Ríkisreikningur 1987
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Sighvatur Björgvinsson:
    Herra forseti. Ég held að hv. þingdeild ætti að gæta sín örlítið í afgreiðslu þessa máls. Þannig er mál með vexti að til þess að þessi afgreiðsla nái fram að ganga með eðlilegum hæætti verður auðvitað að liggja fyrir hver afstaða Alþingis er til fjáraukalaga fyrir árið 1987. Þau fjáraukalög eru nú í meðferð fjvn. og hafa verið haldnir allnokkrir fundir um þau, en niðurstaða af þeirri athugun liggur ekki fyrir þannig að svo gæti farið að ef menn ætluðu að afgreiða ríkisreikning með þessum hætti mundi sú afgreiðsla stangast á við þá tillögu sem kynni að verða lögð fyrir Sþ. Mér finnst það ekki við hæfi, virðulegi forseti, að menn séu með þessum hætti að afgreiða ríkisreikning án þess að fjáraukalög hafi fengið meðferð og vil skjóta því til hæstv. forseta og biðja forseta að taka tillit til þessara atriða í sambandi við meðferð ríkisreikninga annars vegar og fjáraukalaga hins vegar. Ég held að það væri hyggilegt að bíða með endanlega atkvæðagreiðslu um þetta mál og fresta henni þangað til fyrir liggur hvað lagt er fyrir Sþ. um afgreiðslu fjáraukalaga.
    Ég ítreka þá skoðun mína að það er ekki vansalaust með hvaða hætti ríkisreikningar eru afgreiddir á hinu háa Alþingi þar sem því sem næst enginn tími er tekinn í meðferð þeirra, hvorki í þingdeildum né í þeim nefndum sem um þau eiga að fjalla.