Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Við lokaafgreiðslu þessa máls í hv. Ed. vildi ég kannski vekja athygli á einu atriði sem við höfum lítillega rætt en mér finnst vanta mjög inn í frv. Það er hvernig á að taka á pappírslausum verðbréfaviðskiptum sem mjög ryðja sér til rúms í nágrannalöndunum, þ.e. verðbréfaviðskipti fara orðið að stórum hluta til í gegnum tölvukerfi stóru bankanna og víða hefur verið gripið til þess ráðs að stofna til sérstakrar verðbréfaskráningar þar sem móðurtölva sér um skráningu allra verðbréfa og verðbréfin komast í raun og veru aldrei á pappír. Þau eru bara til í tölvukerfum stórbankanna og í tölvukerfi verðbréfamiðstöðvarinnar. Þetta er hlutur sem við verðum að taka á og er miður að það skuli ekki hafa verið gert strax við samningu þessa frv. en ég vænti þess að gerðar verði ráðstafanir til þess að bæta þessu við lögin um verðbréfasjóði og verðbréfafyrirtæki eins fljótt og auðið er því að það er alveg ljóst að ef við ætlum að tengjast hinum almenna fjármagnsmarkaði nágrannalandanna munu öll þau viðskipti verða pappírslaus, þ.e., allt verður byggt á tölvufjarskiptum.
    Í mínum huga eru enn þá efasemdir varðandi 12. gr. frv. þar sem um er að ræða hvert skuli vera lágmarks eigið fé verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða. Í frv. er gert ráð fyrir að lágmarks eigið fé skuli nema 2% af --- ég man nú ekki hvernig það var orðað, hvort það var af nafnverði skuldabréfanna eða höfuðstóli verðbréfasjóðsins. Frá bankaeftirlitinu komu hins vegar athugasemdir við þetta atriði og þar var lagt til að eigið fé verðbréfafyrirtækja ætti að vera að lágmarki 10% af heildarskuldbindingum fyrirtækisins. Ég tel að á þessu stigi sé ekki rétt að bera fram brtt. eða gera frekari athugasemdir út af þessu atriði, en ég held að þetta þurfi þó að skoða betur og má þá taka það með öðru sem áreiðanlega kemur upp því að ef fer sem venjan er orðin þarf að taka þessi lög sem eru samþykkt frá hinu háa Alþingi í fyrsta sinn og endurskoða þau. Það er vaninn að þau koma aftur til kasta Alþingis stuttu síðar því að þá, þegar reynslan er komin af lögunum, þarf oft að bæta við og laga og geri ég ráð fyrir að við fáum þá tækifæri til að leiðrétta þetta.