Upplýsingaöflun kjararannsóknarnefndar
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála því meginsjónarmiði sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að það er nauðsynlegt að upplýsingar um laun og önnur kjaraatriði séu sem ítarlegastar og aðgengilegastar svo að bæði samtök á vinnumarkaði og opinberir aðilar og almenningur í landinu geti haft sem gleggsta mynd af þróun þeirra mála.
    Launaskrifstofa ríkisins hefur eðlilega yfir að ráða mjög víðtækum tölulegum upplýsingum um laun og launatengd gjöld sem snerta alla starfsmenn ríkisins. Þótt þessi mikli gagnabanki sé fyrst og fremst notaður til upplýsinga og eftirlits með starfsmannahaldi ríkisins þá hefur verið leitast við að veita öðrum sem vinna með þjóðhagslega tölfræðilega þætti aðgang að þessum upplýsingum. Meðal þeirra aðila eru báðar kjararannsóknarnefndirnar, þ.e. bæði sú sem fylgist með launakjörum almennt og sú sem sérstaklega fylgist með launakjörum opinberra starfsmanna. Almenna reglan hefur verið sú að kjararannsóknarnefndin sem fjallar um almenna vinnumarkaðinn hafi fengið ársfjórðungslega upplýsingar um launagreiðslur vegna félagsmanna Alþýðusambands Íslands og hefur um árabil verið reynt að framfylgja þessari vinnureglu. Því miður urðu hins vegar á árinu 1988 nokkrir erfiðleikar og misbrestir tengdir því að láta þessar upplýsingar í té.
    Eins og hv. fyrirspyrjandi vék að fékk kjararannsóknarnefndin upplýsingar um fyrsta ársfjórðung eins og venjulega. Þegar hins vegar kom að því að veita upplýsingar um annan ársfjórðung ársins 1988 kom í ljós að nauðsynleg forrit til þess að vinna þessa þætti út úr þessum mikla gagnabanka ríkisins höfðu glatast. Á sama tíma voru ýmsir erfiðleikar í starfsmannahaldi tölvudeildar ráðuneytisins og launadeildar, m.a. vegna flutninga, starfsmannaskipta og fjölmargra annarra atriða. Allt þetta varð fyrir tilviljun samverkandi til þess að mjög dróst úr hömlu að veita þessar reglubundnu upplýsingar. Hins vegar þegar mér var kunnugt um það að svo væri og ég hafði skoðað þær ástæður sem þar lágu að baki, þá reyndi ég að leggja drög að því að sem fyrst yrði ráðin bót á þessu atriði. Ég átti í því sambandi viðræður við fulltrúa Alþýðusambands Íslands og greindi þeim frá vilja mínum til þess að ráða bót á þessu og koma upplýsingagjöfinni í fyrra horf.
    Það er svo rétt að geta þess einnig að í vetur hefur í samvinnu beggja kjararannsóknarnefndanna og Hagstofunnar verið unnið að nýrri framsetningu upplýsinganna og má segja að það hafi kannski að nokkru leyti orðið til þess að tefja aðeins að þessu væri komið í viðunandi horf.
    Hins vegar hefur eftir því sem mér hefur verið tjáð nú náðst sá áfangi að 9. mars sl. var fundur á launaskrifstofu ríkisins með starfsmönnum kjararannsóknarnefndar og tölvudeildarinnar og þar kom fram að upplýsingar um annan og fjórða ársfjórðung 1988 verða til reiðu og afhentar næstu daga og að frá og með næsta mánuði verði

upplýsingagjöfin komin í hið fyrra og reglubundna horf sem hv. fyrirspyrjandi vék að.
    Ég þakka honum fyrir að vekja athygli á þessu máli hér á hv. Alþingi og vona að aðgerðir okkar og annarra starfsmanna ríkisins sem að þessum verkefnum vinna verði til þess að sá misbrestur sem varð á árinu 1988 þurfi ekki að verða í framtíðinni.