Útsendingar veðurfregna
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Flm. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 103 um útsendingar veðurfregna. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Borgfl., Júlíus Sólnes, Óli Þ. Guðbjartsson og Guðmundur Ágústsson. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að skora á menntmrh. að beita sér fyrir því að veðurfregnir verði í framtíðinni sendar út samtímis á öllum útvarpsstöðvum og rásum þeirra.``
    Herra forseti. Það er skoðun flm. að með því að koma upp samtengingu veðurfregna frá öllum útvarpsstöðvum sé stigið stórt skref í öryggismálum þegnanna. Það er nánast sama hvar gripið er niður í þjóðfélaginu í dag, alls staðar má segja er opið fyrir útvarp, enda er orðin mikil breyting hvað þau mál varðar síðustu árin með fjölgun útvarpsstöðva. Þess vegna er veruleg hætta á því að veðurfregnir fari fram hjá mönnum sem alls ekki ættu að láta slíkt henda sig. Nægir að benda á sjómenn, þá aðila í þjóðfélaginu sem hvað síst mega við því að missa af veðurfregnum. Með slíkri samtengingu veðurfregna sem hér er farið fram á er reynt að koma í veg fyrir að nokkur maður sem á annað borð er með opið fyrir útvarp missi af þessum fregnum.
    Ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í að nefna dæmi slíkri tillögu til stuðnings einfaldlega vegna þess að ég tel ekki nauðsyn á því. Sjálfum finnst mér að hér sé um svo sjálfsagt mál að ræða að þingmenn hljóti að veita því brautargengi.
    Ég vil að það komi fram í umræðunni að eins og menn vita sendir Ríkisútvarpið út viðamiklar veðurfregnir sem er eðlileg þjónusta ríkisfyrirtækis, en hins vegar ekki samtímis á báðum rásum. Ég vil einnig að það komi skýrt fram að það er mín skoðun að ekki eigi að skikka aðrar útvarpsstöðvar til slíkrar þjónustu heldur verði leitað leiða til að ná fram slíkri þjónustu án lagasetningar eða kvaða. Ég tel að um þetta megi ná samstöðu hinna frjálsu útvarpsstöðva, í það minnsta er það tilraunarinnar virði. Ég talaði við fulltrúa hinna frjálsu útvarpsstöðva og voru þeir í raun ekki par hrifnir af þessari tillögu sumir hverjir þótt þeir taki fyllilega undir öryggissjónarmiðin. Hins vegar kom fram í viðræðum óánægja með þjónustu Veðurstofunnar sem þeir töldu eyða allt of miklu púðri í veðurfræði og of litlu í veðurspár. Ég varpa þessu fram til umhugsunar.
    Þeir lýstu hins vegar fullum vilja á að ræða málið og vildu alls ekki þvertaka fyrir að hægt væri að komast að niðurstöðu. Ég tel að ef til þess kæmi að veðurfregnum yrði útvarpað samtímis á öllum rásum yrði Veðurstofan að vinna miklu styttri og hnitmiðaðri veðurspár en nú er gert, spár er tækju helst ekki lengri tíma í flutningi en þrjár mínútur eða í hæsta lagi fimm mínútur.
    Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að að lokinni umræðu verði tillagan send hv. menntmn. til umsagnar og síðari umræðu.