Tónmenntakennsla í grunnskólum
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um tónmenntakennslu í grunnskólum. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Árni Gunnarsson, Jón Helgason, Margrét Frímannsdóttir og Salome Þorkelsdóttir. Tillagan hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd til að athuga og koma með tillögur að samvinnu og samþættingu tónmenntakennslu í grunnskólum og tónlistarskólum landsins, með það fyrir augum
-- að efla og auka tónmenntakennslu í grunnskólum,
-- að koma á samvinnu milli grunnskóla og tónlistarskóla,
-- að það nám í tónlist, sem nemendur stunda utan lögboðins grunnskólanáms, geti í auknum mæli flust inn í húsnæði grunnskólanna,
-- að samnýta húsnæði og kennara til að draga úr kostnaði og gera tónlistarnám aðgengilegra fyrir nemendur.
    Nefndin ljúki störfum fyrir upphaf næsta þings.``
    Í grg. segir m.a. að í landinu starfi nú u.þ.b. 70 tónlistarskólar. Nemendafjöldi í þessum skólum er um 8000 og þar af eru u.þ.b. 250--300 sem stunda nám á því stigi sem ætlað er til að búa nemendur undir atvinnumennsku.
    Þessar staðreyndir tala sínu máli um það hve tónlistarnám er snar þáttur í menntun íslenskra barna og unglinga. Það er órjúfanlegt samhengi milli þessa og hins blómlega tónlistarlífs í landinu, bæði á sviði atvinnu- og áhugamennsku.
    Nú eru að vísu blikur á lofti því að fyrir dyrum stendur ný skipan á verkskiptingu ríkis og sveitarfélaga og það er m.a. tilefni flutnings þessarar tillögu því þá er auðvitað um leið kjörið tækifæri til að endurskoða þessi mál og finna þeim nýjan og vonandi betri grundvöll. Það er þó skylt að nefna að í febrúar skipaði hæstv. menntmrh. nefnd til að endurskoða og koma með tillögur um tilhögun tónmenntakennslu og tónlistarskóla. Höfuðverkefni þeirrar nefndar, sem mun eiga að skila áliti nú fljótlega, er þó að athuga áhrif nýrrar verkskiptingar ríkis og sveitarfélaga á hag og rekstur tónlistarskóla. Sú lagasetning sem þeir byggja á núna fellur að sjálfsögðu úr gildi ef verkskiptingin nær fram að ganga og brýnt að ný skipan mála verði athuguð rækilega. Óhæft væri ef allt það mikla og árangursríka starf sem innt hefur verið af höndum undanfarin ár reyndist unnið fyrir gýg og horfið yrði áratugi aftur í tímann.
    Þegar verkskiptingarfrumvarpið var til umræðu á þingi í fyrra streymdu inn mótmæli frá tónlistarskólum, skólastjórum, kennurum, nemendum og foreldrum og áskoranir til stjórnvalda að flytja ekki rekstur tónlistarskóla yfir á sveitarfélögin. Eðlilegt er að sú skipan veki ugg í brjóstum þeirra sem skilja mikilvægi þessarar starfsemi. Reynslan sýnir að forgangsröð er sjaldnast sú að líklegt sé að tónlistarskólar lendi ofarlega á óskalista þegar að því kemur að útdeila fjármagni. Hætt er við að sum

sveitarfélög sæju sér ekki fært að standa að rekstri tónlistarskóla, sérstaklega þau minni og fátækari. Ekki náðist þó að koma í veg fyrir þessar fyrirhuguðu breytingar á verkskiptingunni og því ánægjulegt til þess að vita að hæstv. menntmrh. hafi brugðist við til að reyna að styrkja tónlistarskóla í sessi og tryggja áframhaldandi rekstur þeirra án þess að gæði og árangur rýrist.
    Till. skarast að vissu leyti við þá vinnu sem nefndinni er ætlað að vinna en till. spannar þó víðara svið og ætti einungis að vera nefndinni til styrktar næði hún fram að ganga. Það ætti að vera óþarfi að fara mörgum orðum um gildi og mikilvægi þess að halda uppi öflugri tónlistarkennslu í landinu. Áhugi og fjöldi nemenda í tónlistarskólum og fjöldi kóra og hljómsveita og áhugastarfsemi af ýmsu tagi, tónleikar, nýsköpun og aðsókn að tónleikum, óperum og söngleikjum, bera því glöggt vitni að áhugi er almennur.
    Menningarstarfsemi af þessu tagi er lyftistöng hverju byggðarlagi. Víða verður fólk í dreifbýli að vera sjálfu sér nægt í menningarlegu tilliti og er það af hinu góða. Má einmitt í því sambandi nefna að þegar kostir og ókostir þéttbýlis og dreifbýlis eru vegnir og metnir er það ótvíræður kostur í dreifbýli að þar byggir menningar- og félagsstarfsemi á almennri þátttöku fólks. Í þéttbýli eru íbúar miklu fremur neytendur. Hæfileg blanda af þessu hvoru tveggja er auðvitað æskileg og vissulega á fólk í dreifbýli ekki sama aðgang að t.d. menningarstofnunum og íbúar Stór-Reykjavíkursvæðisins og þyrfti svo sannarlega að ráða bóta á.
    Mikilvægt er í tónlistarnámi sem öðru námi að sem flestir eigi að því aðgang ef þeir kjósa. Jafnrétti til náms er þar jafnsjálfsagt og í almennu grunnskóla- og framhaldsnámi. Þess vegna er nauðsyn að halda kostnaði niðri eins og framast er kostur. Það eru mikil útgjöld fyrir heimili ef t.d. tvö eða þrjú börn vilja stunda tónlistarnám. Kostnaður á hvert barn mun vera um 20 þúsund krónur á ári og eins og allir vita eru ýmsar nauðsynjar sem koma fyrst og illt til þess að vita að fjárhagur ráði aðgengi barna og unglinga að tónlistarnámi.
    Því er auðsætt að leita verður allra leiða til sparnaðar án þess að draga úr
gæðum eða framboði og sá er einmitt einn megintilgangur þessarar þáltill. Þar er lögð áhersla á samnýtingu húsnæðis og kennara en það er e.t.v. eitt mikilvægasta atriði eða spor í átt til sparnaðar ef samnýting yrði meiri en nú er. Hún er reyndar fyrir hendi sums staðar úti á landi og þar eru vissulega skólagjöld þau lægstu sem um getur í tónlistarnámi. Veldur að vísu fleira. Þar eru auðvitað færri kennarar og sjálfsagt minna framboð í náminu sjálfu, en þó er ekki að efa að mikið mætti spara, t.d. hér á Reykjavíkursvæðinu, ef skólar, almennir grunnskólar, nýttust til þessarar kennslu. Sama máli gegnir um kennara, fyrir utan það að ef hægt væri að samnýta þá yrði þeirra starf fjölbreytilegra og þar af leiðandi e.t.v.

eftirsóknarverðara. Það er sjálfsagt ekki öfundsvert að öllu leyti að vera tónmenntakennari í grunnskólum núna. Þetta er ekki fag sem er gert hátt undir höfði og sjálfsagt hafa þeir ekki alltaf erindi sem erfiði og sækjast þá e.t.v. eftir öðrum störfum, bæði vegna tilbreytingarleysis starfsins og e.t.v. launa.
    Jafnframt felur þessi tillaga í sér að efla skuli og auka tónmenntakennslu í almennu grunnskólanámi. Þegar það blasir við að 8000 börn og unglingar eru við nám í tónlistarskólum liggur við að það sé að verða jafnalgengt að læra að lesa nótur eins og að læra að lesa. Og þeim árangri er hægt að ná inn í grunnskóla að allir geti náð því þekkingarstigi að geta lesið nótur sér til gagns og ánægju og auðveldað þeim þar með bæði að taka þátt í ýmissi starfsemi þó að þar sé um áhugastarfsemi að ræða og eins að tileinka sér tónlist af ýmsu tagi.
    Annað er það líka sem er mikilvægt í tónmenntanámi í grunnskólum ef það yrði aukið og eflt og það er sá félagsþroski sem nemendur öðlast í gegnum þá reynslu. Þar verða börnin að læra að vinna saman og vinna hvert með öðru sem er nauðsynlegur þáttur í þeirra starfi þannig að þau læri að það getur líka verið vænlegt til árangurs að vinna saman en ekki bara að keppa hvert við annað.
    Ýmislegt mætti segja um gagnsemi tónlistarmenntunar, þ.e. þá gagnsemi sem mæld verður. Sú gagnsemi sem hver einstaklingur hefur af því sjálfum sér til sálubótar og ánægju verður aldrei mæld eða sú ánægja sem vel menntaður einstaklingur getur veitt öðrum, hún verður heldur ekki mæld. Það er hins vegar vel þess virði að kynna sér ýmsar rannsóknir sem hafa verið gerðar á samhengi milli tónlistarnáms og árangurs í almennu námi, og þær rannsóknir sem gerðar hafa verið benda í mjög athyglisverða átt, þ.e. það virðist vera næstum algjör fylgni milli tónlistarnáms og árangurs í öðru námi og sérstaklega má finna tengingu á milli tónlistarnáms og raungreina, enda þekkja sjálfsagt allir dæmi um eðlisfræðinga sem líka spila á fiðlu og efnafræðinga sem semja sinfóníur o.s.frv. Þarna er því auðvitað í báðum tilfellum um að ræða mjög skipulagða rökhugsun, en sköpun er jú mikilvæg líka í þessum raungreinum og þarna virðist hvað styðja við annað.
    Lenging skóladags er nú mjög á dagskrá og samfelldur skóladagur. Þá verður auðvitað að hyggja að því sérstaklega hvaða greinar komi til með að mæta aukningu kennslustundafjölda. Þær greinar sem nú eiga helst undir högg að sækja, þ.e. list- og verkmenntagreinar, hljóta að koma þar mjög sterklega inn sem þær greinar sem helst verður bætt við. Ástæðan fyrir því að hér er flutt tillaga um að fyrst verði komið skipulagi á tónlistarmál er vegna þess að þau mál eru þegar lengst komin og því auðveldast að fella það nám inn í almenna kennslu og styst leið að fara.
    Eitt verður að nefna líka og það er að nú stendur fyrir dyrum stofnun tónlistarháskóla ef ekki eins stórs listaskóla sem sameinar þessar greinar allar og þá hefur tónlistarháskóli, hvort sem hann yrði einn sér

eða inni í öðrum skóla, algjöra sérstöðu vegna þess að þar inn kæmist líklega enginn sem ekki hefði þegar stundað tónlistarnám lengi. Það gegnir öðru máli bæði með myndlist og leiklist og aðrar greinar sem þar yrðu kenndar. Það getur fólk tileinkað sér á fullorðinsaldri en í tónlistarnámi getur fólk ekki náð árangri nema það byrji að stunda það ungt og óhæfa er að ætlast til þess að skóli af þessu tagi, á háskólastigi, sé rekinn á kostnað almennings og þar eigi nemendur að njóta sinnar menntunar ókeypis ef nemendum er á fyrri stigum mismunað fjárhagslega þannig að einungis þeir betur settu geti stundað það undirbúningsnám sem nauðsynlegt er til að komast inn í þennan væntanlega háskóla.
    Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri en legg til að lokinni umræðu að málinu verði vísað til hv. félmn.