Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 575 legg ég fram fsp. til viðskrh. um sölu á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands hf. Fyrirspurnin er á þessa leið:
    ,,Eru hlutabréf ríkisins í Útvegsbanka Íslands hf. til sölu? Ef svo er, á hvaða kjörum og með hvaða skilmálum?``
    Á fyrstu dögum ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar kom upp mikill ágreiningur um sölu á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands. Síðan þá hefur málið verið í athugun í ráðuneytinu án þess að nokkuð hafi gerst að því er ég veit. Við og við má lesa um það í blöðum að nefnd sé að störfum í þeim tilgangi að nota Útvegsbankann sem lið í sameiningu banka og stofnana, en þess á milli hefur harla lítið gerst. Á þessum forsendum er fsp. sett fram til að fá úr því skorið hvort bréfin séu til sölu eða ekki, hverjir megi þá kaupa þau og hvort kaupandi þurfi að uppfylla einhver skilyrði til að fá að kaupa þau.
    Ég vona að þessi fsp. sé skýr og ég fái skýr svör.