Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Eins og ég gat um hér við 2. umr. málsins í gær er enginn vafi á því að þessa löggjöf þarf fljótlega að endurskoða. Hún getur ekki verið gallalaus frekar en önnur mannanna verk og þess vegna hygg ég að það sé rétt athugasemd hjá hv. síðasta ræðumanni að þar þurfi m.a. að fjalla um það hvernig fari með þau nútímalegu viðskipti sem nú eru að verða í heiminum þar sem peningar eru nánast ekkert í umferð í eiginlegri merkingu, heldur eru verðbréf og peningaflutningar meira og minna komin í tölvu.
    Nú skal ég játa að ég er síst af öllu sérfræðingur í tölvuvísindum. Það er rétt að maður kann á vasatölvu, en kannski getur maður lært á þessar venjulegu litlu tölvur í staðinn fyrir ritvél. Ég held að athugasemdin sé engu að síður rétt. Hins vegar tel ég ekki tímabært að reyna að fást við það úrlausnarefni á þessari stundu. Ég held að meiri vitneskja þurfi að koma inn í landið til þess að við getum fjallað um það af einhverju viti og þess vegna sé eðlilegt að afgreiða frv. einmitt með þeim hætti sem hér er lagt til. Raunar hefur það verið svo um mjög langt skeið að t.d. hlutabréf, sem hér eru venjulega á stærðar pappírum og stimpilskyld og ég veit ekki hvað og hvað, hafa kannski varla komist á blöð, meira að segja í t.d. opnum sjóðum sem versla með hlutabréf ekki síður en verðbréf önnur, skuldabréf. En allt eru það verðbréf eftir lagamáli, bæði hlutabréf og skuldabréf. Ég held að kannski sú hliðin, að komast hjá þessari útgáfu hlutabréfa með þeim hætti sem hér er, yrði kannski það sem brýnast væri að koma einmitt inn í tölvur því að það er alkunna að menn týna bréfunum, það þarf að ógilda þau o.s.frv., og þar að auki er mjög kostnaðarsamt að gefa þau út. T.d. þarf stöðugt að vera að gefa út jöfnunarbréf þegar verðbólga er með þeim hætti sem hérna er, ef fyrirtækin þá efnast svo að þau geti gefið út bréfin. Allt þetta þarf auðvitað að athuga og vafalaust verður þetta allt tölvuvætt. Við lifum á tölvuöld. Við komumst ekkert fram hjá því, ekki einu sinni ég og mínir líkar sem kunnum ekkert á þetta system. Við verðum að búa við það og við vonum það besta af þróuninni, en ég held að ástæðulaust sé að við höfum af því áhyggjur einmitt núna.
    Að því er varðar aftur 12. gr. held ég að þetta öryggi sem þar er sé alveg nægilegt vegna þess að ef ég skil greinina rétt fjalli þetta um verðbréfasjóði, nokkurs konar sameignarsjóði, þar sem upphæðirnar á samanlögðum hlutabréfum eða skuldabréfum geta auðvitað verið mjög háar. Hins vegar er deilt í sameiginlega eign manna í þessum skuldabréfum þegar verðmæti sjóðanna eru fundin út og þess vegna er ekki hætta á því, held ég, að nein slys geti gerst eða fólk tapað peningum öðruvísi en með þeim hætti að sameiginlegar eignir sjóðsins lækki óeðlilega. Ég held að þetta sé hóflegt mark á meðan sjóðirnir eru að þróast, enda lagði hv. þm. Júlíus Sólnes ekki til að breyta þessu ákvæði.