Eignarleigustarfsemi
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Herra forseti. Aðeins örfá orð um afstöðu mína. Eins og fram kemur í nál. gerði ég ásamt tveimur öðrum hv. nefndarmönnum þann fyrirvara að við áskildum okkur rétt til að flytja eða fylgja brtt. er fram kynnu að koma sem er bara varnagli sem okkur þótti sjálfsagt að hafa í nál.
    Nefndin var, eins og fram kemur, sammála um afgreiðslu frv. þótt við hefðum í rauninni kosið að fá meiri umþóttunartíma. Ekki það að málið hafi ekki verið lengi til umfjöllunar í nefndinni, þetta er eitt af fyrstu málum þingsins, en svo mörg mál og erfið úrlausnar hafa lent í eftirrekstri í hv. fjh.- og viðskn. að þetta frv. lenti svona með vissum hætti í of miklum hjáverkum.
    Hér er hins vegar um mjög brýnt mál að ræða, nauðsynlega lagasetningu um tiltölulega nýja starfsemi sem hefur þó fengið nokkurt næði til þess að þróast án lagalegs ramma. Um þessa starfsemi er það að segja að hún uppfyllir vissa þörf, en að mínu viti er enginn vafi á því að hún hefur átt sinn stóra þátt í mikilli þenslu síðustu ára. Það var því full þörf á því að afmarka verksvið hennar með lögum.
    Þrátt fyrir áðurnefndar annir hv. fjh.- og viðskn. reyndum við að fara ítarlega yfir þetta frv. og nutum við það aðstoðar kunnáttumanna um þessi viðskipti. Persónulega þekkti ég nákvæmlega ekkert til þessarar starfsemi sem hér um ræðir en tel mig nú ögn fróðari eftir en áður. Vildi ég þó gjarnan vita miklu meira. Það er reyndar með þetta mál eins og svo mörg önnur, og það er verulegt umhugsunar- og áhyggjuefni, að það er auðvelt að nálgast málið frá annarri hliðinni en illmögulegt frá hinni, þ.e. þeir sem veita þjónustuna og hugsa fyrst og fremst um hag sinna fyrirtækja eru í góðu kallfæri en notendur eru svo breytilegur og ósamstæður hópur að þeirra sjónarmið liggja ekki á sama hátt á lausu. Á þetta rekum við okkur í mjög mörgum málum og tökum e.t.v. sem of sjálfsagðan hlut. Ég get nefnt sem dæmi mál sem við kvennalistakonur höfum reynt að vinna fylgi hér á Alþingi, nefnilega að almenningi sé gert kleift að hafa meiri áhrif á ákvarðanir í einstökum málum á milli kosninga, þ.e. geti fengið almenna atkvæðagreiðslu um einstök mál meðan þau eru á undirbúningsstigi. Við lítum á þetta sem mjög mikilvægan lið í aukinni valddreifingu og virkara lýðræði. Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum eru umsagnaraðilar eiginlega sjálfkrafa fulltrúar kerfisins og þeir vilja að sjálfsögðu ekki draga úr valdi kjörinna fulltrúa en það er mjög erfitt að leita beinna umsagna frá almenningi sem hag hefði af öllum réttingum af þessu tagi. Þetta er kannski útúrdúr, en tilefnið er einmitt frv. sem við ræðum hér.
    Við sem sagt reyndum að fara rækilega í einstök atriði þessa frv. og sníða af því agnúa og urðum sammála um þau atriði. Það er alls ekki svo að stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn séu alltaf í háa rifrildi eða ósammála um hlutina og þetta er eitt dæmi um slíka vinnu. Brtt. okkar lúta einmitt að því að reyna að tryggja fyrst og fremst rétt

notenda þessarar þjónustu, tryggja öryggi í rekstri og eftirlit með starfseminni. Við lögðum aðaláherslu á að reyna að útiloka vafaatriði sem í framkvæmd mundu verða notendum í óhag og reyndum að búa svo um hnúta að endirinn ætti að geta verið ljós í upphafi málsins. Og að því lúta fyrst og fremst ákvæði 9. gr. um gerð samninga, en mjög áríðandi er að um það atriði séu skýr og ótvíræð ákvæði. Tíminn verður svo að leiða í ljós hvernig til hefur tekist.