Tónmenntakennsla í grunnskólum
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið er ég meðflm. að þessari till. til þál. um tónmenntakennslu í grunnskólum og þarf því í raun ekki miklu við að bæta um það sem fram hefur komið í framsöguræðu hv. 1. flm. tillögunnar, 18. þm. Reykv., heldur vil ég miklu frekar taka undir þau viðhorf sem komu fram í hennar framsöguræðu. Ég vil sérstaklega árétta það sem hún sagði um samhengi milli tónlistarnáms og árangurs í öðru námi og ekki síður uppeldislega gildið með tónlistarnáminu sem er staðreynd og væri hægt að benda á mörg dæmi þess að íslenskir unglingar sem fara í tónleikaferðir, bæði innan lands og ekki síst utan, hvort sem um er að ræða kóra eða hljómsveitir eða hljómleikaferðir, eru hvarvetna til fyrirmyndar og góð landkynning.
    Það eru taldir upp nokkrir þættir í tillögunni sem sérstaklega beri að huga að og ég vil einnig sérstaklega ítreka þau atriði. Það er nauðsynlegt að tengja þetta nám sem fram fer í tónlistarskólum við nám grunnskólanna. Nú veit ég að góðu heilli er víða samstarf milli þessara aðila, þ.e. grunnskóla og tónlistarskóla, og t.d. geta nemendur sem komnir eru í framhaldsskólana þar sem eru valgreinar nýtt sér tónlistarnám sem valgrein eða fengið það viðurkennt sem er þýðingarmikil viðurkenning fyrir þá nemendur sem eru lengra komnir í tónlistarnámi og eru jafnvel búnir að finna sér starfsvettvang eða farveg í framtíðinni á vettvangi tónlistarinnar.
    Það kemur fram í grg. að við lengingu skóladags grunnskólanemenda, sem verður að treysta að komist til framkvæmda í náinni framtíð, þarf að huga að því hvernig þeirri aukningu kennslustunda verður skipt á hina ýmsu þætti námsins. Hæstv. menntmrh. taldi hér á fyrri fundi í dag í fyrirspurnatíma að sú aukning kennslustunda yrði fyrst og fremst nýtt til félags- og tómstundastarfa. Það er ljóst að nú þegar standa forráðamenn skóla frammi fyrir þeim vanda að sífellt er verið að gera auknar kröfur um nýjar námsgreinar innan grunnskólanna sem eru til orðnar vegna þessara breyttu þjóðfélagshátta og breyttu stöðu fjölskyldunnar sem við heyrum svo oft vitnað til. Í því sambandi má t.d. nefna umferðarfræðsluna sem við viljum fá inn í grunnskólana, aukna heimilisfræðikennslu og mismunandi þætti í heilbrigðisfræðslu sem tengjast fyrirbyggjandi aðgerðum, forvarnarstarfi, svo fátt eitt sé nefnt. Allt eru þetta þættir sem eru nauðsynlegir og skólakerfið verður að aðlaga sig breyttum þörfum, jafnvel breyta áherslum ef því er að skipta. Lista- og verkmenntagreinar hljóta að verða þar ofarlega á blaði.
    Það að færa undirstöðumenntun í tónlistargreinum inn í grunnskólana er þýðingarmikill þáttur. Ég hef reyndar oft lýst þeirri skoðun minni að slík fræðsla, eins og t.d. nótnalestur, ætti að skipa sess við hlið annarra undirstöðukennslugreina, svo sem lestrar, skriftar og reiknings.
    Eins og einnig kemur fram í grg. er tónlistarnám kostnaðarsamt fyrir foreldra og má segja að það sé umhugsunarefni hvers vegna tónlistarfræðsla skipar þennan sess í menntakerfinu að vera flokkuð --- það

liggur við að maður geti sagt sem lúxus eða forréttindi því að, eins og kom fram í máli hv. 18. þm. Reykv., þá gefur auga leið að fyrir foreldra sem eiga börn sem vilja stunda tónlistarnám, jafnvel fleiri en eitt, þau geta verið 3--4 systkinin ef því er að skipta, hljóta að verða mikil útgjöld að standa straum af slíku námi. Oftast er það nú þannig að ef eitt barnið hefur áhuga á tónlist eða fer í tónlistarnám fylgja fleiri systkini eftir ef um er að ræða fleiri börn á sama heimili.
    Það er því brýnt að koma þessari undirstöðufræðslu tónmenntar inn í grunnskólana og létta þannig þessa fjárhagslegu byrði foreldranna, a.m.k. á fyrstu námsárunum. Tónlistarskólar sem sérskólar gætu síðan verið á framhaldsstiginu.
    Þekking og iðkun á tónlist á ekki að teljast til munaðar og sérréttinda fárra útvaldra, heldur á hún að vera sjálfsagður hluti af menntun og menningarlífi almennings. Tónmenntafræðslu á grunnskólastigi þarf því að koma inn í grunnskólana og tengja betur saman grunnskóla og tónlistarskóla að þessu leyti.