Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir þeim mikla áhuga sem fram kemur hjá þeim hv. 1. þm. Suðurl. og 1. þm. Vestf. að flýta fyrir framgangi helstu mála stjórnarinnar. Það er mjög ánægjulegt og ég fagna því.
    Ég vil líka nota þetta tækifæri til þess að þakka hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar fyrir hennar vönduðu vinnu að þessu frv. og mótmæli því að það starf hafi tafið þetta mál. Það er ekki rétt. Það hefur þvert á móti bætt þetta mál. Nú stöndum við í þeim sporum að það þarf að ganga frá fáeinum formsatriðum til að ljúka málinu. Ég fulltreysti því að það takist gott samstarf með forsvarsmönnum fjh.- og viðskn. beggja deilda til að finna þessu mikilvæga máli farsælan lendingarstað. Ég veit að það mun ekki taka langan tíma.