Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það skal vera örstutt athugasemd. Vegna ásakana hv. 3. þm. Norðurl. e. um það að að réttu lagi hefði það verið annarra að hafa forgöngu um þetta frv. ætla ég að minna á að þetta var eitt helsta stefnuatriði hæstv. fyrrv. ríkisstjórnar og að undirbúningi málsins var þá unnið af hálfu viðskrh. Hann kappkostaði að vanda undirbúninginn sem mest má verða og ég gagnrýni það ekki. Sá undirbúningstími sem til þurfti leiddi hins vegar til þess að það tókst ekki að leggja þessi mál fyrir síðasta þing. En þetta var eitt höfuðstefnumál þeirrar ríkisstjórnar og eitt af þeim atriðum sem sumir notuðu sem átyllu til frjálshyggjuáróðurs gegn þeirri stjórn.
    Það vekur líka furðu mína þegar þingmenn stjórnarliðsins eru að kvarta hér yfir þeirri ákvörðun sem tekin var í Ed. Sú ákvörðun var tekin af hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. og er undarlegt að stjórnarliðið sé að kvarta undan þeim ákvörðunum þegar komið er hér til Nd.
    Aðalerindi mitt var hins vegar þetta. Hæstv. viðskrh. lýsti því hér yfir í umræðunni að hann fagnaði áhuga stjórnarandstæðinga á frv. Það er eitt helsta keppikefli Sjálfstfl. að fá þessa löggjöf setta og hefur lengi verið. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, að gefnu tilefni eftir að hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður fjh.- og viðskn., hefur lýst því yfir að hann ætli að tefja framgang málsins og binda samþykki þess skilyrði fyrir því að annað frv. verði samþykkt, hvort hæstv. ráðherra sé reiðubúinn að standa hér upp og lýsa því yfir fyrir hönd stjórnarliðsins að engin slík bellibrögð verði höfð í frammi og þetta mál fái framgang og eðlilega meðferð hér í þinginu og verði ekki tafið með því að tengja það afgreiðslu annarra mála. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra svari þessu og þá komi skýrt fram hver hinn raunverulegi áhugi stjórnarliðsins er varðandi framgang þessa máls.