Eignarleigustarfsemi
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um eignarleigustarfsemi eins og það kemur frá hv. Nd. Eignarleiga er nýyrði fyrir enska orðið ,,leasing`` sem margir nágranna okkar hafa tekið óbreytt upp í sitt tungumál. Hér á landi hefur nokkuð tíðkast að nota orðið ,,fjármögnunarleiga`` yfir þessa starfsemi. Mér finnst það heldur óþjált orð og hef því í samráði við Íslenska málnefnd lagt til að þetta verði nefnt samheitinu eignarleiga og eignarleigustarfsemi. Eignarleiga greinist svo á ýmsa vegu, t.d. í rekstrarleigu, kaupleigu og fjármögnunarleigu. En þessi hugtök eru einmitt skilgreind nánar í 1. gr. frv. og í I. kaflanum.
    Þetta frv. er samið af nefnd sem skipuð var í byrjun árs 1988 til að fjalla um starfsemina á fjármagnsmarkaðinum utan banka og sparisjóða og var ætlað að semja frv. að lagaramma um þá starfsemi. Eins og vel er kunnugt af fréttum og umræðum hefur nefndin samið frv. um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði sem þegar hefur hlotið afgreiðslu í þessari hv. deild og er nú til lokameðferðar í hv. Nd.
    Eignarleigustarfsemin á sér langa sögu. Hún hefur rutt sér mjög til rúms á síðustu tveimur áratugum í viðskiptalífi Vestur-Evrópu. Þannig eru t.d. í Vestur-Þýskalandi meira en 50 fyrirtæki sem reka umsvifamikla eignarleigu. Í Noregi eru þau um 25, svo að ég nefni tvö af nágrannalöndum okkar. Það er víða unnið að því að setja lagaramma um þessa starfsemi því víðast hvar vantar reyndar heildarlöggjöf um þetta efni. Þó hafa nýlega verið sett slík heildarlög í Belgíu og Frakklandi, en í mörgum Evrópulöndum eru ekki til heilleg lög um eignarleigustarfsemi. Þetta er þó í raun og veru orðið alþjóðlegt fjármögnunarform og rekið á svipaðan hátt í öllum iðnríkjum. Það hefur verið mikið unnið að því að samræma almennar starfsreglur um eignarleiguna og m.a. hefur Evrópubandalagið haft um það forgöngu ásamt Evrópusambandi eignarleigufyrirtækja, sem kallað er Leaseurope og hefur höfuðstöðvar sínar í Brussel.
    Við samningu frv. sem ég mæli hér fyrir hefur mjög verið leitað um fyrirmyndir til þessara samræmdu reglna innan Evrópu. Reyndar hefur einnig verið samstarf við eignarleigufyrirtækin sem hér starfa. Þau fyrirtæki eru nú fjögur, Féfang, sem var stofnað í lok des. 1986 og tók þá við eignarleiguþjónustu sem Fjárfestingarfélag Íslands hafði rekið, Glitnir, sem hóf starfsemi árið 1985, Lind, sem hóf sína starfsemi 1987, en það ár var einmitt mjög mikið uppgangsár fyrir eignarleigurnar, og Lýsing, sem einnig hóf störf 1987.
    Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum að þetta svið á fjármagnsmarkaðinum hefur aukist mjög og í árslok 1987 voru leigusamningarnir samanlagt að fjárhæð 4,2 milljarðar eða nálægt 1,7% af heildarlánum lánakerfisins. Undirstaðan undir þessa miklu aukningu var auglýsing fjmrn. í febrúar 1986 þar sem skýrt var frá því og tekið fram tvímælalaust að leigugjöld af eignarleigusamningum væru ekki

söluskattsskyld, en á því hafði áður leikið nokkur vafi og var yfirleitt talið að um söluskattsskyldu væri að ræða af þessum leigugjöldum. Þetta er kannski meginskýringin á þeim mikla vexti sem hófst hér á árunum 1986 og 1987. Önnur skýring er þó án efa sú að frá árslokum 1986 var veitt aukið frelsi til vaxtaákvarðana og til verðbréfaútgáfu og loks komu svo til vorið 1987 almennar heimildir til þess að taka erlend lán til flestra véla- og tækjakaupa í atvinnuskyni og eignarleigufyrirtækin höfðu um það milligöngu.
    Eins og verða vill um flestan nýgræðing var vöxturinn kannski dálítið rykkjóttur. Sumt fór miður vel, t.d. bar nokkuð á því að bílar væru keyptir á kaupleigu og smábátar, og þótti ýmsum sem þetta færi nokkuð úr böndum. Vegna þess að þessi starfsemi hefur helgað sér verulegan sess á fjármagnsmarkaðnum þá held ég sé nú mikil þörf á því að setja almennan ramma um starfsemi eignarleigufyrirtækjanna.
    Ég ætla hér að fara fljótt yfir sögu og nefna í örfáum orðum meginefni kaflanna í þessu frv., en þeir eru fimm.
    Í I. kafla frv. eru ýmsar skilgreiningar á hugtökum. Í II. kaflanum eru sett skilyrði fyrir eignarleigustarfsemi. Þar segir t.d. í 4. gr. að slík starfsemi verði einungis heimil fyrirtækjum sem hafi til þess starfsleyfi frá viðskrn. Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eru þau, eins og nú kemur fram eftir breytingar sem gerðar hafa verið í hv. Nd., að fyrirtækið sé hlutafélag og nemi innborgað hlutafé þess a.m.k. 10 millj. kr., að meiri hluti stjórnar félagsins sé búsettur hér á landi, að framkvæmdastjóri félagsins sé búsettur hér á landi, sé ríkisborgari Norðurlandaríkis og sé hann fjárráða með óflekkað mannorð.
    Ég ætla ekki að tíunda efnisatriði I. og II. kafla frv. nánar en þetta, segi svo eingöngu um III. kaflann að í honum er ítarlega fjallað um eftirlit með eignarleigustarfseminni. Þar er t.d. skýrt fram tekið að þetta eftirlit skuli falið bankaeftirlitinu og því jafnframt veittar nauðsynlegar heimildir til að framfylgja sinni eftirlitsskyldu. Í þessu efni er verið að setja almenn
öryggisákvæði fyrir viðskiptavini þessara leigufyrirtækja.
    Í IV. kafla frv. eru svo ákvæði um viðurlög við brotum á lögunum og loks eru í V. kafla ákvæði um gildistöku sem skýra sig sjálf. Með þessum lögum er í raun og veru verið að setja það sem ég vil kalla lágmarkskröfur, lágmarksleikreglur. T.d. eru hér í 8. og 9. gr. frv. kvaðir um upplýsingaskyldu þessara fyrirtækja og að viðskiptavinir þeirra skuli sitja á sama bekk í viðskiptunum. Í 9. gr. eru mikilvæg ákvæði þar sem settar eru fram lágmarkskröfur um efni eignarleigusamninga og ég ætla að vekja sérstaka athygli á ákvæðum 4. tölul. 9. gr. um rétt leigusala og leigutaka til að rifta eignarleigusamningi, en nokkuð hefur á því borið að réttur leigutaka til að rifta leigusamningum samkvæmt ákvæðum

eignarleigusamnings hafi þótt óljós og réttur leigusalans hafi verið ríkjandi. Þetta er auðvitað óviðunandi ástand því að það hefur því miður komið á daginn að ýmsir hafa gert eignarleigusamninga vegna kaupa á fjármunum í atvinnuskyni en hefur svo síðar orðið ljóst að þeir höfðu mjög þungar fjárhagsbyrðar í för með sér. Síðar er menn hafa viljað rifta þessum samningum hefur orðið þyngra undir fæti. Með þeim leikreglum sem hér er gerð tillaga um í 9. gr. yrði þetta algjörlega skýrt að uppsögn á slíkum leigumála sé skýrt skipað í eignarleigusamningum.
    Hæstv. forseti. Það er tilgangur frv. að setja almennan lagaramma um þá starfsemi sem hefur rutt sér mjög til rúms á fjármagnsmarkaðinum hér á landi sl. tvö ár. Löggjafinn og framkvæmdarvaldið marka þessari starfsemi farveg fyrst og fremst með þrennum hætti:
    Í fyrsta lagi með þessu frv. ef það verður að lögum.
    Í öðru lagi, sem er mikilvægt og ég hef þegar nefnt, með reglunum um skattmeðferð leigugjalda og frádráttarbærni þeirra til skatts samanborið við önnur form við fjármögnun. Það hefur nokkuð borið á því í auglýsingum eignarleigufyrirtækjanna að þau hafa haldið því fram að skattmeðferð á þessari aðferð við fjármögnun sé hagstæðari en önnur. Um þetta má reyndar deila. Þetta er í mörgum greinum álitamál, en það er í öllu falli skýrt að skattmeðferð leigugjaldanna ræður úrslitum um það hvort menn telja þetta hagkvæmt eða ekki.
    Í þriðja lagi mótar löggjafinn og framkvæmdarvaldið þessari starfsemi farveg með heimildum til erlendrar lántöku til véla- og tækjakaupa.
    Allir þessir þrír þættir, almennar reglur, skattmeðferð og heimildir til erlendrar lántöku, hafa verið mjög til umræðu og athugunar á þessu og sl. ári. Það er mikilvægt að reyna að koma á festu í starfsskilyrðum þessarar greinar eins og annarra með sanngjörnum og öruggum reglum. Ég legg áherslu á að þetta þingmál, sem er 2. mál þingsins, fái hér skjóta og vandaða afgreiðslu í þingdeildinni.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. og vek athygli á því að víðtæk samstaða tókst um þetta mál í hv. Nd.