Olís og Alþýðubankinn
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna orða hæstv. viðskrh. hér fyrir stundu hef ég þetta að segja: Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að fsp. á þskj. 579 um meðferð Olísmálsins í Landsbanka Íslands sé um sama efni og hér var farið fram á að ræða. Alþýðubankinn kemur ekkert þeirri fsp. við. Ég tel því með öllu eðlilegt að taka tillit til hvors tveggja, fsp. og utandagskrárumræðunnar.
    Hitt er hins vegar rétt hjá hæstv. ráðherra að það mun hafa láðst að tilkynna bæði honum og formönnum þingflokka um þessa umræðu. Það get ég ekki gert annað en að harma og bið auðvitað afsökunar á því. Þar er um að ræða slys vegna þess að við erum fáliðaðri hér í skrifstofunni þessa viku en að öllum jafnaði. Þarna hefur einungis orðið mjög leiðinlegt óhapp og ég bið auðvitað velvirðingar á því.