefði fengið 2,5% kauphækkun ef verðlag hefði dunið á eins og það hefði gert ef ekki hefði verið gripið í taumana? Mér er alveg ljóst og ég tek undir það að inngrip í kjarasamninga er neyðarbrauð og á helst ekki að þurfa að gera slíkt og það er ekkert ljúft, a.m.k. ekki fyrir mig og ýmsa aðra, að standa að slíkum gerðum. En menn geta ekki einblínt á annan þáttinn í því dæmi. Menn verða að hafa heildarmyndina fyrir sér, hver hún hefði orðið ef kauphækkanirnar hefðu gengið fram og það sem á eftir átti að fylgja. Þá fullyrði ég a.m.k. að það fólk sem er verst sett hefði verið miklu verr sett ef það hefði verið gengið fram með þeim hætti en þó það varð með því sem gert var og gripið inn í. Um þetta geta menn deilt, hvort menn eiga að láta mál þróast með þessum hætti en þau verki á þann veg að setja fólk í verri stöðu en það var í fyrir.
    Ég segi það a.m.k. að því er varðar það fólk sem ég þekki best til og það er innan láglaunafélaganna að það fólk hefði verið miklu verr sett ef mál hefðu gengið fram með þeim hætti að kaupið hefði hækkað

samkvæmt samningum og verðlag síðan fylgt í kjölfarið og við vitum hvað það hefði þýtt. Þetta á ekki að þurfa að segja fólki sem hefur þó nokkra lífsreynslu í pokahorninu. Við vitum alveg ganginn í hvernig þetta hefur gerst undangengin ár og áratugi, hvað slíku fylgir. Það er þetta sem menn verða að skoða í samhengi þegar menn tala um launa- og kjaramál. Það er ekki hægt að taka annan þáttinn þó að menn gjarnan vildu það hverju sinni, hanga á því besta, skilja hitt eftir. Það er þetta held ég sem stjórnmálamenn og kannski margir í verkalýðshreyfingunni og trúlega býsna margir aðrir vilja oft gera þegar þeir tala um þessi mál. Menn tala alltaf á þann veg að það sé hægt að gera allt það besta fyrir alla. En það er mesti misskilningur. Menn verða einu sinni, ef þeir fara út í svona á annað borð, gefa sig að verkalýðsmálum, gefa sig í stjórnmál, þá á ég við heiðarlega stjórnmálabaráttu, að vera heiðarlegir líka að því er varðar málflutning og taka á öllum þáttum þeirra mála sem um er að ræða hverju sinni. Það er ekki hægt að tala um annan liðinn í þessu dæmi.
    Ég er ekki í neinum vafa um að verst setta fólkið hefði orðið enn verr úti hefðu málin þróast eins og þau hefðu átt að gerast samkvæmt þeim lögmálum sem menn hafa gefið sér. Og ég bið menn líka að hafa inni í myndinni að þá hefðu þeir sem best voru settir fyrir í launum getað náð sínu fram meðan hinir voru bundnir. Ég bið menn að gleyma því ekki. Það voru stórir hópar. (Gripið fram í.) Það voru t.d. flugmenn. Tökum dæmi. Við höfum MR-menn eða hvað á að kalla það, einhverjir fleiri þó ég muni það ekki á þessari stund. Þeir gátu farið sínu fram á sama tíma og láglaunafólkið var bundið fram í apríl með samninga. Nema því þá aðeins að menn hefðu viljað svipta öllum samningum af og láta alla sitja við sama borð við samningsgerð frá og með þessum tíma. Það gat auðvitað komið til. En eins og þetta var hefði þetta blasað svona við launafólki. (Gripið fram í.) Nú er ég ekki svo spámannlega vaxinn að ég geti alveg sagt til um hvað verður með framhaldið. (Gripið fram í.) Það er mesti misskilningur hjá hv. þm., enda er hann svo ungur að hann á mikið eftir ólært. (Gripið fram í.) Já, það þyrftu kannski fleiri að fara í kennslustund í þessum fræðum. Ég tek undir það með hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur að það þyrftu fleiri að fara í kennslustund í þessum fræðum.
    Það er ekkert gamanspaug, og ég held að ég geti sagt nokkuð um það, að
standa í forustu innan verkalýðshreyfingarinnar í því umróti sem verið hefur í þjóðfélaginu og það er því miður svo að flestir af þeim sem gagnrýna hvað mest kjósa fyrst og fremst að standa fyrir utan og gagnrýna að baki, vilja ekki koma til liðs og standa í fylkingarbrjósti við bakið á þeim sem þeir ætla sér þó að tala fyrir. Það er mikill skortur á því að fólk sýni ábyrgð í þessum efnum.
    Ég skal ekki, herra forseti, hafa öllu lengra mál að því er þetta varðar nema tilefni gefist til, en mér fannst nauðsynlegt að rifja upp fleiri þætti í því sem

var að gerast á þeim tíma sem menn hafa talað um í dag en þann þátt sem sneri beint að kaupákvörðunum en öðru gleymt.