Verndun fornleifa
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Flm. (Alexander Stefánsson):
    Herra forseti. Það fer ekki hjá því í langri setu á hv. Alþingi að maður geti ekki orðið rækilega undrandi yfir ræðum hv. þm. eins og ég verð í sambandi við ræðu hv. 13. þm. Reykv. og ekki síst fyrir það að hv. þm. er forseti Sþ. og á að kunna skil á því hvaða ( GHelg: Þingmaðurinn situr hér sem þingmaður í deildinni.) rétt þingmenn hafa og frelsi til bæði skoðanaskipta og til að setja fram þau mál sem þeir hafa áhuga fyrir. Ég hélt satt að segja að hv. þm., sem hefur þetta mikla þingreynslu og hefur fengið traust þingsins að skipa æðsta embætti þess, léti sig ekki hafa það í fljótræði að koma upp í ræðustól og atyrða þingmenn úr fimm stjórnmálaflokkum fyrir þá ósvífni að leggja fram frv. til l. um verndun fornleifa af þeirri einföldu ástæðu að þeir töldu mikilvægt að fá breiðari umræðu um málaflokkinn í heild en kom fram í því frv. til þjóðminjalaga sem hv. þm. og forseti Sþ. er 1. flm. að.
    Ég verð að segja að mér finnst þetta ákaflega furðulegt og ekki síst með tilvísun í þær umræður sem fóru fram um það frv. þar sem hver þingmaðurinn á fætur öðrum lýsti áhuga sínum fyrir því að taka einmitt þetta mál og gefa því meira vægi í því frv. til laga en þar er og töldu æskilegt að svo hefði getað orðið.
    Ég verð að undrast það líka að hv. þm. skuli láta út úr sér að það sé undrunarefni að flm. að þessu frv. séu tveir fulltrúar í fjvn. Ég skil ekki samhengið þarna á milli, hv. þm.
    Í öðru lagi er alveg ljóst að það sem hv. þm. var að vitna í um skipan þeirrar stjórnar á þessum málum sem hér er lagt til á ekkert skylt við þá röksemdafærslu sem hv. þm. kom með. Hv. þm. var að vitna í skipan þjóðminjaráðs sem er að hluta til í núgildandi lögum. Í því frv. til þjóðminjalaga sem hv. þm. vitnar til er miklu meira svið og í frv. sem við erum hér að mæla fyrir um verndun fornleifa er það bara sérþáttur. Ef Alþingi kæmist að þeirri niðurstöðu að það væri eðlilegt að hér væri um sjálfstæða stofnun að ræða er það eðlileg uppsetning sem þar kemur fram á þeim sem eiga að hafa yfirstjórnina. En það raskar ekkert uppsetningu á þjóðminjaráði sem er sett fram í frv. til þjóðminjalaga þannig að þetta er algjörlega óskylt mál og rökvilla að halda svona vitleysu fram.
    Ég þarf ekki í sjálfu sér að hafa meira mál um þetta. Við erum hér einvörðungu að ræða um verndun fornleifa sem við vitum og er viðurkennt að hafa verið hornreka í meðferð þessara mála hér á landi til þessa dags. Við erum að vitna í aðrar þjóðir í kringum okkur sem gera þetta að aðalatriði, enda er saga hverrar þjóðar bundin við þennan þátt mála. Þess vegna er aldeilis útilokað að hlusta á það úr ræðustóli á hv. Alþingi að hv. þm. Guðrún Helgadóttir, forseti sameinaðs þings, skuli leyfa sér að halda því fram að einhver einn einstaklingur í þjóðfélaginu hafi pínt og pressað fimm fulltrúa stjórnmálaflokka til að flytja það frv. sem hér er lagt fram um verndun fornleifa. Það

er lítilsvirðing við þingmenn og það er líka lítilsvirðing við sjálfan hv. þm. sem lætur þetta út úr sér. Ef við tölum um pressu væri miklu frekar að tala um pressu á okkur þingmenn sem höfum flutt þetta frv. frá öðrum aðilum og ég ætla ekki að ræða um það í ræðustól á Alþingi hvaða aðilar það eru.
    En ég tel að það sé ákaflega óeðlilegt að halda því fram að hér sé um frumvarpsflutning að ræða sem mætti líta svo á eftir málflutningi hv. þm. að væri skemmdarstarfsemi eða niðurrifsstarfsemi. Sér er nú hver niðurrifsstarfsemin! Ég fullyrði að þetta frv. á erindi til þjóðarinnar og við gerum enga kröfu, eins og kom fram í mínum málflutningi og raunar hjá fleirum, um að það verði niðurstaðan að þetta verði sérstofnun. Ég tók fram í minni framsögu að það gæti alveg eins komið að notum ef þetta yrði sérstök sjálfstæð deild í Þjóðminjasafninu eða kafli í þjóðminjalögunum sjálfum, miklu sjálfstæðari og hefði meiri möguleika en kemur fram í frv. um þjóðminjalög sem liggur fyrir til afgreiðslu í nefndinni. Ég tel ásökun hv. þm. algjört frumhlaup og væri ástæða til að hv. þm. Guðrún Helgadóttir bæði okkur flm. afsökunar á frumhlaupi sínu.