Eignarleigustarfsemi
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Á þskj. 610 liggur fyrir samhljóða álit fjh.- og viðskn. um frv. og segir þar að nefndin leggi til að frv. verði samþykkt með þeim 13 brtt. sem birtar eru á sérstöku þingskjali. Hér er ekki um meiri háttar efnisbreytingar að ræða, heldur miða flestar þeirra að því að kveða skýrar á um ýmis ákvæði frv. Meiri hluti þessara breytinga byggist á athugasemdum frá bankaeftirliti Seðlabankans. Þrír nefndarmannanna, hv. þm. Matthías Bjarnason, Kristín Halldórsdóttir og Hreggviður Jónsson, áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.
    Nefndin aflaði sér skriflegra umsagna um frv. frá Landssambandi smábátaeigenda, Vinnuveitendasambandi Íslands, Samstarfsráði verslunarinnar, bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, Neytendasamtökunum og fjármögnunarfyrirtækjunum Féfangi, Lind, Glitni og Lýsingu.
    Undir þetta rita auk formanns Matthías Bjarnason, Ragnar Arnalds, Kristín Halldórsdóttir, Guðmundur G. Þórarinsson, Árni Gunnarsson og Hreggviður Jónsson.
    Eins og segir í nál., herra forseti, er hér ekki um veigamiklar efnisbreytingar á frv. að ræða, heldur fyrst og fremst kveðið skýrar á um starfsemina. Lagt er til að herða ákvæði um endurskoðun. Eignarleigusamningar skulu vera skriflegir og ítarlegir og talin upp þar atriði sem til greina koma. Okkur þykir í nefndinni eðlilegt að viðskrn. láti útbúa sérstök eyðublöð til að gera þessa samninga á. Í því gæti falist nokkur neytendavernd ef þar væru svona til áminningar dálkar fyrir hin ýmsu tilvik.
    Það eru sett inn þarna ákvæði um vátryggingar og bótaábyrgð gagnvart þriðja aðila, kveðið skýrar á um meðferð gjaldeyris o.s.frv. sem ég nenni ekki upp að telja.
    En það er sem sagt samhljóða álit fjh.- og viðskn. að leggja til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem fyrir liggja á þskj. 611.