Verndun vatnsbóla
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Flm. (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 10. þm. Reykv. Guðmundi G. Þórarinssyni fyrir hans undirtektir við tillöguna. Það er alveg rétt að þær úrbætur sem verið er að ræða um í þessari tillögu geta ekki gerst allar í einu, þær verða ekki gerðar í einu vetfangi. Í fyrsta lagi þurfa þær nokkurn aðdraganda auk þess sem er mjög mikilvægt að samhæfa allar aðgerðir í þessu máli, en það er auðvitað alveg ljóst að viss atriði eru brýnni en önnur. Það er mjög misjafnt hversu sveitarfélögin hafa gengið langt í því að undirbúa sig fyrir verkefni sem þetta. Ég vil nefna að á vegum Vatnsveitu Reykjavíkur hefur starfað nefnd frá árinu 1981 sem hefur verið kölluð vatnsbólanefnd. Hefur þessi nefnd m.a. beitt sér fyrir rannsóknum á vatnasviði Elliðaáa og Elliðavatns og hefur lagt sérstaklega áherslu á rannsóknir á grunnvatnskerfum. Ég held því að Reykjavíkurborg standi tiltölulega vel að þessum málum. Það er ekki langt síðan gefið var út mjög nákvæmt kort af grunnvatnssvæðum í kringum Reykjavík og reynt að meta hvar framtíðarvatnsból Reykvíkinga gætu verið því að alltaf þarf að auka við vatnsöflunina, enn þá a..m.k.
    Það má samt benda á að eitt vatnsból Reykvíkinga, Bullaugu, sem eru uppi í Grafarheiðinni að ég held, mengast mjög oft í leysingum af yfirborðsvatni þannig að við erum ekki alveg laus við mengun hér í Reykjavík þó að við stöndum mjög vel að vígi miðað við marga aðra staði. Þó að það sé vissulega rétt að Reykjanesið sé viðkvæmt er sums staðar á landinu mjög erfitt um vatnsöflun og eina leiðin jafnvel sú að ná í yfirborðsvatn. Það er ekki langt síðan --- svo að ég taki dæmi úr nágrenni Reykjavíkur --- að Akurnesingar voru í verulegum vandræðum með sitt neysluvatn og þó að það hafi batnað eitthvað í seinni tíð held ég að það sé alls ekki komið í fullnægjandi horf að þeirra mati. Við megum ekki vera of andvaralaus og verðum að gera okkur grein fyrir því að ferskvatn er auðlind sem við verðum að fara varlega með. Þó að mengunin sé lítil held ég samt að hún sé hættulega mikil á mörgum stöðum.
    Varðandi kostnaðinn er að sjálfsögðu miðað við að það sé ekki ríkissjóður sem muni greiða hann allan heldur verði þarna samvinna milli sveitarfélaga og ríkisins að sjálfsögðu. Ég vil benda á að hlé var gert á þingfundi kl. 4 á mánudaginn var og við fórum og heimsóttum Landmælingar Íslands sem kynntu fyrir okkur gerð nýrra korta í mælikvarðanum 1:25.000 en einmitt slík kort munu koma sér mjög vel í þessari vinnu. Það var einnig talað um að ef við mundum kortleggja landið með þeirri áætlun reikna Landmælingar Íslands með að það þurfi um 160 millj. kr. á ári til að gera kort af öllu landinu í mælikvarðanum 1:25.000. Kostnaður við gerð korta eins og hér er gert ráð fyrir er ekki ljós en nauðsynlegt er að hefja vinnu við gerð slíkra korta.
    Það má líka benda á það af því að við vorum að ræða um Suðurnesin að Samband sveitarstjórna á Suðurnesjum hefur í tengslum við svæðaskipulagið tekið mjög myndarlega á þessum málum varðandi

skipulega vatnstöku og vatnsvernd þar sem þeir hafa reynt að taka inn í sitt svæðaskipulag hugmyndir svipaðar þessum sem hér er gert ráð fyrir. Það er þannig vissulega farin af stað svipuð vinna þeirri sem hér er rætt um. En það þarf að halda utan um það og gera ráð fyrir því alls staðar þegar verið er að skipuleggja til þess að ekki sé orðið of seint að breyta skipulaginu, það sé t.d. búið að byggja mannvirkin þó þau stríði gegn hagsmunum vatnsverndar.