Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki við fyrri umræðu að fara mörgum orðum um þessa tillögu. Það gefst betra tækifæri til þess þegar og ef málið kemur úr nefnd á þessu þingi. En ég lýsi andstöðu minni við tillöguna.
    Ég hef veitt því athygli að í fréttum hefur þess verið sérstaklega getið að þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi séu flm. tillögunnar. Það er rétt, en það þýðir hins vegar ekki að allir þingmenn allra flokka séu sammála efni tillögunnar.
    Ég legg áherslu á að hér er ekki flutt tillaga sem er t.d. í samræmi við stefnumál Sjálfstfl. Á landsfundum flokksins hefur verið ályktað þvert gegn svona fyrirætlunum. Í grg. með tillögunni segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nú stendur yfir og er fram undan mikið átak í mörgum atvinnugreinum til hagræðingar í rekstri á þann hátt að sameina fyrirtæki og stækka rekstrareiningar. Viðurkennt er að með því móti megi ná fram miklum sparnaði án þess að draga úr rekstri eða þjónustu. Með tilliti til þessarar staðreyndar er ekki síður þörf á að gera slíkt á sviði orkudreifingar og því fráleitt að ríkið standi að rekstri tveggja fyrirtækja með svo skylda starfsemi sem Rafmagnsveitur ríkisins og Landsvirkjun halda uppi.``
    Það er hægt að taka undir sumt af því sem þarna er sagt. Það er vafalaust í mörgum tilvikum rétt að sameina fyrirtæki og ná þannig betri og hagkvæmari rekstrareiningum. En það er mín skoðun að það eigi ekki við í þessu tilviki. Ýmsir hafa haldið því fram, og að mínu viti með réttu, að Landsvirkjun sem slík sé þegar orðin nægilega stórt fyrirtæki og ekki sé ástæða til þess að stækka það.
    Það má taka undir að það sé ekki endilega rétt að ríkið reki svo skylda starfsemi í tveimur fyrirtækjum, en það eru aðrar leiðir til en að sameina þessi fyrirtæki, þar á meðal að leysa Rafmagnsveitur ríkisins upp og selja það fyrirtæki. Ég bendi á í því samhengi að verulegar eignir Rafmagnsveitna ríkisins á Suðurnesjum voru seldar fyrir nokkrum árum Hitaveitu Suðurnesja sem tók við allri raforkudreifingu á Suðurnesjasvæðinu. Þar þótti mönnum ástæða til að jafna orkuverð. Það var mjög misjafnt á því svæði.
    Ég tek undir þann tilgang sem flm. þessarar þáltill. leggja áherslu á, þ.e. að jafna orkuverð í landinu, en ég er ekki sammála því að þetta sé leiðin til þess.
    Ég ætla ekki að fara frekar út í efnisatriði þessa máls. Eins og ég sagði áðan gefst betra tækifæri til þess þegar og ef þetta kemur úr nefnd. Þar verður málið ítarlega athugað. En ég ítreka andstöðu mína við þessa tillögu.