Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Mál þetta er komið að nýju til Nd. vegna þeirra breytinga sem Ed. gerði á frv. Þær breytingar lúta að þeirri grein sem helst kom til umræðu þegar málið var til meðferðar í þessari hv. deild. Ég verð að lýsa því að mér sýnist að hv. Ed. hafi gert mjög skynsamlega breytingu á frv. og geri það að verkum að það er miklu aðgengilegra og líklegra til að ná settu markmiði. Ég minni á að sú nefnd sem upphaflega samdi frv. gerði ekki ráð fyrir þeim ákvæðum sem hv. Ed. hefur fellt niður og þessi breyting er mjög í hátt við þá yfirlýsingu sem hæstv. viðskrh. gaf þegar 1. umr. málsins fór fram í hv. Nd. og mjög í samræmi við túlkun hæstv. ráðherra á því orðalagi sem var á greininni í upphafi. Þess vegna lít ég svo á að hér hafi verið gerð skynsamleg breyting.
    Ég minni á að þetta er 1. mál þingsins. Það hefur verið unnið mjög lengi að undirbúningi þessa máls. Hann hófst í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Þessi löggjöf er mjög mikilvæg og brýn. Það hefur lengi verið ljóst að um þessa starfsemi yrði að setja löggjöf. Það kemur fram í athugasemdum með frv. að helsti tilgangur hæstv. viðskrh. með setningu þessarar löggjafar er sá að festa verðbréfastarfsemi í sessi, tryggja öryggi þeirra sem viðskipti eiga við verðbréfafyrirtæki. Það er megintilgangur þessara laga og auðvitað er það svo að þeir sem viðskipti eiga við verðbréfafyrirtæki þurfa að treysta því að um þau gildi ákveðnar reglur og réttindi þeirra séu varin. Þessi löggjöf miðar að því að ná þessu marki og ég er sammála því, sem fram kemur í athugasemdum með frv., að einmitt löggjöf af þessu tagi muni festa starfsemina í sessi og tryggja öryggi þeirra sem viðskipti eiga við þessi fyrirtæki. Þetta er 1. mál þingsins og þess vegna kominn tími til að Alþingi afgreiði það frá sér og má furðu gegna að stjórnarmeirihlutinn hefur dregið það í allan vetur að koma þessu mikilvæga máli fram.
    Enn á ný er ástæða til að fagna því að nú sýnast ýmsir þeir sem áður vildu uppræta okurbúllurnar eins og það var kallað vilja ljá þessu máli lið og greiða því nú atkvæði. Það var eitt helsta stefnuatriði Alþb. að uppræta verðbréfamarkaðina, uppræta okurbúllurnar eins og það var kallað. Núna greiða þingmenn og ráðherrar Alþb. atkvæði með frv. og með þeim höfuðtilgangi þess, eins og fram kemur í athugasemdum, að styrkja og treysta þessa starfsemi. Auðvitað er það fagnaðarefni. Auðvitað verður að leggja á það ríka áherslu að þessi löggjöf verði sett og það er áhyggjuefni ef stjórnarmeirihlutinn ætlar enn einu sinni að reyna að bregða fæti fyrir frv. Þetta er 1. mál þingsins. Stjórnarmeirihlutinn hefur tafið fyrir framgangi þess í allan vetur. Auðvitað er eðlilegt fyrst óskað er eftir því að hv. fjh.- og viðskn. fjalli frekar um frv., en ég vara mjög við því ef sú ósk þýðir að það á enn að tefja framgang frv. Ég vænti þess að þá ósk beri ekki að skilja á þann veg að það eigi að koma í veg fyrir að frv. nái fram að ganga á þessu þingi því hér er um brýna þörf að ræða og hefði verið meiri sómi að því að afgreiða frv. sem lög fyrr á þessu þingi.