Ríkisreikningur 1987
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð hér í sambandi við frv. um samþykkt ríkisreiknings fyrir 1987, fyrst og fremst til að vekja athygli á því, sem raunar hefur komið fram í umræðum áður um ríkisreikninga og fjáraukalög, hvað raunverulega er mikið ósamræmi þarna í störfum Alþingis, ef má orða það svo. Við í fjvn. erum núna að fjalla um fjáraukalög fyrir árið 1987 og gefum okkur allmikinn tíma í það. Við erum þegar búin að plana fimm reglulega fundi í nefndinni með yfirheyrslum í sambandi við hinar ýmsu stofnanir og ráðuneyti sem gefa tilefni til athugasemda og skýringa í sambandi við yfirskoðunarskýrslu á ríkisreikninginn og eins í sambandi við þá skýrslu sem hér liggur fyrir frá Ríkisendurskoðun.
    Það gefur auga leið að raunverulega hefði átt að taka þetta saman, ríkisreikning og fjáraukalög, og ræða það hér ítarlega inni á Alþingi hvernig til hefur tekist í sambandi við meðferð þessara mála. Ég geri ráð fyrir því að fjvn. muni skila ítarlegu áliti um fjáraukalögin í sambandi við árið 1987 vegna þess að hún er sammála um það, og það er hæstv. fjmrh. einnig, að reyna að stemma stigu við því að þetta gerist ár eftir ár, að ekki sé tekið mark á fjárlögum og upplýsingar um meðferð fjármála í sambandi við ríkisfjármál almennt, hvort sem það er í ráðuneytinu eða stofnunum, sé með slíkum hætti að það er full ástæða til að stemma stigu við þessu eða reyna að koma í veg fyrir að áframhald verði á þessari meðferð á fjármunum. Þess vegna erum við núna dag eftir dag með viðræður við hina ýmsu aðila sem einmitt ríkisreikningurinn og fjáraukalögin fyrir árið 1987 gefa tilefni til.
    Ég geri ráð fyrir því að nefndin muni óska eftir því í samráði við fjmrh., sem hefur áhuga fyrir því að reyna að komast fyrir a.m.k. stærri hlutann af þeim óeðlilegu vinnubrögðum sem hefur viðgengist í áraraðir í sambandi við þessi mál, að settar verði ákveðnar verklagsreglur um þessi mál og e.t.v. er þörf á lagabreytingu eins og margir hafa talað um.
    Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram vegna þess að talsverður dráttur getur orðið á því að fjáraukalögin fyrir árið 1987 komi hér inn í deildina einmitt vegna þess að fjvn. ákvað það að leggja gífurlega vinnu í skýrslurnar, í fjáraukalögin og í skýrslur Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna að gefnu tilefni. Og vegna ræðu hv. síðasta ræðumanns tel ég að rétt sé að láta þessa skýringu koma, sem sagt að það er vinna í gangi núna um þessi mál. Við viljum fá fram skýringar á því hvers vegna þessi misvíxlun er svona gífurleg eins og kemur fram í þessum ríkisreikningi.