Olís og Alþýðubankinn
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Um fyrra atriðið af þeim tveimur sem hv. 11. þm. Reykv. beindi til mín í seinni ræðu sinni, þ.e. hvort ég gæti skýrt viðskipti milli banka vegna þessa máls, þ.e. Alþýðubankans og annarra banka, er svarið það að mér er ekki kunnugt um þau viðskipti og tel það reyndar ekki í mínum verkahring að hnýsast í þau. Hins vegar vil ég segja það alveg skýrt varðandi seinna atriðið sem hv. fyrirspyrjandi hreyfði í sinni síðari ræðu, og ég vona reyndar að það hafi komið fram í því sem ég sagði hér áðan, að Alþýðubankinn hefur gengið tryggilega frá þessum viðskiptum. Honum er fulltreystandi til þess að setja slíkar tryggingar og hann hefur í alla staði gengið frá málinu á þann hátt sem hægt er að ætlast til og fullnægir kröfum um viðskiptaöryggi.
    Þetta er það eina sem ég vil um málið segja. Um aðrar hliðar þess eða tengingar vil ég ekki segja fleira en fram er komið í umræðunni til þessa.