Olís og Alþýðubankinn
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Það skal tekið sérstaklega fram að ég bað um þessa utandagskrárumræðu fyrir tveimur dögum síðan og treysti því að upplýsingar mundu berast til hæstv. viðskrh. og formanna allra þingflokka. Það er greinilegt að það hefur ekki gerst.
    Varðandi svör hæstv. viðskrh. við þeim spurningum sem ég lagði hér fram fannst mér vanta töluvert í þau, en hann hefur það sér til afsökunar að hafa ekki getað aflað sér upplýsinga á svo skömmum tíma. Mér hefði þótt gott að fá að vita hvernig á því stóð að Útvegsbanki Íslands neitaði Alþýðubankanum um ábyrgð þrátt fyrir að Alþýðubankinn hafi verið tilbúinn til að baktryggja þá ábyrgð. Einnig hefði ég viljað að það kæmi skýrt fram hjá hæstv. viðskrh. hvort Alþýðubankanum sé ekki treystandi til þess að setja svona ábyrgðir.
    Sú umfjöllun sem orðið hefur um þetta mál hefur beinst að því að rýra álit Alþýðubankans og um leið Olís og ég harma það, og m.a. er beðið um þessa utandagskrárumræðu til þess að leiðrétta þann misskilning og ég verð að segja það að hæstv. viðskrh. tók undir það að vissu leyti.
    Ég vil að lokum þakka hæstv. viðskrh. fyrir að hafa þrátt fyrir hinn skamma frest svarað eins vel og hann gat þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann.