Vinnuvernd í verslunum
Mánudaginn 20. mars 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Sú till. til þál. sem hér liggur fyrir um vinnuvernd í verslunum hefur verið flutt hér áður eins og hv. 1. flm. till. kom inn á. Ég tel að hér sé á ferðinni góð tillaga og þarf ekki að bæta miklu við grg. sem fylgir með till. því að það er rétt, eins og hv. 1. flm. till., 14. þm. Reykv., kom inn á, að ein starfsstétt, verslunarmenn, skuli þurfa að búa við mjög óviðunandi aðstæður. Allir sem þekkja til verslunar og vinnutíma verslunarfólks vita að þar er býsna langur vinnutími og oft erfiður vinnutími. Ofan á það að hann sé langur er þetta erfið vinna og miklar stöður. Fólk þarf að búa yfir mikilli líkamlegri hreysti ofan á allt til að vinna þessa vinnu oft og tíðum. Ég vil því lýsa yfir því að ég mun styðja þessa tillögu og tel að það sé tímabært að þessi mál séu athuguð ofan í kjölinn og það sé tryggt að þessi launahópur sé ekki sá eini í landinu sem búi ekki við vinnuvernd og að það verði búið þannig um hnútana að fólk geti lifað af 40 stunda vinnuviku eins og margir aðrir hópar geta gert. Það er mjög mikilvægt að þessi eini hópur þurfi ekki að vinna allan þennan langa vinnudag og væri hæglega hægt að koma því þannig fyrir. Það er nokkuð ljóst að það þarf ekki endilega að hafa opið allan þann tíma sem verslanir eru opnar nú. Það er hægt að hagræða og koma því þannig við að fólk geti unnið reglulegan vinnutíma og þurfi ekki að vinna upp í 70--80 klukkustundir eins og oft eru dæmi um. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þessa tillögu og vona að hún fái góða afgreiðslu hér.