Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Vegna þess sem fram kom í seinni ræðu hv. fyrirspyrjanda, 11. þm. Reykv., vil ég taka það fram að ég er honum sammála um að það hefur dregist allt of lengi að koma á samruna í íslenska bankakerfinu. Þetta hefur verið á dagskrá í 20 ár og bankarnir eru sjö og þeir eru of margir. Ég hef ekki hugsað mér að bíða í 20 ár eftir því að koma á samruna banka. Ég ætla mér að ná þarna árangri innan skamms. Ég vil ekki dagsetja samruna eða þann frest sem ég gef hlutafélagsbönkunum og sparisjóðunum til þess að manna sig upp í það að mynda samsteypur til þess að bjóða í hlutabréfin. Ef þeir gera það ekki þá verða þeir bara að vera kokkálaðir og þetta fer öðruvísi.
    Ein leið til að dreifa eignarhaldinu á Útvegsbankanum og koma því á fleiri hendur væri m.a. sú að ríkið og Fiskveiðasjóður tækju sem hlutagreiðslu fyrir sín hlutabréf í þessum banka hlutabréf í sameinuðum banka og gerðu um það samkomulag við þá sem stæðu að slíkum samruna að þau bréf yrðu síðar seld á skipulegan hátt almenningi í smáum hlutum á Verðbréfaþingi Íslands. Þetta er mál sem vakir í þessu máli, ég er ekki þar með að segja að þetta verði niðurstaðan. En ef, og ég endurtek, ef ekki takast um það samtök hjá hlutafélagabönkum og sparisjóðum að gera tilboð sem felur í sér framför hvað varðar skipulag bankakerfisins þá verður ríkið auðvitað að freista þess að ná árangri með þeim stofnunum sem það ræður fyrir sjálft að mestu eða öllu leyti.