Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 17. mars 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Þetta mál hefur nú þegar fengið töluverða umræðu í fjölmiðlum og hefur valdið nokkrum taugatitringi. Miklar umræður um húsnæðismál eru ekki óeðlilegar svo nátengd sem þau mál eru lífi hvers og eins. Umræðan um lagafrv. um húsnæðismál hefur þó verið með nokkuð sérstökum hætti, bæði þau sem voru lögð fram á síðasta löggjafarþingi svo og það sem hér er til umræðu.
    Haustið 1987 var lagt fram frv. sem hafði það markmið að tryggja betur forgang þeirra sem brýnasta þörf hafa fyrir lánafyrirgreiðslu, draga úr sjálfvirkni og minnka fjárþörf. Þá var því haldið fram að þær ráðstafanir mundu verða leið út úr því ófremdarástandi sem húsnæðismálin voru í og ég man ekki betur en þá hefði jafnvel ráðherradómur verið settur að veði, svo mikilvægar voru þær breytingar taldar.
    Við kvennalistakonur vorum samþykkar í stórum dráttum þeim breytingum sem þá voru gerðar á húsnæðislánakerfinu, en bentum á að sú lagasetning leysti því miður ekki vanda kerfisins eins og talað var um. Fjárveitingar til Byggingarsjóðs ríkisins hafa ekki verið og eru ekki í neinu samræmi við það sem þarf til að kerfið nái jafnvægi. Haustið 1987 var biðtíminn eftir lánum 1*y1/2*y--2 ár og þeir sem eru að fá lánsloforð nú í hendur eru með biðtíma í kringum 26 mánuði. Þeir sem sækja um lán í dag þurfa að bíða að meðaltali í 34 mánuði að óbreyttu kerfi. Þannig er ljóst að ekki leysti frv. hæstv. félmrh. haustið 1987 neinn vanda. Vorið 1988 fengum við svo til umræðu eftir ekki minna brambolt frv. um kaupleiguíbúðir og svo erum við búin að fá hér til umræðu á Alþingi frv. sem virðist hafa valdið síst minni deilum en tvö hin fyrri.
    Ég ætla ekki að blanda mér í deilur stjórnarflokkanna en ég furða mig á því að fólk skuli kjósa fjölmiðla sem vettvang til að ræða þessi mál. Það getur varla leitt til farsælla lausna.
    Eins og svo margoft hefur komið fram áður leggur Kvennalistinn áherslu á nauðsyn þess að húsnæðislánakerfið verði endurskoðað í heild, m.a. með það að markmiði að auka framboð á leiguhúsnæði, félagslegum íbúðum og íbúðum með búseturéttarfyrirkomulagi. Það eru því viss vonbrigði að það skuli ekki enn hafa verið gert. Skortur á leiguíbúðum og félagslegum íbúðum er verulegur. Sem dæmi má nefna að í Reykjavík sóttu rúmlega 1100 manns um íbúð hjá verkamannabústöðum, en aðeins er unnt að verða við óskum um 200 aðila. Það er því augljóst að grípa verður til aðgerða á því sviði.
    Ég vek athygli á því að Kristín Ástgeirsdóttir, sem var fulltrúi Kvennalistans í nefnd félmrh. sem hún hefur hér gert grein fyrir, óskaði eftir því og gerði grein fyrir því að hún teldi æskilegt þegar hún tók sæti í nefndinni að nefndin mundi fjalla um húsnæðislánakerfið í heild, ekki eingöngu almenna húsnæðislánakerfið. Það var hins vegar ákveðið af þeim sem stýrðu nefndinni að eingöngu yrði fjallað um almenna kerfið, en félagslega kerfið var ekki tekið til umræðu þar. Lýsti hún óánægju sinni í nefndinni

með það. Ég vildi láta það koma hér fram.
    Þær hugmyndir sem hér liggja fyrir byggja á því að komið verði á nýju kerfi í húsnæðismálum sem nefnt hefur verið húsbréfakerfi. Ég man ekki betur en það hafi verið á síðasta löggjafarþingi ef ekki fyrr sem Borgfl. kom einmitt með frv. mjög svipað þessu svo að það eru ekki alveg nýjar hugmyndir sem við erum að fjalla um nú þó að útfærslan sé að vísu ekki eins.
    Helstu kostir húsbréfakerfisins hafa verið raktir nokkuð hér, en ég held að það sé augljóst að það kerfi hefur mjög marga kosti, m.a. það að markaðurinn mun fjármagna sig að miklu leyti sjálfur þannig að seljendur lána kaupendum stærri hluta en nú er gert til lengri tíma. Það er ótvíræður kostur og ætti að leiða til þess að framlög ríkissjóðs til húsnæðiskerfisins mundu þá geta minnkað eða farið að verulegu leyti í félagslega íbúðalánakerfið og leiguíbúðir.
    Það er líka ótvíræður kostur að mínum dómi að þarna verður stærri hluti af lánafyrirgreiðslu til húsbyggjanda á einni hendi en að því hefur verið óhagræði í því kerfi sem við höfum nú hve fólk hefur þurft að leita sér að lánum á mörgum stöðum. Ég tel það einnig kost að ekki skuli vera tengdar saman fyrirgreiðsla hjá opinbera kerfinu og greiðslur í lífeyrissjóð. Ég hef talið það vera ókost í núverandi kerfi hversu nátengt þetta er og hefur oft komið sér illa vegna skerðingar og ekki síst hjá fólki sem er tímabundið utan vinnumarkaðarins. Hefur það komið sér illa m.a. vegna námsmanna. Húsbréfakerfið er einnig talið lækka útborgun og það hlýtur að vera mjög mikill kostur.
    Einnig er talað um, og ég tel það vera einn af stóru kostunum, að þarna hafa seljendur ríkisábyrgð, það er ríkistryggt allt það fé sem þeir lána kaupendum. Auðvitað eru margir kostir þessu samfara. Hins vegar er ekki því að neita að margar efasemdaspurningar hafa vaknað og bent hefur verið á marga galla á frv. sem hér liggur fyrir.
    Eitt af því sem lagt var til í nefnd félmrh. var að kaupskylda
lífeyrissjóðanna mundi minnka úr 55% niður í 47%. Þegar ég sá þetta fyrst fannst mér þetta mjög einkennilegt vegna þess að mér fannst 47% vera hátt hlutfall. Í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að hluti af samningsbundnum skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna verði í húsbréfum. Það skiptir verulegu máli hvernig þetta verður framkvæmt. Þarna eru ákvæðin að vísu 55% í heild, en það er ekki ákveðið nákvæmlega hversu mikið fer í húsbréfin og hversu mikið fer í annað. Ég tel það á vissan hátt kost að það skuli ekki vera fastbundið hve mikið fer í hvort vegna þess að það hlýtur að vera að lífeyrissjóðirnir séu einn stærsti kaupandinn að húsbréfunum ef þetta nær fram að ganga.
    Ég tel líka verulega óvissu í sambandi við afföll af þessum bréfum. Því hefur verið haldið fram að það þurfi ekki að óttast neitt í því sambandi og það kom fram í máli hæstv. félmrh. áðan að við þyrftum engar

áhyggjur að hafa af því. En það breytir ekki því að ég hef verulegar áhyggjur af þessu atriði. Mér er ekki alveg ljóst hvort þessi trygging, þessi verðbréfavaki sem Seðlabankinn og Byggingarsjóður ríkisins eiga að vera í þessu sambandi muni verka nákvæmlega eins og talað er um. Hvort augljóst sé að fólk sem er með húsbréf í höndunum geti losað sig við þessi bréf hvenær sem því dettur í hug með óverulegum afföllum eins og við höfum verið fullvissuð um af félmrh. Ég t.d. reikna með því að Seðlabankinn og Húsnæðisstofnun hljóti þá að þurfa að hafa eitthvert ákveðið fé handbært til að geta alltaf komið til um leið og einhver tregða verður í sölu á þessum bréfum. Ég velti því fyrir mér hversu mikið er reiknað með að þurfa að setja í að kaupa húsbréf á hverjum tíma og hvað ef enginn vill eiga húsbréf. Ef allir þeir sem eru með húsbréf í höndunum vilja nú losa þau og telja öruggara að hafa peningana undir koddanum eða í einhverju öðru formi, er þá nægileg trygging þarna á bak við? Þetta eru hlutir sem ég hef mikið velt fyrir mér og finnst ekki augljóst af því sem þó hefur komið fram bæði hér og annars staðar að þetta sé nægileg trygging fyrir þá sem fara með þessi bréf út á verðbréfamarkaðinn.
    Það má líka benda á að við höfum verið að fjalla um á þinginu frv. um verðbréfasjóði og verðbréfaviðskipti sem ekki er enn búið að afgreiða. Það er spurning hvernig það kemur inn í þetta mál.
    Það kom fram í máli hæstv. félmrh. að búið væri að gera úttekt á því eða reynt að gera úttekt á því hvernig húsbréfin muni hafa áhrif á verðbréfamarkaðinn. Ég hef ekki séð þá úttekt, en reikna með því að við fáum þá þær upplýsingar í félmn. þar sem ég á sæti. Ég reikna með að það verði hægt að fjalla frekar um þetta mál þar. En þetta eru atriði sem ég hef verulegar áhyggjur af.
    Það sem er helsti munurinn á þessu kerfi og því danska kerfi sem ég held að sé fyrst og fremst fyrirmyndin að þessu er að þar eru húsbréfin með fasteignaveð. Þau eru ekki ríkistryggð. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort það geti haft hættu á misnotkun í för með sér. Þetta eru hlutir sem ég hef ekki getað borið undir mér vitrari menn, en mér finnst að það þyrfti að athuga nánar hvort þarna sé hægt að ná sér í lánsfé með ríkisábyrgð á bak við kerfið. Þetta eru einungis vangaveltur og e.t.v. engin hætta í þessu fólgin, en þarna er alla vega munur á danska kerfinu og þessu, því danska kerfi sem er orðin yfir 100 ára reynsla á. Við þyrftum að athuga það betur og ég vonast til þess að við getum þá fengið að gera það í félmn.
    Þrátt fyrir að við höfum verið upplýst um að greiðslubyrði af lánum í þessu nýja húsbréfakerfi verði minni en í núgildandi kerfi er alltaf miðað við að fólk fari út á almenna lánamarkaðinn að ná sér í lán. En því er ekki að neita að við erum að stytta lánstímann úr 40 árum í 25 ár og það hlýtur óneitanlega að þyngja greiðslubyrðina af þeim lánum sem fólk fær hjá Húsnæðisstofnun. Ég hef ekki séð hvernig þessir útreikningar um greiðslubyrðina eru fengnir

nákvæmlega, en ég vonast til þess að ég fái tækifæri til þess síðar. En þær fullyrðingar hljóma einkennilega í mínum eyrum. Og vextirnir hækka úr 3,5% í kannski 6--7%. Því er ekki að neita. En ég tek undir það sem hæstv. félmrh. sagði að auðvitað gengur ekki kerfið til lengdar eins og það er núna. Að óbreyttu framlagi ríkissjóðs verða byggingarsjóðirnir gjaldþrota eftir ekki ýkja langan tíma, talað um að mig minnir að skömmu eftir árið 2000 verði sjóðirnir gjaldþrota að óbreyttu ástandi.
    Síðan hafa margir bent á að íbúðaverð muni hækka við þessi húsbréf og vegna þeirra affalla sem margir spáað verði á bréfunum. Þetta eru hlutir sem er ekki hægt annað en að spá í en við verðum að taka til athugunar og ekki horfa fram hjá þegar verið er að vega og meta kosti þess að taka upp þetta nýja kerfi.
    Það er svo sannarlega rétt að frv. til l. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt, sem er fylgifrv. með þessu frv., er mjög mikilvæg og veigamikil undirstaða fyrir þessu húsbréfakerfi. Það þarf að athuga það vel í sambandi við þetta sérstaklega hvernig þær bætur koma til góða þeim sem eru tekjulægstir. Ég hef ekki kynnt mér það frv. sérstaklega, en mér finnst í fljótu bragði ansi lág tekjuviðmiðun. Ég velti því fyrir mér hvort þeir sem njóta verulegra vaxtabóta í gegnum þetta kerfi, sem eru þeir sem eru með lægstu launin, t.d. hjón með 100 þús. kr. mánuði, með hæstu vaxtabætur sem eru
140 þús. kr. á ári, hafi yfirleitt ráð á að kaupa sér íbúð í þessu kerfi. Þetta eru hlutir sem þarf að reikna út og velta fyrir sér og það gefst væntanlega tími til þess síðar.
    Í heildina vil ég segja að ég tek á vissan hátt undir þær hugmyndir sem hér eru settar fram og vil að lokum fá að vitna í lok bókunar Kristínar Ástgeirsdóttur, sem var fulltrúi Kvennalistans í milliþinganefnd félmrh. um húsnæðismál, en hún skilaði nokkurra síðna bókun í nefndinni. Lok bókunarinnar hljóða svo, með leyfi forseta:
    ,,Vegna þess hve óvissuþættirnir eru margir og stórir er erfitt að taka eindregna afstöðu með fyrirhuguðum breytingum. Húsbréfakerfi er vænlegur kostur fyrir ákveðinn hóp kaupenda og mun hann ef vel tekst hafa í för með sér jákvæðar breytingar. Því tel ég rétt að láta á það reyna. Spurningin er hins vegar sú hvort viðbót á einum stað í húsnæðiskerfinu og niðurskurður á öðrum kemur nógu mörgum til góða. Að mínum dómi er mikil þörf á endurskoðun á húsnæðiskerfinu þar sem horft verður á það sem heild en hætt að greina það niður í tvo afmarkaða hluta. Slík endurskoðun þarf að miðast við framtíðina ekki síður en nútíð þannig að koma megi í veg fyrir endalausar smábyltingar og neyðarúrræði þegar allt er komið í óefni. Aðeins þannig verður tryggt að allir sitji við sama borð og húsnæðiskerfið þjóni þeim sem það á að þjóna.``
    Ég tek undir það sem Kristín segir. Ég er í stórum dráttum hlynnt því að reyna að taka upp húsbréfakerfi eins og hér er gert ráð fyrir. Ég held að það sé skynsamlegt, sem gert hefur verið ráð fyrir, að gera

það í áföngum, að taka það smám saman inn en ekki að taka allt undir í einu. Væntanlega gefst kostur á því í félmn. að fá svar við þeim spurningum sem ég hef sett fram hér en sjálfsagt er ekki hægt að svara hér og nú.