Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Hæstv. forseti. Ég hef mál mitt með því að lýsa andstöðu minni við efni þessarar tillögu. Ég tel að það sé rangt að sameina Landsvirkjum og Rafmagnsveitur ríkisins og að aðgerð af því tagi mundi ekki stuðla að því, sem greinilega er til stofnað með þessari tillögu, að jafna og lækka raforkuverð í landinu.
    Í rauninni er þáltill. tvíþætt. Annars vegar er sameining Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins og hins vegar fjallar hún um jöfnun smásöluverðs á raforku. Ég ætla aðeins að ræða fyrri hlutann fyrst, sameiningu Landsvirkjunar og RARIK.
    Nú er það svo að bæði þessi fyrirtæki eru mjög stór á íslenskan mælikvarða og ég tel að það sé órökstutt með öllu að það verði sparnaður við sameiningu þessara fyrirtækja. Við skulum átta okkur á því að þó að þau fáist bæði við rafmagn er það svo og reynsla alls staðar annars staðar er sú að raforkuvinnsla annars vegar og raforkudreifing hins vegar eru talin svo óskyld starfsemi að í flestum eða öllum löndum þar sem ég þekki til er þetta sitt á hvorri hendinni, á hendi mismunandi fyrirtækja. Það eru önnur fyrirtæki sem eiga virkjanirnar og framleiða, en dreifingin er svo á hendi oft margra aðila.
    Nú er það reyndar svo að á milli Landsvirkjunar og RARIK er mikil samvinna um dreifingu raforkunnar þannig að rekstur og viðhald stofnlínukerfisins, sem Landsvirkjun tók yfir á sínum tíma, er í höndum RARIK sem eins konar verktaka.
    Ég tel þess vegna að það sé miklu skynsamlegri leið, sem ýmsar nefndir sem fjallað hafa um skipulag raforkumála hafa bent á, að skipta Rafmagnsveitum ríkisins upp í dreifiveitur sem ég átta mig ekki á hversu margar eigi að vera, það hafa komið fram tillögur um t.d. átta dreifiveitur, sumir nefna 10--15, þar sem dreift sé á landfræðilegum grundvelli eins og t.d. gerist hjá orkubúi Suðurnesja og reyndar hjá Orkubúi Vestfjarða. Af því að ég sá að hæstv. iðnrh. kvaddi sér hljóðs hér áðan vildi ég af þessu tilefni leyfa mér að spyrja hann: Hvað líður vinnu við skipulag á raforkudreifingunni? Mér er kunnugt um að í tíð fyrirrennara hans, hæstv. þáv. iðnrh. Friðriks Sophussonar, og jafnvel fleiri iðnrh. á undan honum, var allmikið unnið í þessu máli og miðaði nokkuð áleiðis. Það væri mjög æskilegt ef hann vildi upplýsa Alþingi um það nú hver staðan í því máli væri.
    Menn ræða oft um og slá því föstu að Landsvirkjun hafi framkvæmt of mikið og benda þá til þess að það sé umframorka í kerfinu. Nú er það svo að þegar um starfsemi er að ræða eins og virkjanir leiðir það af eðli máls að fyrst eftir að virkjun er tekin í gagnið er umframorka í kerfinu vegna þess að virkjanirnar eru yfirleitt í það stórum stökkum. Ég minnist þess t.d. að veturinn áður en Hrauneyjafossvirkjun lauk, sem var síðasta stórvirkjunin sem tók til starfa, var rafmagnsskortur á Íslandi og þurfti að skammta rafmagn t.d. til stóriðjufyrirtækja. Járnblendiverksmiðjan beið mikið tjón og fékk ákveðnar bætur vegna þess. Síðan kom Hrauneyjafossvirkjun inn og þá myndaðist umframgeta

í kerfinu. Sú umframgeta er langt komin með að eyðast nú og talið að jafnvel á næsta vetri muni örla á rafmagnsskorti eða alla vega þar næsta vetri þannig að nú er kominn tími til þess að ný virkjun komi inn, Blönduvirkjun, sem hefur verið í byggingu mjög lengi og reyndar framkvæmdir þar, vil ég leyfa mér að fullyrða, gengið eins hægt og mögulega hefur verið unnt að gera án þess að það verk yrði óhagkvæmara en efni stóðu til.
    Varðandi hinn þáttinn í tillögunni, þ.e. jöfnun raforkuverðs, er það svo að ýmsar aðgerðir hafa verið uppi til jöfnunar á raforkuverði í landinu. Ég nefni t.d. í fyrsta lagi að Landsvirkjun selur raforku með sömu gjaldskrá á öllum sölustöðum allt í kringum landið, þ.e. á 21 sölustað víðs vegar um land. Í þessu felst auðvitað mikil verðjöfnun. Í umræðu um raforkuverðið virðist mér að menn gleymi oft að heildsöluverðið er það sama hvar sem er á landinu. Það kom t.d. fram á ársfundi Landsvirkjunar 1988 að flutningskostnaður raforku væri svo misjafn eftir landshlutum að munaði 88 aurum á kwst. miðað við Austurland og 72 aurum á kwst. á Vestfjörðum og þá er miðað við Suðvesturland. Þetta er mikil munur þegar miðað er við meðalflutningskostnað sem þá var, árið 1987, um 24 aurar á kwst., en meðalverð Landsvirkjunar á því ári var 148 aurar á kwst.
    Í öðru lagi hefur Landsvirkjun á löngu árabili leyft sammælingu á afltoppum RARIK með sérstöku samkomulagi þrátt fyrir ákvæði í gjaldskrá og þetta hefur lækkað heildsöluverð til RARIK í samanburði við aðra t.d. Reykjavík.
    Í þriðja lagi framkvæmir RARIK einnig vissa verðjöfnun á heildsölu með því að leggja sama prósentálag á verð Landsvirkjunar óháð vegalengd og þar með raunverulegum flutningskostnaði.
    Í fjórða lagi hefur ríkið með framlögum úr Orkusjóði veitt RARIK beina styrki til rafvæðingar í strjálbýli og þeir námu árið 1988 80 millj. kr.
    Í fimmta lagi hefur ríkið með framlögum úr ríkissjóði innt af hendi verulega niðurgreiðslu á rafhitun ár hvert. Þessi niðurgreiðsla hefur að mestu gengið til RARIK og Orkubús Vestfjarða en einnig þriggja annarra veitna. Árið 1988 nam þessi niðurgreiðsla 200 millj. kr.
    Í sjötta lagi hefur ríkið beitt áhrifum sínum til þess að Landsvirkjun veiti sérstakan afslátt af heildsöluverði vegna rafhitunar RARIK og Orkubús Vestfjarða svo og hinna þriggja veitna. Árið 1988 nam þessi afsláttur 58 millj. kr.
    Í sjöunda lagi má einnig nefna verðjöfnunargjaldið sem var við lýði á sínum tíma en var afnumið fyrir nokkrum árum. Í því fólust að sjálfsögðu á þeim tíma verulegir styrkir til þessara orkuveitna.
    En í áttunda lagi hefur ríkissjóður yfirtekið lán af RARIK, ekki síst eftir að verðjöfnunargjaldið var lagt niður. Sumir telja reyndar að það hafi ekki verið gengið nægilega langt í því efni og það verður auðvitað að kanna það, en beint framlag ríkissjóðs til RARIK á árinu 1986 nam um 2 milljörðum kr.
    Þessa vildi ég geta til þess að menn áttuðu sig á

að því fer fjarri að það séu ekki hafðar uppi vissar aðgerðir til að jafna orkuverð á landinu.
    Mér finnst það óskýrt í tillögunni þegar verið er að tala um jöfnun og miða við jöfnun smásöluverðs á raforku þannig að verðlagning hjá hinu nýja fyrirtæki verði sambærileg við vegið meðaltal hjá öðrum veitum. Hvað er átt við með ,,vegið meðaltal``? Er átt við t.d. meðalverð RARIK, en meðalverð RARIK er lægra en hjá flestum eða öllum rafveitum á landinu? Ástæðan er sú að RARIK er með verulega stóran hluta af sinni notkun á niðurgreiddum töxtum, þ.e. töxtum sem notaðir eru við búrekstur og til rafhitunar.
    Aðeins að lokum, virðulegi forseti, ég skal ekki reyna á þolinmæði forseta, bendi ég á að tillöguflutningur af þessu tagi og síendurtekin umræða um að breyta eigi Landsvirkjun jafnvel einhliða eins og oft heyrist held ég að sé afar slæm miðað við það góða samstarf sem hefur verið milli ríkisins, sem er einungis helmingseignaraðili að Landsvirkjun, og sveitarfélaganna, þ.e. Reykjavíkur og Akureyrar, sem eiga hinn helminginn. Það getur komið að því að þessi sveitarfélög sjái hag sínum betur borgið með því að óska eftir því að fara út úr Landsvirkjun og sjá sjálf um sína raforkuöflun og dreifingu. Sú umræða fer t.d. fram á Akureyri nú að það sé skynsamlegt að Akureyrarbær fari út úr Landsvirkjun og fari aftur til fyrra horfs og eignist sinn hlut í Laxárvirkjun og stofni sérstakt orkubú þar sem bæði Hitaveita og Rafmagnsveita Akureyrar séu innanborðs. Reykjavíkurborg er í hugleiðingum um stórkostlega orkuöflun á Hengilssvæðinu, á Nesjavöllum, Nesjavallavirkjun, og það er enginn vafi á að það kann vel að vera, ekki síst þegar umræður af þessu tagi koma upp hvað eftir annað, að Reykjavík telji hag sínum betur borgið og sinni framtíð betur borgið með því að sjá sér sjálf fyrir raforku bæði með raforkuöflun og dreifingu.
    Mér þótti rétt, frú forseti, að þessar athugasemdir kæmu fram nú þegar við fyrri umr. um þessa þáltill.