Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá 2. minni hl. fjh.- og viðskn.
    Ég hef tekið þann kost að leyfa mér að fjalla um þessi þrjú frv. sem varða bankamál samtímis í nál., þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um viðskiptabanka, um breytingu á lögum um sparisjóði og svo um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, en allt eru þetta frv. sem ríkisstjórnin lagði fram á Alþingi í kjölfar þeirrar yfirlýsingar sem var flutt um efnahagsmál í Sþ. þann 6. febr. sl. af forsrh. Þessi frv. hafa þann tilgang að því er virðist og það er ætlan ríkisstjórnarinnar að með þeim eigi að takast að koma lagi á efnahag þjóðarinnar og rétta við hlut atvinnuveganna. En þegar litið er til þess hversu smávægilegar þær breytingar eru sem koma fram í þessum frv., þetta eru fyrst og fremst orðalagsbreytingar sem ekki er auðvelt að sjá að skipti miklu máli, finnst mér að væntingarnar séu afar miklar. Það er á engan hátt tekið á aðalmálunum, þ.e. þeim vandamálum sem við eigum við að glíma sem byggja á rangri peninga- og efnahagsstefnu sem hér hefur verið við lýði til margra ára. Í stað þess virðist ríkisstjórnin vonast til þess, svo dæmi sé tekið, að með því t.d. að bæta orðunum ,,hóflegir og`` inn í eina lagagrein seðlabankalaganna muni útlánsvextir lækka af sjálfu sér. Þetta er alveg ótrúlegt.
    En úr því að við erum að tala um banka vekja athygli mína fréttir sem hafa komið fram í fjölmiðlum undanfarna daga þar sem lýst er mjög góðum hagnaði ýmissa bankastofnana frá því á rekstrarárinu 1988, en bæði Verslunarbankinn og Iðnaðarbankinn hafa nú haldið ársfundi sína þar sem hefur komið fram að hagnaður af rekstri þessara tveggja banka varð umtalsverður og nýlega er afstaðinn ársfundur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis þar sem það sama var uppi á teningnum, að reksturinn var góður, hagnaður verulegur af rekstri sparisjóðsins.
    Það er orðið þannig að þetta er eini hluti atvinnulífs á Íslandi sem ber sig, þ.e. bankastarfsemi og peningastarfsemi hvers konar virðist lifa góðu lífi og skila ágætum hagnaði. Allt annað atvinnulíf landsmanna er í molum. Atvinnufyrirtækin eru rekin með miklu tapi. Það er ekki nema von að það vakni upp ýmsar spurningar. Hvað er eiginlega að gerast? Er rekstur bankanna í svona góðu lagi og er rekstur atvinnufyrirtækjanna svona lélegur? Er þetta skýringin?
    Hvað varðar fyrri staðhæfinguna, að rekstur bankakerfisins sé í svona góðu lagi, þá beinist hugurinn að hinum geysiháa vaxtamun sem er í bankakerfinu. Kannski er aðalskýringin á þessari góðu afkomu bankanna þar. En vaxtamunurinn í bankakerfinu er talinn vera um 8% á Íslandi á meðan vaxtamunur hjá erlendum bönkum er ekki nema 1%. Fyrr má nú rota en dauðrota!
    Ég hef leitað skýringa á hinum gífurlega vaxtamun sem er í bankakerfinu á Íslandi og ég bendi í nál. á fimm höfuðatriði sem ég reyndar hef komið inn á áður í máli mínu úr þessum ræðustól í hv. deild. Í

fyrsta lagi vil ég taka sem dæmi að það ríkir hér það sem ég hef nefnt hálfbrjáluð hávaxtasamkeppni um veltiinnlán, þ.e. bankarnir slást um viðskiptavini til þess að fá þá til að opna tékka og hlaupareikninga og greiða háa vexti til þeirra sem eru með slíka reikninga. Víða erlendis eru engir vextir greiddir fyrir þessa þjónustu og meira að segja tíðkast það sums staðar að það séu neikvæðir vextir, þ.e. bankar og sparisjóðir taka þóknun fyrir að leyfa mönnum að vera með ávísanareikninga í viðkomandi bankastofnun. Það er ekki nokkur vafi á að kostnaður bankakerfisins af tékka- og hlaupareikningum er margfalt meiri en það sem tekjur af þessum reikningum skapa. Að sjálfsögðu hlýtur þessum umframkostnaði að vera velt yfir á lántakendur í formi hárra útlánsvaxta.
    Þá er annað atriði sem ég hef nefnt hér og það er að vegna hinna geypiháu útlánsvaxta eru vanskil miklu meiri á Íslandi en eðlilegt getur talist. En það er einfalt mál að okurvaxtakerfi kallar á mikil vanskil. Því er mikill kostnaður í bankakerfinu vegna tapaðra skulda og að sjálfsögðu er þessum kostnaði velt yfir á lántakendur. Þetta kemur aftur inn í útlánsvextina.
    Þá hef ég í þriðja lagi nefnt að það vekja mikla furðu hinar gífurlegu auglýsingaherferðir bankanna og peningastofnana. Þær hljóta að kosta mikla fjármuni. Hvergi erlendis þar sem ég hef komið hef ég orðið var við auglýsingastarfsemi á vegum banka, en hér er hart bitist um hinar fáu hræður sem bankarnir geta náð til og kostnaði vegna þessarar auglýsingaherferðar er að sjálfsögðu velt yfir á lántakendur í gegnum útlánsvextina.
    Þá hef ég nefnt í fjórða lagi að gírógreiðsluþjónusta bankanna er orðin mjög umfangsmikil og ekki nokkur vafi á að kostnaður bankakerfisins af henni er mjög mikill og miklu, miklu meiri en tekjur vegna hennar nema vegna t.d. sölu gíróseðla. Víðast hvar erlendis fer þessi þjónusta fram í gegnum pósthús en ekki gegnum banka. Þegar gírógreiðslukerfið var innleitt á Íslandi lenti það hins vegar hjá bönkunum og þeir hafa séð um þessa þjónustu allar götur síðan. Það er að vísu hægt að fara í pósthús og greiða gíróseðla þar, en almenningur virðist hafa vanist á að fara fremur í bankana og leita þessarar þjónustu þar. Rekstrarkostnaði af þessari þjónustu er einnig velt yfir á lántakendur í gegnum háa útlánsvexti.
    Í síðasta lagi má benda á slælegan rekstur bankakerfisins, en þar hef ég
ekki annað en orð margra talsmanna bankanna sem hafa opinberlega lýst því yfir að rekstur bankanna sé allt of dýr. Þá vaknar sú spurning: Væri ekki hægt að lækka rekstrarkostnað bankakerfisins verulega með því að færa það til nútímalegs horfs? En of háum rekstrarkostnaði í bankakerfinu hlýtur að sjálfsögðu að verða velt yfir á lántakendur sem aftur mega þola geypiháa útlánsvexti af þessum sökum sem öðrum.
    En það er ekki ofsagt að vekja athygli á því að meðan vel rekin atvinnufyrirtæki berjast í bökkum skuli bankakerfið þrátt fyrir þennan mjög svo óhagstæða rekstur skila verulegum hagnaði. Því spyr

ég og leyfi mér að spyrja hæstv. viðskrh.: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að verja það gagnvart almenningi og atvinnulífinu að allar banka- og peningastofnanir skuli lifa góðu lífi á meðan allur annar atvinnurekstur og heimilin í landinu eru rekin með tapi?
    Þá er önnur ákaflega einföld spurning sem ég vildi líka beina til hæstv. viðskrh.: Hvernig í raun er hægt að setja vaxtastig í einu þjóðfélagi á annan veg en þannig að atvinnulífið verður að geta staðið undir vöxtunum? Ef atvinnulífið getur ekki staðið undir vaxtastiginu sem er við lýði í þjóðfélaginu fer allt atvinnulíf úr skorðum. Það er einfalt mál. Atvinnulífið getur staðið undir ákveðnum vöxtum. Ef vextirnir eru langt umfram það mark sem atvinnulífið þolir er ekkert hægt að vera með neitt atvinnulíf í landinu. Svo einfalt er málið. Því fyrr sem menn skilja þetta, því betra.
    Þá er a.m.k. í mínum huga orðið algerlega ljóst, og ég vona að fleiri séu mér sammála þar um, að verðtrygging krónunnar með lánskjaravísitölu er smám saman að leggja útflutningsatvinnuvegina í rúst.
    Mig langar til að vekja athygli á einstökum atriðum þeirra breytinga sem frumvörpin gera ráð fyrir. Ef ég tek þá fyrst frv. til l. um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, þá hefur 1. gr. í för með sér breytingu á lausafjárskyldu banka og peningastofnana og sömuleiðis er nú komið með brtt. frá 1. minni hl. fjh.- og viðskn. ákvæði um bindiskyldu verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða. Slík ákvæði voru upphaflega sett inn í frv. til l. um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði, en það varð samkomulag í hv. fjh.- og viðskn. Ed. um að taka þá grein í burtu úr því frv. og setja heldur hliðstæð ákvæði inn í seðlabankalögin.
    Meginbreytingin varðandi lausafjárskylduna er sú að mismunur á heildareign og heildarskuldum bankakerfisins, sem eru bundnar erlendum gjaldmiðlum, skuli teljast til lauss fjár í stað þess að áður var heimilt að nota t.d. innistæður á innlendum gjaldeyrisreikningum sem laust fé án nokkurra skilyrða. Við nánari athugun á þessu sýnist þessi ákvörðun vera skynsamleg þegar til lengri tíma er litið. Hins vegar mun það upphaflega hafa verið ætlunin að með þessari breytingu mundi lausafjárstaða, einkum þeirra banka sem sinna útflutningsatvinnuvegunum, batna. Sú hefur því miður ekki orðið raunin á því að samkvæmt upplýsingum velflestra banka í landinu kemur í ljós að lausafjárstaða þeirra versnar verulega við þessa breytingu. Ég tel engu að síður að þessi breyting eigi rétt á sér og mun því ekki leggjast gegn henni.
    Varðandi bindiskyldu verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða var nokkur vandi á höndum því að það var ljóst að fengnum þeim upplýsingum sem fulltrúar Seðlabanka Íslands veittu okkur í hv. fjh.- og viðskn. að ekki er hægt að beita verðbréfasjóði og verðbréfafyrirtæki sams konar bindiskyldu og aðrar innlánsstofnanir. Mér sýnist að hér sé komin ágæt málamiðlun sem lýtur að því að setja kaupskyldu á verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði þannig að þeim

verði gert að kaupa ríkisskuldabréf eða hliðstæð örugg skuldabréf samkvæmt nánari reglum Seðlabankans að bindiskylduhlutfalli. Ég leyfi mér hins vegar að vekja athygli á að það hlýtur fyrir löngu að vera orðið tímabært að endurskoða öll ákvæði um bindiskyldu í lögum um Seðlabanka Íslands. Ég efast mjög um að bindiskyldan eins og hún hefur verið notuð undanfarin ár þjóni tilgangi sínum. Hún er óeðlilega há eða mun vera nú um 13%. Henni er ætlað að hafa þau áhrif að draga úr þenslu í efnahagslífinu, en ég velti þeirri spurningu fyrir mér hvort hún virkar ekki þveröfugt. Er hún ekki einfaldlega verðbólguhvetjandi? Erlendis er bindiskylda innlánsstofnana mun minni, t.d. oft um 3% eða jafnvel sums staðar engin.
    Þá langar mig til að benda á þá breytingu sem lögð er til á 9. gr. seðlabankalaganna samkvæmt frv., en þar er skotið inn orðunum ,,hóflegir og``. Reyndar gat ég um það í upphafi máls míns að ég tel ekki líklegt að þessi smávægilega orðalagsbreyting muni skila nokkrum árangri.
    Að lokum varðandi seðlabankafrv. eru gerðar breytingar á 41. gr. seðlabankalaganna um viðurlög. Þar er lagt til að *y3/4*y hlutar viðurlaga, t.d. vegna þess að bankar hafa ekki sinnt lausafjárskyldum sínum gagnvart Seðlabankanum eða bindiskylduákvæðinu sé ekki fullnægt, skuli renna í ríkissjóð. Um þetta var mjög deilt í nefndinni. Fulltrúar Seðlabankans töldu að ef ætti að skapa frið um þetta mikilvæga hagstjórnartæki sem þeir telja að viðurlög sem þessi séu og það var ekki talið unnt að finna neina aðra leið til að hafa eftirlit með bönkunum og öðrum peningastofnunum um að þær sinni
þessari lagaskyldu, þá væri þetta ásættanlegt. Ég leyfi mér þó að vara mjög við að viðurlög af þessu tagi verði gerð að tekjustofni fyrir ríkissjóð.
    Með leyfi virðulegs forseta langar mig til að fjalla einnig um frv. til l. um sparisjóði og viðskiptabanka því að það er ákaflega lítið sem ég hef í raun og veru um þau frumvörp að segja. Það mundi spara tíma ef ég lyki máli mínu hvað varðar þau atriði þegar við umræðuna um frv. til l. um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands.
    Í frv. til l. um sparisjóði og viðskiptabanka, sem eru 242. og 244. mál þingsins, er aðalatriðið að stjórnir sparisjóða og bankaráð viðskiptabanka eiga að hafa meiri áhrif á ákvörðun um vexti og þjónustugjöld viðkomandi peningastofnana. Þessi breyting er mjög umdeild og sýnist sitt hverjum um ágæti hennar.
    Varðandi sparisjóðina hafa fulltrúar stjórnar Landssambands sparisjóða komið þeim ábendingum á framfæri að stjórn Landssambands sparisjóða hefur yfirleitt hingað til haft hönd í bagga um slíkar ákvarðanir. Töldu þeir í raun óþarfa að vera að breyta lögum um sparisjóðina í þá veru sem lagt er til með frv. því að það muni ekki breyta neinu. Stjórn Landssambands sparisjóða muni eftir sem áður vera sá aðili sem verði mótandi hvað varðar vexti og þjónustugjöld sparisjóðanna. Þeir töldu að þær breytingar sem eru lagðar til á lögum nr. 87/1985 um sparisjóði séu óþarfar eða í besta falli meinlausar.

    Hvað varðar breytingu á lögum um viðskiptabankana sem snertir valdsvið bankaráða, þá eru meiri deilur uppi um ágæti þeirrar hugmyndar. Flestir bankamenn telja hana til óþurftar og telja að það sé erfitt að koma því við að bankaráð komi nægilega oft saman til að taka slíkar ákvarðanir sem varða vexti og þjónustugjöld banka. Hins vegar hefur sú skoðun heyrst að það sé í raun ekkert því til fyrirstöðu að þegar bankastjórnin hafi gert tillögur um þjónustugjöld og vexti og væntanlega látið vélrita þær á kannski 2--3 síðum megi líma þær inn í fundagerðabók bankaráðanna og þannig formlega samþykkja þær af hálfu bankaráðanna. Annars tel ég ekkert óeðlilegt að bankaráðsmenn hafi þær skyldur og þá ábyrgð að hlutast til um stefnu banka í gjaldtöku vegna ýmissar þjónustu sem veitt er viðskiptavinum hans, en ég sé mætavel erfiðleika sem eru því samfara að fela bankaráðsmönnunum þetta verkefni sem hingað til hefur verið í höndum bankastjórnarinnar.
    Ég verð þó að taka fram að í ljósi þess sem kemur fram í álitinu um óhóflegan vaxtamun í bankakerfinu er sjálfsagt að leita allra leiða til að minnka vaxtamuninn. Því miður verð ég þó að telja að þær leiðir sem hér eru farnar séu lítt líklegar til að ná niður vaxtamuninum og skapa hér eðlilega bankaþjónustu og eðlilegt umhverfi peningastofnana eins og við þekkjum það í nágrannalöndunum.