Tómstunda- og félagsstarf í grunnskólum
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin og upplýsingar hans um gömlu dansana voru alveg sérstaklega skemmtilegar þó það væri kannski ekki það sem spurningin beindist að heldur lá í spurningunni að því er ekki að neita að eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér er þó nokkuð um það að kannski frekar foreldrum en börnunum, því að þeirra sjónarmið komast kannski sjaldan að, finnst nokkuð einhæft félagsstarf í skólum og að sú athygli sem starfsemi barna fær sé nokkuð bundin því sem til vinsælda er líklegt á almennan mælikvarða í þjóðfélaginu.
    Mér er t.d. sagt að það sé afskaplega erfitt víða fyrir kennara ef þeir hafa áhuga á að fara með nemendur í smáferðalag eða annað slíkt til þess að njóta einhverrar menningar, en aftur á móti sé lítið um fyrirstöðu ef bolti er með í spilinu. Nú má ekki skilja orð mín svo að ég vilji ekki að nemendur stundi íþróttir, en spurning er hvort vægið er of mikið þarna á eina hlið. Það var kannski það sem ég átti frekar við með því sem væri ofarlega á baugi í dag, en hitt að ég hefði endilega áhyggjur af gömludansakunnáttu. Hitt efast ég ekki um að það geti verið mörgum til ánægju og yndis að læra slíka dansa.
    Jafnframt hef ég af tali mínu við skólafólk þær upplýsingar að það standi félagslífi stórlega fyrir þrifum hversu lítið fé það hefur til umráða til þess og oft þurfi að seilast í vasa nemenda og þá byrjar strax keppni skólanna eða félagsstarfsins við annað það sem freistar nemenda. Gjarnan hafa þeir orð á því að það sé góður grunnur og mikill áhugi meðal barna og unglinga fyrir margvíslegu starfi sem því miður sé ekki ráðrúm eða peningar til að ýta í framkvæmd og spurning er, einmitt núna í sambandi við hugsanlega lengingu og samfellingu skóladags, að þessi mál komi þar eitthvað inn í heildarsamhengi, hvernig sá tími verður nýttur og þá jafnframt húsnæði og starfslið.
    Mér er ljóst að þeir sem annast félagsstarf í skólum eru yfirleitt kennarar. Það er einu sinni það starfsfólk sem vinnur í skólum. En það er talað um að gangast fyrir námskeiði fyrir þá kennara sem þessi mál fara með í skólum og að út eigi að gefa leiðbeiningar þeim til stuðnings. Það sem ég átti raunar við með hvaða menntun var sérmenntun innan kennarageirans en ekki hvort það væri einhverjir utan skólans sem önnuðust það.