Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Eins og óskað var, aðeins örstutt athugasemd. Ég get endurtekið það sem ég sagði. Ég fagna áhuga stjórnarandstöðunnar á framgangi þessa máls, staðfesti það sem fram kom í máli hv. 1. þm. Suðurl., að setning almennra leikreglna um þessa starfsemi á fjármagnsmarkaðinum var svo sannarlega á stefnuskrá þeirrar ríkisstjórnar sem hann veitti forstöðu. Það mál er nú hér á lokastigi og það er ánægjulegt. Ég vil ekki gera allt of mikið úr því þótt hér þurfi aðeins að hyggja að því að rétt sé um alla hnúta búið og tryggilega frá málum gengið. Ég vil alls ekki kalla það bellibrögð þótt formaður fjh.- og viðskn., hv. 1. þm. Norðurl. v., vilji huga að því hvernig fer um þetta mál sem honum finnst eðlilega vera sér skylt vegna þess hversu mikið starf sú nefnd sem hann stendur fyrir hefur lagt í málið í vetur. Þetta er nú málið. Ég tel enga ástæðu til þess að setja hér á mikla svardaga um það hvort þetta mál gengur fram fyrr en önnur þingmál en tek það fram að ég hef mikinn áhuga á því að það þingmál sem hv. þm. Páll Pétursson, 1. þm. Norðurl. v., nefndi, nefnilega breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands, þar sem efnisatriðunum úr 30. gr. þessa frv. er nú fyrir komið í hv. fjh.- og viðskn. Ed., nái fram að ganga. ( ÞP: Er ráðherrann að samþykkja talnaleik hv. þm.?) Þetta er ekki tafaleikur hjá hv. þm., þetta er eingöngu ábyrg formennska hans í hv. fjh.- og viðskn. En ég á ekki von á öðru en hv. 1. þm. Suðurl., svo þing- og stjórnreyndur sem hann er, sé það ljóst að oft tengist eitt mál öðru þótt ég sjái reyndar ekki neina sérstaka þörf á því í þessu máli að bíða eftir samþykkt þingmálsins um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands til þess að þetta mikilvæga mál, leikreglur fyrir verðbréfaviðskiptin, nái fram að ganga.