Jöfnun á námskostnaði
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. Þetta er efrideildarmál og hefur farið þar í gegn með fullu samkomulagi allra flokka sem þar eiga fulltrúa. Frv. er unnið af nefnd sem skipuð var 18. febr. 1987 af þáv. menntmrh., Sverri Hermannssyni. Nefndin skilaði síðan af sér til mín á haustdögum og var frv. lagt fyrir yfirstandandi þing í nóvember eða desembermánuði sl.
    Frv. felur ekki í sér grundvallarbreytingar á því kerfi sem verið hefur varðandi þróun námsstyrkja og úthlutun námsstyrkja á undanförnum árum. Það má segja að meginbreytingin sé fólgin í því að gert er ráð fyrir að þau ákvæði um grundvallaratriði við úthlutun námsstyrkja, sem áður voru í reglugerð, að verði nú tekin inn í lögin sjálf skv. 3. gr. frv. En að öðru leyti er ekki um grundvallarbreytingar að ræða.
    Meginvandinn við þennan þátt okkar mála hefur auðvitað verið sá að framlögin til jöfnunar námskostnaðar hafa farið stöðugt lækkandi. Þannig var meðalupphæð á hvern nemanda sem styrk fékk árið 1975 26.490 kr. (á verðlagi nóvember 1987). En þessi upphæð var á árinu 1987 komin niður í 12.496 kr. á sambærilegu verðlagi. Samkvæmt frv. til fjárlaga fyrir árið 1989 og samkvæmt fjárlögum ársins 1989 var hins vegar tekin ákvörðun um það að hækka mjög verulega framlögin til þessa verkefnis, eða úr 25 millj. kr. á árinu 1988 í 50 millj. kr. á árinu 1989.
    Sú nefnd sem um þessi mál fjallar vinnur nú að úthlutun á grundvelli gömlu laganna og gömlu reglugerðarinnar og geri ég ráð fyrir því að þeirri úthlutun ljúki núna alveg þessa dagana. En þetta frv., eins og það lítur nú út eftir meðferð málsins í Ed., gerir ráð fyrir því að nýskipan þessara mála taki gildi frá og með 1. jan. 1990.
    Vert er að geta þess, herra forseti, að við umræður málsins í hv. Ed. var sérstaklega fjallað um 5. gr. frv. og einkum síðustu málsgrein 5. gr. En þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Einnig er námsstyrkjanefnd heimilt að skerða eða fella niður styrki til einstakra nemenda ef þeir njóta umtalsverðra tekna samhliða námi sínu eða ef aðrar gildar ástæður mæla með fráviki frá meginreglum.``
    Það var hvatt til varfærni við notkun þeirrar takmörkunarheimildar sem hér um ræðir, einkum þegar um er að ræða láglaunanámsmenn sem fara í vinnu skamma stund og ná kannski dálitlum tekjum, augnablik, en ættu alla jafna að eiga rétt á því að fá stuðning samkvæmt þessum lögum.
    Við meðferð málsins í hv. Ed. skýrði ég frá því að ég mundi taka þessi sjónarmið til sérstakrar athugunar um leið og reglugerð verður skrifuð um þennan málaflokk. En ég geri ráð fyrir því að hún yrði gefin út í tæka tíð, þannig að hún tæki gildi sama dag og lögin tækju gildi, ef þetta frv. verður samþykkt svo sem ástæða er til að vona þar sem um það var mjög víðtæk samstaða í hv. Ed.
    Ég tel ekki ástæðu til að tefja þennan fund á lengri framsöguræðu, virðulegi forseti, og legg til að frv.

verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.