Afnám vínveitinga á vegum ríkisins
Mánudaginn 20. mars 1989

     Flm. (Jón Helgason):
    Hæstvirtur forseti. Á þskj. 525 flyt ég ásamt hv. þm. Hreggviði Jónssyni, Skúla Alexanderssyni, Birnu K. Lárusdóttur, Karvel Pálmasyni, Margréti Frímannsdóttur, Óla Þ. Guðbjartssyni, Auði Eiríksdóttur, Sigríði Hjartar og Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur till. til þál. um að Alþingi samþykki að dregið verði úr vínveitingum á vegum ríkisins og annarra stofnana þess hérlendis með það að markmiði að þær verði afnumdar að liðnum þremur árum.
    Um áfengismál hafa oft orðið langar umræður og um þau hægt að ræða frá mörgum hliðum, svo margþætt eru áhrif áfengisneyslunnar á þjóðfélagið. En í framsögu minni fyrir þessari þáltill. mun ég fyrst og fremst fjalla um þau með tilliti til þeirrar ábyrgðar sem alþingismenn bera á ástandi þeirra mála í þjóðfélaginu.
    Áfengisneysla er eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál allra þjóða. Af þeim sökum hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin samþykkt að þjóðirnar setji sér það markmið að draga úr áfengisneyslu um 25% á næsta áratug eða til ársins 2000. Slíkt markmið næst ekki með því einu að gefa þannig yfirlýsingu. Til þess þarf öflugt átak og mikið starf. Ekki er þess síst þörf hér á landi þegar nú hefur verið hafin sala á nýrri áfengistegund með meiri áróðri fyrir áfengi en óhætt er að fullyrða að nokkru sinni hafi verið hafður uppi hér fyrr og gífurlegri fjölgun vínsölustaða. Sérstaklega verður að óttast að aldur áfengisneytenda lækki enn þegar bjórdósirnar standa orðið við hlið ávaxtasafans og mjólkurinnar í kæliskápnum. Þá stoðar lítt að segja börnunum að þetta eigi þau ekki að drekka þegar foreldrarnir sýna í verki að bjór og annað áfengi sé svo eftirsóknarvert að án þess sé alls ekki hægt að vera.
    Sama viðhorf ríkir alls staðar í þjóðfélaginu þar sem ríkisvaldið gengur m.a. hart fram í því að hvergi sé helst hægt að koma saman án þess að áfengi sé fram boðið og helst allir neyti þess.
    Það er furðulegt að við svo gífurlegan þrýsting, bæði á heimilum og annars staðar í samfélaginu, skuli síðan sumir tala um að einstaklingunumr eigi að vera frjálst hvort þeir neyti þess eða ekki. Allra síst er þó hægt að segja það um börn og unglinga sem engu ráða um það umhverfi sem þau fæðast og alast upp í. Neysla vímuefnanna hefur síðan þau áhrif að dómgreindin fýkur út í veður og vind.
    Afleiðingarnar láta heldur ekki á sér standa. Samkvæmt þróun síðustu ára á meðferðarstofnunum telja þeir sem þær reka að allt bendi til að næstum þriðji hver fermingardrengur ársins 1988 muni leggjast inn á þær til afvötnunar og áfengis- og vímuefnameðferðar áður en hann nær sjötugu. Sumir verða þó fyrir fjörtjóni vegna ölvunaraksturs, ofbeldisverka eða annarra slysfara af völdum áfengisneyslu áður en menn ná að leita þar hjálpar. En það er samdóma álit allra að þeir sem eru orðnir svo háðir áfengi að þeir þurfi að leita til meðferðarstofnana megi aldrei neyta þess aftur ef þeir eiga ekki að missa fótanna á ný.

    Hér á hv. Alþingi fer mestur tími okkar í umræðu um efnahagsvandamál og skal síst úr því dregið að þar bíða okkar erfið verkefni. En þessi eina tala um þörf fyrir sjúkrarými sem ég nefndi um afleiðingar áfengisneyslu ætti að nægja til að sannfæra alla um hversu gífurlegar efnahagslegar afleiðingar áfengisneyslan hefur fyrir þjóðfélagið. Í mínum huga er þó hinn mannlegi harmleikur margfalt meira mál. En hvort tveggja er það svo miklu alvarlegra en að meiri hluti hv. alþm. geti haldið áfram að kynda undir þá elda sem þar brenna með því að viðhalda óbreyttu ástandi. Ég vil ekki trúa því að hv. alþm. hafi látið áfengi svo svæfa samvisku sína að þeir vilji ekki rétta æskunni hjálparhönd til að sleppa frá þeim örlögum, að þeim finnist það ekki meira virði en það, sem þeir hingað til hafa talið mikið hnoss, að fá vínveitingar fyrir ekki neitt á opinberum fundum og mannfagnaði þegar kostur gefst á.
    Vaflaust hafa margir talið tillögu þessa fjarstæðu þegar hún kom fram og brosað að henni, enda aðhlátur sterkasta vopn þeirra sem að aukinni áfengisneyslu vinna. Það finna ekki síst unglingarnir sem verið er að ögra til að byrja á þeirri neyslu. En í mínum huga er heill og hamingja æskumannsins ekki aðhlátursefni. Öll höfum við lært að við berum okkar ábyrgð á náunganum. En margfalt meiri hlýtur þó að vera ábyrgð alþingismanna sem hafa tekið að sér að móta stefnu þjóðmála. Ég vil því vona að aðgerðir og aðgerðarleysi alþingismanna í áfengismálum á undanförnum árum, sem hefur leitt til þess ástands sem nú er í þjóðfélaginu, stafi af hugsunarleysi og skammsýni. Því muni þeir nú, þegar hinar hrikalegu staðreyndir blasa við, gera sér grein fyrir því að þannig verður ekki lengur haldið áfram. Því er óhjákvæmilegt að Alþingi sýni í verki að neysla áfengis sé óæskileg og ónauðsynleg, en hún er nær undantekningarlaust undanfari áður en byrjað er á annarri vímuefnaneyslu sem allir segjast vilja gera það sem hægt er til að koma í veg fyrir. Í ljósi þessara skýru og einföldu staðreynda sem ég hef nú rakið er þessi tillaga flutt.
    Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. allshn. sem ég vænti að taki afstöðu til hennar sem fyrst.