Söluskattur af flotgöllum fyrir sjómenn
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi minna á að það er endurgreiddur uppsafnaður söluskattur til útgerðar og til þess er varið allmyndarlegum upphæðum á hverju ári. Þessi endurgreiðsla tekur eðlilega til söluskatts sem útgerð hefur m.a. borgað af þeim flotvinnugöllum sem hér eru til umræðu svo að nokkru leyti má benda á að þessi söluskattur er nú þegar endurgreiddur sem liður í heildarendurgreiðslu söluskatts til allrar útgerðar vegna þess að þar er um að ræða margvíslegar vörutegundir sem útgerðin þarf að verja til sinnar starfsemi.
    Hins vegar vil ég svo vekja athygli á því sérstaklega að samkvæmt heimildum í 7. gr. þeirra laga sem hér um ræðir getur fjmrh. fellt niður söluskatt af flotgöllum og björgunarbúningum sem viðurkenndir eru af Siglingamálastofnun til notkunar um borð í skipum. En að því að ég best veit hefur Siglingamálastofnun hvorki lögskyldað þennan búnað né viðurkennt hann sérstaklega. Ef svo er væri æskilegt að það gæti komið hér fram vegna þess að þá er til reiðu sá grundvöllur sem þarf að vera samkvæmt þeirri lagagrein sem ég vitnaði í áðan. Flotgallar bera ekki vörugjald, en af þeim ber hins vegar að greiða um 3% jöfnunargjald. Jöfnunargjald getur fjmrh. fellt niður ef sérstaklega stendur á. Samkvæmt þessu verður að álykta sem svo að fjmrh. geti fellt niður eða endurgreitt þau gjöld sem hér eru til umræðu af flotvinnugöllum ef Siglingamálastofnun viðurkennir þá sérstaklega. Ég er reiðubúinn að skoða það mál ef og þegar það liggur fyrir að þær forsendur sem snúa að Siglingamálastofnun hafi verið afgreiddar.