Upplýsingaöflun kjararannsóknarnefndar
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):
    Frú forseti. Ég þakka greinargóð svör fjmrh. Aðalatriðið er að fá þessi mál í lag. Ég vil hins vegar geta þess að það er rangt að það hafi verið reiða á þessu áður. Það er rangt. Þessum upplýsingum var aðeins skilað þau tímabil sem ég nefndi áðan og var það um tveggja ára skeið, síðan datt þetta niður. En þar á undan hafði þessu ekkert verið sinnt. En ég fagna því ef svo verður sem fjmrh. segir að þessi mál komist í fullt lag. Það er nauðsynlegt og það er sjálfsagt að svo verði og það er eðlilegt fordæmisins vegna að ríkið gangi á undan með reiðu í þessum málum.