Verndun fornleifa
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Flm. (Alexander Stefánsson):
    Herra forseti. Auðvitað gat ég sagt mér það sjálfur að hv. þm. Guðrún Helgadóttir mundi ekki biðjast afsökunar á frumhlaupi sínu, svo að ég noti hennar eigin orð. Þetta er frumhlaup. Hún hefur notað það oft í umræðu á hv. Alþingi eins og sjá má í þingræðum ef vel er leitað.
    Það væri umhugsunarvert fyrir hv. þm. að einn af virtari þingmönnum Alþb. skrifaði ekki upp á þetta þskj. af þeirri einföldu ástæðu að hann var formaður menntmn. deildarinnar, en hann var samþykkur þessu frv. eins og það liggur hér fyrir. Það væri efni í annan umræðuþátt að ræða nánar við hv. þm. um hvaða leyfi og frelsi hv. þm. hafa til að bera fram mál.
    Ég ætla bara að láta hv. þm. vita að það frv. sem hér um ræðir er sennilega með merkilegri málum í þessum málaflokki sem fram hefur verið borið hér vegna þeirrar einföldu ástæðu að lög um fornleifavernd eru hornsteinn í allri menningarlöggjöf um þessi mál í öðrum löndum. Þau eru það alveg eins hér á Íslandi. Ég ætla að láta hv. þm. um frekari gagnrýni á frv. ef hann er fær um það. En ég ætla að láta hv. þm. vita að þessi tilraun okkar þingmanna úr fjórum flokkum þingsins er einvörðungu tilraun til að marka framtíð þessara mála. Það hefur verið margtekið fram að þó að við í frv. flytjum einvörðungu frv. um verndun fornleifa og leggjum til að það verði sérstök fornleifastofnun erum við alveg eins til viðræðu um að í fyrstu lotu verði þetta sjálfstæð deild í Þjóðminjasafni, miklu sjálfstæðari og sterkari en er í því frv. sem hv. þm. var að lýsa áður og hefur verið til umræðu áður á þinginu. Það kom fram, eins og ég þarf raunar ekki að endurtaka, við þær umræður gagnrýni frá mörgum, meira að segja fulltrúum sem voru í þeirri nefnd sem samdi frv., að það vantaði meira sjálfstæði og meiri reisn yfir þennan þátt mála en er í því frv. Ég þarf ekki að endurtaka það. Fornleifavernd og allt sem viðkemur henni hér á Íslandi hefur verið hornreka í þessum málum. Þetta eru þýðingarmikil atriði og um allt Ísland eru menningarverðmæti og fornleifaverðmæti í beinni hættu ef ekki verður tekið sterkara á þessum málum en hingað til hefur verið gert.
    Ég ætla ekki að endurtaka það, sem ég sagði í svarræðu minni við hv. þm. áðan, að skipan þessara mála í sambandi við þjóðminjaráð og annað slíkt er með allt öðrum hætti í frv. sem nær yfir allt sviðið, þ.e. þjóðminjalögin, en er í þessu afmarkaða sviði í þessu frv. og þarf ekki að rökstyðja það nánar, það er svo sjálfsagt.
    En ég vil endurtaka að mér finnst ástæðulaust að vera að drótta því að þessum þingmannahópi, sem flytur þetta frv., að við séum að gera ranga hluti og við höfum ekki leyfi til að gera það og að við séum að leggja það fram vegna þrýstings einhvers eins aðila í þjóðfélaginu. Þetta er algjörlega órökstutt og raunar þeim til minnkunar sem þannig halda á málum. Ég enda á því að ég tel að þetta frv. hafi fullt gildi og það sé löngu tímabært að láta þetta koma fram í

þessu formi og ég vænti þess að hv. menntmn. Alþingis, bæði Nd. og Ed., athugi vel þessi mál á breiðum grundvelli áður en til lokaafgreiðslu kemur.