Almannatryggingar
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Flm. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Þetta frv. sem ég flyt hér er þess efnis að á eftir 1. mgr. 12. gr. laga um almannatryggingar komi ný málsgrein þar sem Tryggingastofnun er heimilt, þegar ekki verður séð hver örorka verður til frambúðar eftir slys eða sjúkdóma, að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 12 mánuði, eða þar til unnt er að varanlegt örorkumat geti farið fram, en þó aldrei lengur en í 18 mánuði. Skilyrði er að sjúklingur gangist undir greiningu eða meðferð á sjúkrastofnun en utan stofnunar eftir reglum sem tryggingaráð setur og heilbr.- og trmrh. staðfestir.
    Það er löngu viðurkennt að oft er þörf á langvarandi endurhæfingu eftir sjúkdóma og slys. Á hinum Norðurlöndunum hefur í mörg ár verið greiddur endurhæfingarlífeyrir þeim sem orðið hafa fyrir þungbærum sjúkdómum eða örkumlast af slysum. Reistar hafa verið sjúkrastofnanir sem beinlínis hafa það að markmiði að greina afleiðingar langvarandi sjúkdóma og slysa en einnig að endurhæfa þá sem fyrir slíkri ógæfu hafa orðið. Þessar sjúkrastofnanir eru bæði til í Svíþjóð og Finnlandi.
    En þrátt fyrir að margt hafi áunnist í okkar almannatryggingalöggjöf og miklar framfarir hafi orðið á flestum sviðum endurhæfingar þá hefur ekki verið hugað að þessu atriði sem skyldi.
    Með þessu frv. er reynt að bæta úr brýnni þörf þeirra einstaklinga sem orðið hafa fyrir þungbærum sjúkdómum og slysum. Að því er fróðir menn telja má ætla að um 100 einstaklingar nytu endurhæfingarlífeyris á ári hverju þó að ekki sé hægt að segja nákvæmlega til um það. Ég tel að hér sé um ótvíræðan þjóðhagslegan ávinning að ræða auk þeirrar lífsfyllingar sem einstaklingarnir munu öðlast við aukið vinnuþrek.
    Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.