Menntastofnun á sviði matvælaiðnaðar
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Þeirri fsp. sem hér er borin fram á þskj. 593 er fljótsvarað. Framkvæmd málsins er ekki hafin og hefur fyrst og fremst strandað á því að fjármunir hafa ekki verið veittir sérstaklega í þessu skyni.
    Það má segja hins vegar að sú stefna sem felst í ályktunartillögunni sé með þeim hætti að menntmrn. getur fyrir sitt leyti fallist á hana, þ.e. að hér verði komið upp stofnun sem veiti fræðslu á sem flestum sviðum matvælaiðnaðar, hótel-, veitinga- og almennrar ferðaþjónustu. Eins og kunnugt er liggja fyrir áætlanir um hvernig skuli staðið að uppbyggingu kennslu í matvælaiðnaði og ferðamannaþjónustu. Það liggur einnig fyrir samningur á milli menntmrn. og bæjarstjórnar Kópavogs um að komið verði upp kennsluaðstöðu í nýju húsnæði í tengslum við Menntaskólann í Kópavogi fyrir ferðaþjónustugreinar, matreiðslu, framreiðslu, brauð- og kökugerð, smurbrauðsgerð, kjötvinnslu, matvælaiðnað og húshald. Byggingarnefndarteikningar að þessu húsnæði eru tilbúnar fyrir löngu og þær hafa verið samþykktar af menntmrn. og bæjarstjórn Kópavogs. Þar er um að ræða 5232 fermetra hús og auk þess 625 fermetra stjórnunarrými sem ætlað er að nýtist öllum menntaskólanum en skólahaldið yrði skipulagt sem ein heild.
    Þar til komið hefur verið upp kennsluhúsnæði fyrir matvæla- og hótelgreinar er það mjög takmarkað sem unnt er að aðhafast á þessu sviði. Þó er hafið fyrir nokkru nám í ferðaþjónustugreinum í Menntaskólanum í Kópavogi. Það hófst núna í haust. Það er ekki unnt þess vegna nú að meta hvernig til hefur tekist, en það er verulega mikil aðsókn að þessari námsbraut. Þá hafa verið haldin námskeið fyrir fullorðið fólk sem vill kynna sér ferðaþjónustu af ýmsu tagi, t.d. í farseðlagerð og ýmislegt fleira skylt hefur verið tekið fyrir. Aðsókn að þessum námskeiðum er mikil og verulegur áhugi.
    Hótel- og veitingaþjónaskólinn er einn þáttur þessa máls. Hann sér um menntun matreiðslu- og framreiðslumanna í leiguhúsnæði og hann býr við mikil þrengsli. Unnið er þar að endurskoðun á námsskrá og lýkur því verki bráðlega. Aðstaða til menntunar í kjötiðnaði er nánast engin til hér á landi og því mjög brýnt að koma henni upp og síðast í gær var fjallað um það mál sérstaklega í menntmrn. með hvaða hætti mætti styrkja Iðnskólann í Reykjavík til að hafa skaplega aðstöðu til kennslu í kjötiðnaðargreinum.
    Það verður þess vegna að teljast mjög aðkallandi, virðulegi forseti, að tryggja þeirri starfsemi sem þáltill. fjallar um, þ.e. matvæla- og ferðaþjónustu og námi í þeim greinum, húsnæði og þær athuganir sem gerðar hafa verið benda til þess að það sé hagkvæmt að þetta verði gert sem mest á einum stað. Hins vegar er alveg ljóst að það er mikið átak að koma þessu húsnæði upp, það kostar mörg hundruð millj. kr., og ef það yrði byggt yrði það að geta þjónað þörfum landsins alls þannig að þarna gæti verið fólk víðs vegar að af

landinu í námi.
    Á undanförnum mánuðum hefur verið fjallað um þessi mál, m.a. talsvert í fjölmiðlum, og af því tilefni vil ég segja þetta: Alþingi verður að taka af skarið varðandi framkvæmd þess samnings sem gerður var við Kópavogsbæ á sínum tíma annaðhvort með þeim hætti að greiða peninga til þess að framkvæma þann samning eða þá með því að taka ákvörðun um að leysa málin annars staðar. Það er alveg óhjákvæmilegt að þetta gerist. En að undanförnu hafa komið fram hugmyndir um að leysa verulegan hluta þess vanda sem hér er verið að tala um að því er húsnæði varðar á öðrum stöðum. Þar hafa verið nefndir staðir eins og Laugarvatn og Selfoss, en ákvarðanir í þeim efnum hafa ekki verið teknar í menntmrn. Við höldum okkur við þennan samning um Kópavog meðan ekki verða til niðurstöður af öðru tagi af því að ég tel að það sé Alþingis og fjvn. að taka af skarið í þessu efni. Og verði ekki verulegir fjármunir í þetta verkefni í fjárlögum ársins 1990 held ég að það sé fullreynt að Alþingi ætlar ekki að tryggja fé til að standa við þennan samning sem gerður hefur verið við Kópavogsbæ. Liggi það fyrir verður að taka nýja ákvörðun í málinu.