Vinnuvernd í verslunum
Mánudaginn 20. mars 1989

     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Þar sem mér virtist röddin ætla að bresta áðan þegar ég talaði hér fyrir tillögunni vil ég koma aftur í ræðustól og segja nokkur orð.
    Ég vil taka undir það sem hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir sagði áðan um nauðsyn þess að aflað sé betri og nánari upplýsinga um vinnutíma starfsfólks almennt, ekki aðeins þeirra starfshópa sem hér um ræðir og þessi þáltill. nær til. Það er orðið brýnt að menn geri sér grein fyrir því að í þessum efnum er því miður um ákveðna misnotkun að ræða í ákveðnum starfsgreinum og er nauðsynlegt að það sé kannað til hlítar með hvaða hætti það gerist. Það er nefnilega mjög þýðingarmikið, sérstaklega þegar harðnar í ári, að gera sér grein fyrir því að þá getur gætt aukinnar tilhneigingar, ég vil segja hjá óprúttnum vinnuveitendum og þarf það ekki endilega að vera hjá einkafyrirtækjum heldur getur það einnig gerst hjá hinu opinbera, til að vilja nýta sér starfskrafta fólks óheyrilega umfram eðlilegan vinnutíma. Það er þess vegna fullkomlega tímabært eins og fram kom í ræðu hv. þm. Danfríðar Skarðhéðinsdóttur að gerð sé nánari úttekt á þessum málum og skýrslur lagðar fram.
    Það er hins vegar annað atriði, virðulegi forseti, sem ég vil vekja athygli á við þessa umræðu. Þetta er í annað skipti sem flutt er tillaga um það að gerðar séu ráðstafanir til að tryggja það að starfsfólk í verslunum á sviði viðskipta búi ekki við óheyrilegan vinnutíma með því að Alþingi og hæstv. ríkisstjórn komi til skjalanna að samþykktri þessari tillögu með þeim hætti að hér verði sett lög til að tryggja vinnuvernd á þessu sviði. Á síðasta þingi þegar þetta mál var til umræðu vakti það sérstaka athygli, ekki aðeins á hv. þingi heldur líka úti í þjóðlífinu, að það voru aðeins fulltrúar tveggja aðila hér á hv. þingi sem tóku til máls og afstöðu til þessa máls í ræðustóli og það voru þingmenn úr röðum Sjálfstfl. og þingmenn sem hér eru á vegum Kvennalistans.
    Sama sagan virðist ætla að endurtaka sig nú, að áhugi annarra hv. þm. fyrir þessum þúsundum starfsmanna, ég vil segja sem nálgast það að vera um 8--10 þúsund, ef ekki meira en það, þótt hv. þm. viti hversu langur vinnutími er hjá starfsmönnum í stórmörkuðunum hér á Reykjavíkursvæðinu og annars staðar á landinu --- áhuginn fyrir því að reyna að tryggja hag þessa fólks er ekki meiri en það að engir þingmenn úr öðrum flokkum hafa tekið til máls og lýst yfir stuðningi við þetta mjög þýðingarmikla mál fyrir þetta fólk.
    Annað atriði, virðulegi forseti, vil ég einnig koma inn á sem er að ég vona að það gerist ekki nú eins og á síðasta þingi að þessi tillaga verði drepin í nefnd og nái ekki fram að ganga með þeim hætti. Það væri Alþingi til skammar og vansæmdar ef þetta mál fær ekki þinglega meðferð þannig að það verði afgreitt út úr nefnd inn í þing, svo að þm. geti samþykkt þessa þáltill. og ríkisstjórn ,,félagshyggjuflokkanna`` fái tækifæri til að sýna það í verki hvaða hug þeir raunverulega bera til fólksins í landinu.