Tryggingasjóður fiskeldislána
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Þegar frv. um Tryggingasjóð fiskeldislána var til athugunar í Ed. á dögunum eftir nýár var mjög mikið upp úr því lagt að ekki væri hægt fyrir þingdeildina að verja eðlilegum tíma til að athuga frv. vegna þess að málefni þess væru svo brýn að ekki mætti dragast degi lengur að Alþingi samþykkti frv. og það yrði að lögum. Þegar ég lagði fram þá fsp. sem liggur hér fyrir á þskj. 520 hafði á hinn bóginn ekkert heyrst um það hvað liði vinnu við reglugerð um tryggingasjóðinn og ekki að sjá að þeir sem unnu að reglugerðinni væru sama sinnis og áhugamennirnir á Alþingi um að mjög lægi á því að þessi tryggingasjóður gæti farið að veita þær ábyrgðir sem um er rætt.
    Ég taldi því eðlilegt í samráði við hv. 4. þm. Austurl. að flytja þá fsp. sem hér getur, enda höfðum við báðir lýst því yfir við umræðurnar í Ed. að við ætluðumst til þess að hæstv. ráðherra fylgdi áhuga sínum eftir ef Alþingi samþykkti frv. með því að ekki drægist úr hömlu að reglugerð yrði út gefin og stjórn Tryggingasjóðs fiskeldislána skipuð þannig að hægt væri að taka á umsóknum.
    Nú hefur reglugerðin að vísu verið gefin út. Ef ég man rétt er hún gefin út hinn 9. mars sl. þannig að fsp. er að því leyti svarað. Reglugerð hefur verið gefin út og raunar hygg ég að stjórn Tryggingasjóðs fiskeldislána sé nú skipuð án þess að ég muni í svipinn hverjir í henni eru né hvenær hún var skipuð.
    Ég sé þess vegna ekki, hæstv. forseti, ástæðu til að fylgja þessari fsp. frekar eftir. Reglugerð hefur verið gefin út, stjórn tryggingasjóðs er skipuð og ég vil vænta þess að stjórn sjóðsins muni reyna að vinna fljótt að þeim verkefnum sem lög fela henni og svara þeim umsóknum sem berast sjóðnum þannig að fyrirgreiðsla til fiskeldisstöðva geti gengið fyrir sig með eðlilegum hætti.
    Á hinn bóginn er kannski ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra annarrar spurningar, þ.e. hvort samkomulag hafi tekist milli sjóðsstjórnarinnar og þeirra banka sem veita afurðalán til fiskeldisstöðva um það hvernig vinnubrögðum skuli háttað og hver skuli vera fjárhæð afurðalánanna.