Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Frsm. 3. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Sú kratarós er rauðust í barmi hæstv. viðskrh. að hann sé sérstakur talsmaður þess að aukið frjálsræði sé í viðskiptum hér á landi, að hann vilji beita sér fyrir því að íslenskur fjármagnsmarkaður verði nútímalegri og hann telji eðlilegt að við beitum öllum ráðum til að reyna að laða erlent fjármagn til landsins. Hæstv. viðskrh. hefur m.a. verið sérstakur talsmaður þess að reynt sé að fá erlenda banka til að kaupa hlutabréf ríkissjóðs í Útvegsbanka Íslands. Hæstv. viðskrh. hefur oftar en ekki í þessum stóli áminnt ýmsa þingmenn deildarinnar um að þeir hafi mjög afturhaldssöm sjónarmið í bankamálum og talið sig andstæðu þessara manna. Það gefur sérstakt tilefni til að spyrja hæstv. viðskrh. þeirrar spurningar hvort þau frumvörp sem hann hefur nú verið að leggja fram í deildinni, frv. um Seðlabanka og frv. um viðskiptabankana, frv. um sparisjóði, séu spor í þá átt að hans mati að gera íslenskt bankakerfi aðgengilegra og svipaðra því sem er í helstu nágranna- og viðskiptalöndum okkar, hvort hann telji að með þessu sé stigið skref sem auki frjálsræði á hinum íslenska fjármagnsmarkaði, hvort hann telji að þessi frumvörp muni auðvelda viðskipti manna á meðal, hvort hann telji að þessi frumvörp stefni að því að gera bönkum auðveldara en ekki að gegna þeirri þjónustu sem ætlast er til að bankar gegni, hvort hann telji að með þessum lögum sé verið að draga úr vaxtamun í bankakerfinu. Ég hygg mjög fróðlegt að fá svar við þessu.
    Ég hef stundum hrifist af mælsku hæstv. viðskrh. þegar hann lýsir þeirri framtíðarmynd sem hann er að draga upp um hvernig hann vill hafa íslenska fjármagnsmarkaðinn. Ég þori ekki að fara með það, herra forseti, hvort hann hafi tilnefnt einhverja sérstaka erlenda banka sem hann óski framar öðrum að fá hingað til landsins, en hitt er ljóst að hann telur sig sérstakan baráttumann þeirrar stefnu. Auðvitað gerir hæstv. viðskrh. sér ljóst að hann getur ekki laðað hingað erlenda bankastarfsemi nema starfsumhverfi bankanna sé með þeim hætti að verki aðlaðandi fyrir hina erlendu bankamenn. Það er nauðsynlegt að þessi skoðun viðskrh. komi fram í þinginu til þess að maður geti áttað sig á því hvert sé markmið hans með þessum frumvörpum. Það auðveldar kannski að reyna að gera sér grein fyrir stjórnarstefnunni ef maður fengi ofboðlitlar upplýsingar um þetta efni.
    Í Vísbendingu birtist fyrir skömmu athyglisverð grein eftir dr. Guðmund Magnússon prófessor, sem sæti á í bankaráði Seðlabanka Íslands, um það frv. sem hér er til umræðu. Rétt er að taka fram að skoðanir og sjónarmið hans eru auðvitað á hans eigin ábyrgð, persónuleg sjónarmið hans en ekki Seðlabankans eða bankaráðs. Í þessari grein segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Árið 1988 er liðið. Birtist hin bersýnilega hönd ríkisvaldsins og krefst skattlagningar á eigin fé.
    Ég á við ákvæði í frv. til laga um breytingu á

lögum um Seðlabanka Íslands þess efnis að *y3/4*y hlutar af innheimtum viðurlögum sem innheimt eru vegna þess að bankar og sparisjóðir hafa ekki fullnægt reglum um lausafjárskyldu skuli renna í ríkissjóð.
    Í grg. með frv. er upplýst að viðurlög sem innheimt voru á árinu 1988 hafi numið samtals 335,8 millj. kr. Af þessari fjárhæð munu því samkvæmt frv. 251,8 millj. kr. renna í ríkissjóð.
    Þar sem þessar tekjur eru nánast orðnar hluti af eigin fé bankans og hann er hluti af ríkisvaldinu er það í rauninni að skattleggja sjálft sig.
    Allir eru sammála um að gera verði tilteknar kröfur til banka og sparisjóða um eigið fé og rekstraröryggi, enda er kveðið á um það í lögum og reglugerð.
    Það er hlutverk bankaeftirlitsins að fylgjast með því að eftir settum reglum sé farið. Seðlabankanum er falin yfirstjórn peningamála í veigamiklum atriðum. Hann ákveður vexti af viðskiptum sínum við almennar lánastofnanir, setur reglur um lausafjárhlutfall og ákveður með samþykki ráðherra hve mikið af innlánum þeirra skuli binda í Seðlabankanum. Um þessa þætti í stjórn peningamála er eðlilega meira deilt.
    Sumir stjórnmálamenn virðast sjá sér hag í því að ala á þeim misskilningi að Seðlabanki og ríkissjóður séu sitt hvað. Í reynd eru skilin milli þeirra óglögg í mörgum löndum. Það er jafnvel til í dæminu að rekstrarafgangur seðlabanka renni beint í ríkissjóð og ríkissjóður greiði síðan tap ef verður.
    Mér sýnast einnig mörkin ríkissjóðs hafa verið teygjanleg hér á landi. Þegar Útvegsbanki Íslands átti í erfiðleikum átti hann innhlaup í Seðlabankann en nýtt hlutafé til hins nýja hlutafélagsbanka kom úr ríkissjóði.
    Það er sérstaklega broslegt þegar fram koma hugmyndir um að leysa efnahagsvanda ríkissjóðs með skattlagningu á tekjur af yfirdrætti ríkissjóðs í Seðlabankanum eða á aðrar sértekjur hans eins og innheimt viðurlög. Í fyrra tilvikinu væri ríkissjóður að útvega sér afslátt á vöxtum til að fela raunverulegan kostnað við hallarekstur. Í báðum tilvikum er verið að útþynna stjórn peningamála eins og nánar mun vikið að.
    Rétt er að taka fram að Seðlabanki Íslands greiðir skatt samkvæmt gildandi lögum. Sá skattur mun lækka nokkuð við hið nýja sérgjald.
    Dr. Þorvaldur Gylfason prófessor fjallaði nýlega um sjálfstæði Seðlabanka hér í Vísbendingu. Eins og þar kemur fram er Seðlabankanum skylt lögum samkvæmt að sjá til þess að stefna ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga ef ágreiningur verður. Æskilegt er að stefnan í fjármálum og peningamálum sé sem mest samstiga. Skynsamleg stjórn peningamála krefst þess þó iðulega að bæði peningastofnunum og ríkissjóði sé veitt aðhald. Það getur verið tilgangslaust að herða að lánastofnunum ef ríkissjóður leikur lausum hala í Seðlabankanum. Við þessu er reynt að sporna í lögum með því að kveða svo á um að ríkissjóður skuli gera upp skuld sína í lok hvers árs innan þriggja mánaða með fé sem fengið er utan bankans. Sveiflurnar eru

hins vegar svo snöggar í okkar þjóðfélagi og breytilegar innan ársins að þetta er ekki nægilegt aðhald.
    Hins vegar getur það stundum verið skynsamleg stjórnarstefna að slaka á í peningamálum en herða að í ríkisfjármálum og öfugt, allt eftir því hvaða þjóðfélagslegum markmiðum á að ná. Aðalatriðið er að stefnan sé sjálfri sér samkvæm í framkvæmd, en á því vill oft verða misbrestur.
    Það að gera viðurlög Seðlabankans að féþúfu er að útþynna stjórn peningamála því að hver efast um að ríkissjóður eyði því fé sem hann fær með þessu móti? Og hvað gerist þá? Peningarnir streyma út í þjóðfélagið og lausafjárkvöðin verður ekki jafnvirk og að var stefnt.
    Ég tel að auka þurfi sjálfstæði Seðlabankans í framkvæmd peningamálastefnu hér á landi. Hugmyndir ýmissa ráðamanna virðast ganga í andstæða átt.``
    Enn fremur segir í þessari grein, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hér á landi gefa ákvarðanir um bindiskyldu og lausafjárskyldu innlánsstofnana frekar vísbendingu um peningamálastefnuna en ákvörðun forvaxta. Það er sennilega bæði af sögulegum ástæðum þar sem bindiskyldan hefur skipt mestu máli vegna þess að oft er erfitt að átta sig á hvað eru vextir eða verðbætur og tölur um forvexti eru ekki birtar á áberandi hátt. Þess vegna er mikilvægt að þessum stjórntækjum sé beitt með markvissum og áberandi hætti. Það getur verið mikil jafnvægislist að velja á milli breytinga á bindiskyldu og lausafjárkvöð.``
    Ég sá, herra forseti, ástæðu til að rifja upp nokkur atriði í þessari grein þar sem ég veit að hæstv. viðskrh. hefur veitt henni mikla athygli þegar hún birtist í Vísbendingu og væri fróðlegt að fá að heyra hver séu sjónarmið hans varðandi þau atriði sem dr. Guðmundur Magnússon prófessor vekur svo eftirminnilega athygli á. Ljóst er af því frv. sem hér er til umræðu að viðskrh. er á gagnstæðri skoðun við prófessorinn. Það er deginum ljósara, það er morgunljóst, og kannski ekkert við því að segja. Við erum með vinstri stjórn í landinu núna sem eins og aðrar stjórnir af þeim toga hefur tilhneigingu til þess að fara fremur aftur á bak en fram á við varðandi nútímaleg viðhorf í viðskiptaháttum og peningamálum varðandi bankastarfsemi almennt. Má segja að ríkisstjórnin hafi þess vegna ekki svikið neinn lit.
    Ég mun, herra forseti, fara stuttlega yfir nál. 3. minni hl. fjh.- og viðskn. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Frv. þetta ber sama yfirbragð og önnur þau frv. sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um banka- og peningamál á þessu þingi. Það horfir til fortíðarinnar og miðar að því að færa skipan bankamála langt aftur í tímann. Köld hönd miðstýringarinnar á að koma í staðinn fyrir það frjálsræði sem hér hefur verið að þróast á peningamarkaðnum og verið að leita sér að eðlilegum farvegi. 1. mgr. 1. gr. frv. felur í sér breytta skilgreiningu á lausu fé innlánsstofnana þannig að aftur verði horfið til þeirra reglna sem giltu fram

til síðustu áramóta. Fyrir því má færa viss peningapólitísk rök, en á hinn bóginn hefur ekki verið sýnt fram á knýjandi nauðsyn breytingarinnar. Þyngra vegur að ríkisstjórnin þóttist bæta stöðu þeirra banka sem þjóna útflutningsstarfsemi með frvgr. og sagðist hafa það að markmiði með breytingunni. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fjh.- og viðskn. hefur í höndum m.a. frá Landsbanka Íslands, liggur fyrir að breytingin yrði ekki til hagsbóta fyrir þá banka sem þjóna útflutningsgreinunum; ,,sé það haft að leiðarljósi verður að gera frekari breytingar``, segir í umsögn Landsbanka Íslands um frvgr.``
    Iðnaðarbanki Íslands gerir þetta sérstaka markmið ríkisstjórnarinnar einnig að umtalsefni og segir m.a. um það atriði að flestir muni þeirrar skoðunar að Seðlabankinn eigi ekki að stunda lánsfjármiðlun. Það sé hlutverk lánastofnana. Iðnaðarbankinn minnir á að horfið hafi verið frá slíku að mestu fyrir nokkrum árum þegar endurkaupum Seðlabankans á afurðalánum var hætt og virtist víðtæk samstaða vera um að hætta því. Síðan segir í áliti Iðnaðarbanka Íslands, með leyfi hæstvirts á að vera óhætt að segja hvor sem í stólnum er forsetanna: ,,Því kemur mjög á óvart að í samþykkt ríkisstjórnarinnar, dags. 6. febrúar sl., um peninga- og vaxtamál skuli vera boðaðar breyttar reglur um bindi- og lausafjárskyldu sem ,,koma bönkum sem þjóna útflutningsgreinum til góða``, en í sömu setningu fullyrt að hinar breyttu reglur muni ,,jafna starfsskilyrði innlánsstofnana``. ,,Þetta er augljóslega ósamrýmanlegt. Mismunun getur ekki falið í sér jöfnuð``, segir í áliti Iðnaðarbanka Íslands. --- Og enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Frá sjónarhóli lánastofnunar sem þjónar iðnaði,
bæði útflutningsiðnaði og samkeppnisiðnaði, verður ekki séð að efni standi til að gera upp á milli aðila í atvinnurekstri eftir því hvort um er að ræða gjaldeyrisjafnandi eða gjaldeyrissparandi starfsemi. Slíkt átti að vera liðin tíð. Hugmyndir þær sem uppi eru um að velja úr vissa þætti ráðstöfunarfjár banka og sparisjóða til viðbótar við innlánsfé til þess að stækka grunn bindingarinnar eru hvorki réttlætanlegar út frá hagstjórnarsjónarmiðum né sanngirnissjónarmiðum``, segir í áliti frá Iðnaðarbanka Íslands.
    Ég spyr frsm. fjh.- og viðskn. hvort meiri hl. nefndarinnar hafi fallist á það sjónarmið ríkisstjórnarinnar að rétt sé að haga bindingu í Seðlabankanum með þeim hætti að sé til góða þeim bönkum sem þjóna útflutningsgreinum og ef meiri hl. nefndarinnar er þeirrar skoðunar að það sé heilbrigt og eðlilegt markmið er um leið nauðsynlegt að fá upplýst hvort meiri hl. nefndarinnar telur að fullyrðingar t.a.m. Landsbanka Íslands um þau efni séu út í hött og ekki sannleikanum samkvæmt.
    Það er alls ekki nýtt að spurt sé um tilgang laganna. Auðvitað hlýtur Alþingi að velta því fyrir sér hver sé tilgangurinn með þessari lagasetningu. Má raunar líka spyrja hæstv. viðskrh. þeirrar sömu spurningar: Er hann þeirrar skoðunar að Landsbanki Íslands reikni skakkt og að breytingin á

bindiskyldunni eins og gert er ráð fyrir henni í frv. sé þrátt fyrir allt þeim bönkum til góða sem þjóna útflutningsgreinum eða er ríkisstjórnin fallin frá þessu markmiði? Var markmiðið kannski aldrei sett fram í raun og veru heldur sýndu bara einhverjir bráðabirgðaútreikningar í Seðlabankanum að svo virtist sem þessi breyting gæti orðið þeim bönkum til góða sem þjóna útflutningsgreinunum og þess vegna hafi setning þar að lútandi verið sett inn í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar bara upp á punt af því að þótti fara vel á því?
    Það var sagt um gamlan karl í Kelduhverfinu einu sinni þegar hann var að ganga til fjár, hann var Benjamínsson ef ég man rétt, og steig öðrum fætinum ofan í skurð og bleytti sig, en gat auðveldlega klofað yfir. Hann var spurður hvernig hefði staðið á því að hann hefði stigið öðrum fætinum ofan í lækinn. Það stóð svo á spori, sagði karlinn. Það getur vel verið að það hafi staðið þannig á spori að ríkisstjórnin hafi talið rétt að setja þetta markmið fram úr því að það virtist svo sem hún gæti staðið við markmiðið eftir þeim bráðabirgðareikningum sem Seðlabankinn hafði gert.
    Það er búið að setja á fót sérstakan Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina og það er líka búið að setja á fót sérstakan hlutabréfasjóð til að hjálpa útflutningsgreinum. Að vísu bendir margt til þess að útflutningsgreinarnar tapi jafnt og þétt. Það stendur nú upp á ríkisstjórnina að svara verkalýðshreyfingunni því hvernig ríkisstjórnin ætli að bregðast við í vor þegar peningarnir í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins verða búnir. Kennarar eru búnir að samþykkja að fara í verkfall. Þeir eru búnir að samþykkja það líka, lögfræðingar og ýmsir aðrir sérfræðingar í þjónustu ríkisins. Þeir treysta ríkisstjórninni ekki til að standa á verðinum, búast við því að geta sótt hnefa í sjóðinn. En það er hik á verkalýðshreyfingunni sjálfri á hinum almenna vinnumarkaði. Þar er meira hik. Fólkið úti á landi er ekki alveg öruggt um hvað ríkisstjórnin ætli sér. Bráðabirgðasamningar sem virtust vera í höfn nú fyrir dymbilviku stranda á því að ríkisstjórnin er ekki reiðubúin að lofa verkalýðshreyfingunni neinu öðru en því að það sé sjálfsagt að setja meira og strangara verðlagsaðhald á atvinnureksturinn í landinu. Nú er ríkisstjórnin búin að hækka allt hjá sér. Sumt hækkaði hún á jólaföstu, annað hækkaði hún um áramótin, sumt í febrúar, sumt í mars, annað í apríl. Þeir í ríkisstjórninni hafa verið að fella gengið svona einu sinni í mánuði. Ég hygg að það hafi enginn viðskrh. í sögu þjóðarinnar fellt gengið jafnoft og þessi hæstv. viðskrh. síðan hann varð viðskrh. í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Fjórum sinnum er hann búinn að fella gengið. Svo spyr verkalýðshreyfingin hann að því hvernig eigi að bregðast við í maímánuði þegar peningarnir í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins verði búnir. Menn spyrja að því hvort eigi að greiða meira niður af uppsöfnuðum söluskatti. Það væri fróðlegt að fá að vita hvað hæstv. viðskrh. segir um það. Gerir hann ráð fyrir að þessi frumvörp gagni sem

eru eiginlega mjög gamaldags og ef þau gera eitthvað gera þau bölvun? Finnst honum meiri þörf á því að vera að dunda við lagasmíð af þessu tagi en hinu að snúa sér að því að koma atvinnulífinu á réttan kjöl?
    Hvað skyldu þeir segja, svo að ég taki annað dæmi, t.d. verkalýðsleiðtogar sem styðja þessa ríkisstjórn? Ég held að forsrh. hafi verið að hrósa sér af því að laun í landinu hafi hækkað um 0,66% í febrúarmánuði, 1,25% mun það vera ef heill mánuður er tekinn. Meira hafa launin ekki hækkað síðan 1. júní. En á sama tíma hefur verðbólgan haldið alveg linnulaust áfram og ég hygg að það sé gert ráð fyrir að lánskjaravísitalan hækki um 2% næst, 2,4 eða 2,6% fyrir síðasta mánuð. Við erum að tala um það að verðbólgan hér á landi sé um eða yfir 30% á sama tíma og laun hafa ekki hækkað í landinu síðan 1. júní og þessi hæstv. viðskrh. taldi í septembermánuði að þetta væri svo sem allt í lagi. Það þyrfti ekkert að hreyfa gengi krónunnar. Atvinnuvegirnir væru vel haldnir og það þyrfti engar sérstakar ráðstafanir að gera, allt væri í besta lagi, allt í
besta lagi. En núna í dymbilvikunni þegar sjómennirnir, verkamennirnir, verkakonurnar spyrja: Hvernig á að standa að atvinnufyrirtækjunum sem við vinnum hjá þegar kemur fram á vorið? er ekkert svar heldur dundað við marklaus frumvörp sem horfa til fortíðarinnar, gersamlega marklaus, litlaus frumvörp. Það er reisn yfir Alþingi núna. Það er reisn yfir íslenskri þjóð og íslenskri ríkisstjórn.
    Mér er sagt að þeir hafi loksins komið í verk um síðustu helgi að skipa stjórn í hlutabréfasjóðnum. Þá er sumt af fólkinu, t.d. á Ólafsfirði, sem bíður eftir þessum sjóði, búið að vera atvinnulaust í 6*y1/2*y mánuð, m.ö.o. hefur ekki fengið atvinnuleysisbætur í hálfan mánuð og fær ekki atvinnuleysisbætur fyrr en frystihúsin taka aftur til starfa. Þegar fulltrúar Ólafsfirðinga komu til fundar við hv. alþm. sögðu þeir þingmenn sem fylgdu ríkisstjórninni að það þýddi ekkert um þetta að tala fyrr en væri búið að mynda hlutabréfasjóðinn og skipa stjórn. Það liggur ekkert fyrir í dag um hvenær þessi stjórn fær að taka ákvarðanir, hvenær dugi að leggja einstök málefni fyrir stjórn sjóðsins. Þetta fólk má þess vegna halda áfram að vera atvinnulaust. Það er allt í besta lagi. Það liggur bókstaflega ekki nokkurn skapaðan hlut á, ekkert á, að menn geti vænst þess úti á landi að þeir fái eitthvað að vita um hvernig ríkisstjórnin ætlar að standa að útflutningsatvinnuvegunum. En á sama tíma og grafarþögnin ríkir um það er komið með eitthvert puntfrumvarp hingað inn og sagt: Við erum að breyta bindiskyldunni fyrir þá banka sem eru með útflutningsgreinarnar á sínum snærum. Mun þetta greiða fyrir því hjá þessum bönkun að þeir geti sinnt útflutningsgreinunum? Í hverju kemur það fram að þessir bankar hafi rýmri hendur til að lána afurðalánin, til að koma til móts við sjávarútveginn? Auðvitað eru þetta orðaleppar. Það er ekki einu sinni að orðalepparnir séu svo fallegir að þeir verðskuldi orðið orðakonfekt. Það er ekki einu sinni að hlustarmunnarnir geti smjattað á orðakonfektinu heldur

minnir það á vínberin sem búið er að setja blásýruna í.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að 1. mgr. 1. gr. frv. hefur ekki verið rökstudd, nauðsyn þeirrar breytingar, né sýnt fram á ágæti hennar. Ég geri ráð fyrir að það sé eins um þessa reglu og marga aðra sem sett er um innlánsbindingu að það velti á framkvæmdinni hvernig reynist. Þess vegna skal ég ekki endilega segja að þessi regla sé verri en sú sem nú er í lögum. En það hefur ekki verið sýnt fram á að hún skipti máli. Að því leyti sem hæstv. ríkisstjórn hefur talið hana skipta máli hefur verið sannreynt að það er úr lausu lofti gripið. Það er því engin ástæða til að samþykkja 1. mgr. 1. gr.
    2. mgr. 1. gr. frv. sé ég að hefur líka vaknað til lífsins í brtt. alveg orðrétt, en það má segja að breytingartillagnablaðið sé myndarlegra þegar þetta er prentað upp. 2. mgr. skiptir engu máli. Það sem verið er að tala um er sú viðtekna regla sem er í bönkunum. Það er allt í besta lagi að segja já við 2. mgr. 1. gr. frv., en það skiptir bara engu máli hvort þetta er lögfest eða ekki. Það er kjarni málsins eftir þeim upplýsingum sem ég hef um þessi efni.
    Ég vil þá gera 2. gr. frv. að umræðuefni. Það er laukrétt, sem hv. 7. þm. Reykn. sagði áðan, að breytingarnar á 2. mgr. 9. gr. laganna eru auðvitað einskis virði. Ég vakti rækilega athygli á þessu í minni framsöguræðu og ég gerði það einu sinni að gamni mínu að spyrja einn af þeim hagfræðingum sem komu á funnd nefndarinnar hvort honum fyndist að orðið ,,hóflegir`` í því samhengi sem þar er skýrði merkinguna og gerði hana gleggri og greinilegri eins og hæstv. viðskrh. vildi halda fram. Málsgr. er þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Seðlabankinn getur að fengnu samþykki ráðherra bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði hóflegir og eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslendinga svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána að teknu tilliti til annarra tekna innlánsstofnana.``
    ,,Hóflegir``. Ég var að reyna að skerpa málvitundina í gærkvöld til að reyna að skilja betur hvaða þýðingu orðið ,,hóflegir`` hefur með því að lesa Heiðarvígasögu. En ekki hjálpaði það mér mikið. Það væri raunar fróðlegt og skemmtilegt að fá meira um hvernig orðið ,,hóflegur`` sé skýrt ( Gripið fram í: Þú verður að fara í Biblíuna.) markandi. Ég verð að fara í Biblíuna, já. Það má vera að Biblían kenni mönnum það. Ég held að langskemmtilegast væri fyrir ráðherrann að draga þessa brtt. til baka og vera ekkert að þessu. Auðvitað er efnisbreyting á þessari lagagrein. Ef menn eru sáttir við lagagreinina eins og hún er í lögunum getur maður alveg eins sagt já eins og nei við þessari breytingu, hvort heldur sem er. Það skiptir engu máli.
    Hitt er annað mál að 3. og 4. gr. eru annars eðlis. Í nál. segir svo um það efni:
    ,,Í 3. og 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því að 75% þeirra viðurlaga, sem Seðlabankanum er heimilt að

beita gagnvart innlánsstofnunum, renni í ríkissjóð. Í umsögn Landsbanka Íslands er spurt hvort líta beri á viðurlögin
sem skatt og vakin athygli á að slík skattheimta sé byggð á ótraustum grunni og æskilegt væri að leitað yrði álits sérfróðra manna þar um. Auðvitað er Seðlabankinn hluti af ríkisvaldinu og ríkið með þessu í rauninni að skattleggja sjálft sig, sem myndrænt liti út eins og það væri að éta skottið á sjálfu sér og hygðist nærast af því.``
    Ég er andvígur þessu ákvæði. Eins og við vitum er í lögunum um Seðlabanka gert ráð fyrir að helmingur af hagnaði hans renni í ríkissjóð og þetta þýðir þá að af þessum viðurlögum fara ekki *y3/4*y heldur *y7/8*y. 12*y1/2*y% verður eftir hjá ríkissjóði. *y7/8*y munu þá fara í ríkissjóðinn af viðurlögunum.
    Menn hafa verið að tala um að það sé háleitt og gott markmið að reyna að draga úr vaxtamun í ríkisbönkunum og þá er vakin athygli á því að bindiféð í Seðlabankanum hefur verið með lágum vöxtum. Auðvitað mætti hugsa sér það, ef menn vilja á annað borð draga úr vaxtamuninum, að þessu refsifé yrði skilað til baka til bankakerfisins í heild og með því að reyna að borga hærri vexti af bindifénu en 2% ofan á verðtryggingu eins og nú er. Það gefur tilefni til að spyrja hæstv. viðskrh. hvort það sé rétt, sem nefndinni var sagt, að bindiféð sé með 2% vöxtum á þessu ári. Sú yfirlýsing var gefin í Seðlabankanum af nefndinni. Væri nauðsynlegt að fá það fram. ( Viðskrh.: Svarið er já.) Svarið er já. Það er gott að vita það, en spurning er líka hvort ekki komi til greina að greiða hærri vexti. Hann var að tala um það áðan, hv. 7. þm. Reykn., að vaxtamunur væri hér á landi 8%. Kannski má finna margar formúlur fyrir vaxtamun í bönkum. Aðrir vilja halda því fram að vaxtamunurinn liggi innan við 5% nú og hafi jafnvel farið innan við 4%. Það er líka laukrétt, sem sá hv. þm. sagði, að bankarnir voru reknir með góðum hagnaði sl. ár þó svo sá hagnaður dugi í flestum tilvikum ekki til þess að bankarnir haldi óbreyttri eiginfjárstöðu samkvæmt skilningi laganna. En á þessu ári hefur það snúist við. Bankarnir hafa verið reknir með miklum halla á þessu ári, m.a. vegna skiptikjarareikninganna, vegna þess að það hafa verið gerðar tilraunir til þess að halda nafnvöxtum niðri núna meðan verðbólgan hefur leikið lausum hala. Verðbólgan hér á landi hefur verið í kringum 30% og ekkert lát á.
    Það eru ekki aðeins við í þingsölum sem brosa að þessari peningavatnsleysu ríkisstjórnarinnar sem lýsir sér í 3. og 4. gr., þessari sjálfrennandi lind. Eins og menn heyrðu áðan gerði dr. Guðmundur Magnússon prófessor líka góðlátlegt grín að þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ég vek athygli á því að með því að færa peningana með þessum hætti úr Seðlabanka inn í ríkissjóð er verið að vinna á móti bindiskyldunni vegna þess að ríkissjóður geymir ekki féð. Ríkissjóður eyðir fénu þannig að með þessum hætti er Seðlabankinn að vinna á móti markmiðum sjálfs sín.
    Af hverju eru viðurlögin sett? Viðurlögin eru sett

vegna þess að bankarnir brjóta reglur Seðlabankans því að Seðlabankinn er að reyna að hafa stjórn á peningamálunum í landinu. Seðlabankinn er m.ö.o. að reyna að hafa hemil á því peningamagni sem er í umferð. Síðan kemur ríkisstjórnin, tekur peningana sem í viðurlögunum felast og eyðir þeim. Þannig vinnur þetta ákvæði á móti þeim tilgangi sem öðrum þræði liggur á bak við ákvörðunina um bindingu innlánsfjár bankastofnana.
    En eins og ég sagði var ég á móti þessu ákvæði og ég er sammála Landsbanka Íslands um að grunnurinn fyrir þessari skattheimtu er ótraustur. Bankaráð Landsbankans gengur meira að segja svo langt að það beinir því til nefndarinnar að leita álits um það atriði, en svo hljóðar athugasemd Landsbanka Íslands um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ákvæði 3. og 4. gr. frv. gera ráð fyrir að innheimt viðurlög sem Seðlabanka er heimilt að beita gagnvart innlánsstofnunum renni að *y3/4*y hlutum í ríkissjóð. Þetta fyrirkomulag vekur þá spurningu hvort líta beri á viðurlögin sem skatt. Verði það niðurstaðan er hins vegar ljóst að skattlagningin byggir á ótraustum grunni. Landsbankinn telur æskilegt að hv. þingnefnd leiti álits sérfróðra aðila um þetta atriði.``
    Ég verð fyrst að segja að ég var fjarverandi á nokkrum fundum í fjh.- og viðskn. og er því ekki kunnugt um hvort nefndin varð við þessari ábendingu, en taldi á hinn bóginn ástæðulaust að nota það sem ástæðu til þess að málið gæti ekki komið hér fyrir. Auðvitað er hægurinn á í Nd. að fá álit sérfróðra manna um þetta atriði. Ég tel ótvírætt að skattlagningin byggi á svo ótraustum grunni að hann standist ekki þá lagavenju sem er um skattlagningu af þessu tagi og sé mjög hæpið fordæmi svo að ekki sé meira sagt. En ég vil spyrja frsm. meiri hl. nefndarinnar hvort meiri hl. hafi gengið úr skugga um það með því að ræða við sérfróða menn hvort ákvæðið standist í skattalegu tilliti. ( Viðskrh.: Landhelgisbrotin eru líka ótraustur skattstofn.) Landhelgisbrotið er ótraustur skattstofn, segir hæstv. ráðherra, en það er ekki skattstofn, það eru sektir. Mig minnir að þær sektir renni ekki í ríkissjóð. ( Viðskrh.: Þær renna í ríkissjóð.) Er það víst? Það er rétt að fletta því upp. Mig minnir að það renni í sérstakan sjóð. (Gripið fram í.) Ég skal kynna mér þetta fyrir 3. umr. og við skulum ræða það. (Gripið fram í.) Ég er ekki alveg viss um það. ( Viðskrh.: Þótt það rynni í Landhelgissjóð mun það engu breyta.) Kannski það
renni í Landhelgissjóð. Mig minnir það. Það væri kannski rétt að athuga það. Hann er varðveittur þar, en um hann eru sérstök lög.
Þessar sektir renna sem sagt í Seðlabankann. Síðan er það ríkissjóður sem tekur þegar í stað til sín *y3/4*y og spurningin er hvort þetta sé eðlileg skattheimta. Mér finnst þetta óeðlileg skattheimta og er ekki einn um þá skoðun. En ég þykist vita að hæstv. ráðherra finnist þetta eðlilegt. Að öðrum kosti mundi hann ekki koma með þessa uppástungu, enda er nú orðið fátt sem ekki er skattlagt hér á landi.

    Viðskrh. var að minnast á guðsorð. Það er ugglaust rétt hjá honum að guðsorð er enn ekki skattlagt: Grimmdarfrost um borg og bý/ blöskrar manna kyni./ Frýs nú allt nema orð guðs í/ Einari Jochumssyni, var einu sinni sagt. Það á kannski hugsa sér að það sé eins um skattheimtuna að einungis orð guðs sé ekki skattheimt lengur í þessari ríkisstjórn.
    Enn segir í nál. 3. minni hl.: ,,Brtt. 1. minni hl. nefndarinnar bera glögg höfundareinkenni ríkisstjórnarinnar. Þar er lagt til að Seðlabankanum sé skylt að láta sömu reglur gilda um verðbréfasjóði og bundna reikninga innlánsstofnana í Seðlabanka Íslands með kaupskyldu á öruggum verðbréfum. Í umsögn Seðlabanka Íslands kemur fram að hann telur ekki einsýnt að bindiskyldu eða samsvarandi kvöðum beri ávallt að beita gagnvart verðbréfasjóðum eins og innlánsstofnunum heldur verði það að vera matsatriði eftir aðstæðum á hverjum tíma. Þá sé ekki vitað til að bindiskyldu sé beitt gagnvart verðbréfasjóðum erlendis enda þótt í nokkrum löndum virðist vera til staðar sá lagalegi möguleiki að grípa til hennar ef það væri talið æskilegt á einhverjum tíma. Bent er á að kaupskylda sé nú þegar til staðar í bráðabirgðalögum frá sl. vori og lagt til að ákvæðið verði í heimildarformi.``
    Ég veit ekki hvort það er mikið meira um þetta að segja. Það er erfitt að átta sig á því hvað nákvæmlega vakir fyrir hæstv. viðskrh. Ég hygg að hann sé mér sammála um að ýmsir verðbréfasjóðir hafi nú þegar þann hátt á sinni ávöxtun að þeir reyni að kaupa örugg verðbréf að einhverjum ákveðnum hluta. Ég hygg að það sé hægt að tala við Kaupþing og Fjárfestingarfélagið og þá komi í ljós að báðir þessir aðilar telji sér tryggara að kaupa örugg verðbréf að verulegum hluta. Ég átta mig ekki alveg á hvaða hugsun liggur á bak við þessa brtt. hjá hæstv. viðskrh. og vildi gjarnan fá um það nánari upplýsingar. Hvað hugsar hann sér t.d. að þessi kaupskylda sé há og mikil og hverju er hann að breyta með þessu? Það væri fróðlegt að fá um það að vita. En það er alveg greinilegt að Seðlabankinn sér ekki tilganginn á bak við þessa lagasetningu og telur eðlilegt að lagagreinin sé í heimildarformi. Það má kannski segja að það hefði ekki tekið langan tíma að bera fram brtt. við þessa grein og má vera að það verði gert þannig að hún sé í því horfi sem Seðlabankinn telur rétt og eðlilegt. En það er eins með þetta og svo margt annað sem nú er verið að tala um. Ríkisstjórnin ber ekki hlutina undir einn né neinn. Mér er t.d. sagt í sambandi við það frv. sem borið var fram til breytingar á lögum um tekjuskattinn í sambandi við húsbréfin að það hafi ekki verið haft samband við ríkisskattstjóra. Ég veit að það var svo í sambandi við það frv. sem lagt var fram í sambandi við viðskiptabankana að það var ekki haft samband við Samband viðskiptabanka. Þetta á allt saman að verða til hjá þessum fáu útvöldu, þessum guðs útvöldu sem allt vita og allt skilja. En svo þegar kemur út í raunveruleikann kemur fljótt í ljós að þeir menn sem vinna við hlutina og bera ábyrgð á þeim gera sér ekki

grein fyrir því hvað fyrir ríkisstjórninni vakir og þess vegna er það jafnoft þegar farið er að tala um hlutina að tillögugerðin og frumvarpsgerðin er ýmist algerlega óþörf eða á misskilningi byggð.
    Við 9. gr. seðlabankalaganna flytur meiri hl. brtt. sem óhjákvæmilegt er að gera nokkuð að umtalsefni og má kannski segja að sé það sem maður á erfiðast með að skilja að hæstv. viðskrh. skuli beita sér fyrir þegar hann er búinn að tala svona mikið um það aukna frjálsræði sem hann vill beita sér fyrir í bankakerfinu og á peningamarkaðnum og þegar hann er að tala um að hann vilji búa íslenskan peningamarkað undir að geta staðist samkeppni við erlendar peningastofnanir og erlendan peningamarkað. Þessi grein hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hafi Seðlabanki Íslands hlutast til um vexti hjá innlánsstofnunum á grundvelli þessarar greinar getur bankinn, meðan sú íhlutun varir, að fengnu samþykki ráðherra, bundið ávöxtunarkröfur og annað endurgjald fyrir fjármagn í viðskiptum eignarleigufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða takmörkunum sem miðast við hliðstæða áhættuflokka. Setur Seðlabankinn um það nánari reglur.`` Svo mörg eru þau orð og nú þykir mikils við þurfa.
    Áður segir í 9. gr., með leyfi hæstv. forseta: ,,Seðlabankinn ákveður vexti af innlánum við bankann og af lánum sem hann veitir. Seðlabankinn getur að fengnu samþykki ráðherra bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslands, svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána.`` Svo mörg voru þau orð.
    Nú á að bæta við að hið sama skuli gilda um venjuleg viðskiptabréf. Þetta vekur margar spurningar. Í fyrsta lagi held ég að allir séu sammála mér um það að hæstv. viðskrh. dytti ekki í hug að bera fram brtt. þessa efnis nema hann væri ráðinn í að beita 2. mgr. 9. gr. laganna, að ráðherrann sé þegar búinn að taka ákvörðun um að binda vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum. Hér stendur: ,, ... til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslands.``
    Nú vil ég spyrja hæstv. viðskrh.: Er það svo að hann sé ráðinn í því að beita þessum ákvæðum? Er hæstv. viðskrh. ráðinn í því að taka það kerfi upp á nýjan leik að Seðlabankinn eigi að ákveða vexti innlánsstofnana? Og er hæstv. viðskrh. ráðinn í því til viðbótar og telur hæstv. viðskrh. sér nauðsynlegt að ganga svo langt að Seðlabankinn skuli hlutast til um vexti í viðskiptum eignarleigufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða? Og ef svarið er já er spurning hvað fyrir hæstv. ráðherra vakir. Er hann að velta því fyrir sér að almenn innlán í bönkum eigi ekki að ná verðbólgunni, ávöxtun almennra innlána í bönkum og sparisjóðum eigi ekki að ná verðbólgunni eins og hann hefur gefið sínum bankaráðsmönnum fyrirmæli um að beita sér fyrir í ríkisbönkunum? Það liggur alveg fyrir að svo áratugum skiptir hefur það ekki komið fyrir eins og

núna að ráðherrar hafi kallað inn á teppið til sín þingkjörna menn í bankaráðum til að segja þeim hvað þeir megi gera og hvað þeir megi ekki gera, að kalla inn á teppið til sín þessa þingkjörnu menn til að segja þeim að þeir eigi ekki að standa vörð um hagsmuni þeirra stofnana sem Alþingi hefur kjörið þá til að gæta hagsmuna fyrir. Og af hverju er það sem þessir aumingja menn hafa ekki getað staðið vörð um hagsmunina? ( Viðskrh.: Þetta hlýtur að hafa snúist við hjá þingmanninum.) Af hverju er það sem þeir hafa ekki getað staðið vörð um hagsmuni bankanna? Vegna þess að ríkisstjórnin hefur hækkað skattana svo að verðbólgan hér keyrir um þverbak á sama tíma og laun standa í stað ( Viðskrh.: Þú hlýtur að hafa mismælt þig.) á sama tíma og búið er að hækka skatta svo að verðbólgan er í kringum 30%. Og svo segir hæstv. forsrh.: Ég er á móti vísitölu. Það er það nýjasta sem hann sagði í blöðunum núna. Ég man ekki í hvaða blaði það var. ( Gripið fram í: Tímanum.) Var það í Tímanum? Ég er á móti vísitölunni. Það er eins og smiðurinn segi: Ég er á móti tommustokknum. Það er eins og saumakonan segi: Ég vil ekki málband. Forsrh. er á móti vísitölunum. Og hvað ætlar forsrh. að vinna með því að vera á móti vísitölum? Getur hæstv. viðskrh. útskýrt það? Meðan hæstv. viðskrh. var í síðustu ríkisstjórn var hann einhvern tíma lengi að tala um að vísitölur væru mælieining, mælitæki. Menn geti áttað sig á vísitölunum. Með því að lesa vísitölurnar, þá getur maður lesið á barómet. ( Viðskrh.: Forsrh. treystir á smiðsauga sitt.) Forsrh. treystir á smiðsaugað. Er komið svo? Þykir ríkisstjórninni svo komið nú að hægt sé að leggja lánskjaravísitöluna niður? Er hæstv. viðskrh. sammála forsrh. um að það eigi að leggja lánskjaravísitöluna niður? ( Viðskrh.: Ég á tommustokk.) Vill hæstv. viðskrh. ekki svara því? (Gripið fram í.) Ég átta mig ekki alveg á hvers vegna forseti vakti athygli á sér. Kannski er það vegna þess að hæstv. forseti skilur ekki hvernig hægt sé að koma tommustokk við í sambandi við lánskjaravísitöluna. Annars fer það bráðum að verða svo eins og verðbólgan er að hækka og lánskjaravísitalan að maður þurfi að fara að beita tommustokki til að mæla vöxtinn á línuritunum. Já, viðskrh. vill ekki svara þessu með lánskjaravísitöluna.
    Það væri fróðlegt þá og kannski nauðsynlegt, herra forseti, að fá hæstv. forsrh. hingað úr því að viðskrh. vill ekki segja já eða nei við þessu svo að hægt sé að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar að afnema lánskjaravísitöluna. Væri hægt að gera ráðstafanir til að ná í hæstv. forsrh.? ( Forseti: Ég gef ekki hæstv. viðskrh. orðið meðan hv. 2. þm. Norðurl. e. er í ræðustól.) Hæstv. viðskrh. gaf sér orðið sjálfur og sagði tommustokkur. Ég óska eftir því að fá hæstv. forsrh. hingað til þess að hægt sé að spyrja hann þeirrar spurningar hvort hann sé og ríkisstjórn hans á móti vísitölunni, hvort hann sé á móti lánskjaravísitölunni og hvort hugmynd hans sé þá að fella lánskjaravísitöluna niður, hvort á bak við þær breytingar sem standa í þessum lagagreinum sé

kannski sú staðfasta ákvörðun þessara ráðherra beggja að gefa út fyrirmæli um að ekki megi ávaxta fé með lánskjaravísitölu né heldur lána með lánskjaravísitölu. Ég óska eftir svari við því hvort viðskrh. ætli að beita og sé staðráðinn í því nú þegar að beita 9. gr. seðlabankalaganna þannig að ákvörðunarvaldið um vexti af innlánum í bönkum verði tekið af bönkunum sjálfum og ekki nóg með það heldur eigi hið sama að gilda um eignarleigufyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði.
    Mig langar að velta upp þeirri spurningu í sambandi við þessa brtt.: Hugsar viðskrh. sér það að þetta eigi að gilda um þriðja manns pappíra? Er það hugmynd hans? Á þetta að gilda um öll verðbréf? Og hvernig var þetta í umræðunum um húsbréfin sem eiga öllu að bjarga? Mér skilst að nú sé hugmyndin að þeir menn sem ekki fái nema 1*y1/2*y millj. að láni samkvæmt núgildandi lögum eigi að fá 3*y1/2*y milljón í húsbréfum og mér skilst að Seðlabankinn
ætli sér að innleysa húsbréfin öll fyrir fólkið og Húsnæðisstofnun, það verði sett sérstakt gengi á húsbréfin sem Seðlabankinn og Húsnæðisstofnun ákveði og ef þau setja gengi á húsbréfin þýðir það það að þau eru reiðubúin að kaupa húsbréfin, annars er það marklaust. Er það hugmyndin að þessi ákvörðun Seðlabankans nái einnig til þess? Er það hugmynd hæstv. viðskrh. að ríkissjóður megi bjóða 7% vexti ofan á verðtryggingu en bankarnir eigi kannski að vera með öfuga raunvexti? Er það hugmyndin? Hver er vaxtapólitík viðskrh.? Hvað á viðskrh. við með öllum þessum látum? Finnst honum ávöxtun í bönkum landsins vera of mikil? Hvað hugsar hann? Öfuga raunvexti, vill hann það? Eða er kannski hugmynd viðskrh. með þessu að greiða fyrir almennum viðskiptum og notkun slíkra pappíra sem hér um ræðir?
    Ég held, herra forseti, að nauðsynlegt sé að lesa upp úr plaggi sem fjh.- og viðskn. fékk frá Seðlabankanum varðandi þetta atriði. Ég man ekki eftir því áður að hafa fengið minnisblað frá Seðlabankanum eftir að fulltrúar hans hafa gengið á fund fjh.- og viðskn. En það gerðist í þetta skipti. Og ég tel nauðsynlegt að fram komi í þingtíðindum, orðrétt, það sem Seðlabankinn hefur að segja um íhlutun um vaxtaákvarðanir. En um það segir í þessari upprifjun Seðlabankans:
    ,,Á fund nefndarinnar mættu Geir Hallgrímsson seðlabankastjóri og Eiríkur Guðnason aðstoðarbankastjóri.
    Frv. um breytingu á lögum um Seðlabankann felur í sér breytingu á 9. gr. Til umræðu er tillaga um viðbótarmálsgrein í 9. gr. sem verði 3. mgr. og fjalli m.a. um ávöxtunarkröfur verðbréfafyrirtækja. Í heild yrði þá 9. gr. seðlabankalaganna svona (breytingar frá núgildandi lögum eru undirstrikaðar):
    ,,Seðlabankinn ákveður vexti af innlánum við bankann og af lánum sem hann veitir. Seðlabankinn getur að fengnu samþykki ráðherra bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði

hóflegir og eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslendinga svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána að teknu tilliti til annarra tekna innlánsstofnana.
    Hafi Seðlabanki Íslands hlutast til um vexti hjá innlánsstofnunum á grundvelli þessarar greinar getur bankinn, meðan sú íhlutun varir, að fengnu samþykki ráðherra, bundið ávöxtunarkröfur og annað endurgjald fyrir fjármagn í viðskiptum eignarleigufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða takmörkunum sem miðast við hliðstæða áhættuflokka. Setur Seðlabankinn um það nánari reglur. Ákvarðanir Seðlabankans skv. 2. mgr. skulu birtar í Lögbirtingablaði.``
    Síðan kemur orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Álit fulltrúa Seðlabankans var á þá leið að ekki væri ljóst með hvaða hætti unnt sé að setja reglur sem um er fjallað í 3. mgr., né hvernig mætti fylgja þeim eftir svo hald sé í. Sé sett hámark á ávöxtun í verðbréfaviðskiptum jafngildir það því að sett sé lágmark á verð þessara fjármuna. Ekki er þó fjarri lagi að álykta að til samræmis þurfi að setja lágmark á verð annarra fjármuna sem ganga kaupum og sölum, svo sem notaðra bifreiða o.fl. Bent var á að svona ákvæði um viðskipti með verðbréf geti leitt til niðurstöðu sem væri beinlínis í andstöðu við markmiðið, sé markmiðið það að lækka fjármagnskostnað. Áhrifin af þessu gætu nefnilega orðið annars vegar þau að draga úr sparnaði í formi verðbréfakaupa sem leitt getur til hækkunar vaxta. Í stað fjárfestingar í verðbréfum mundi fólk m.a. velja fasteignir eða lausafjármuni. Í öðru lagi geta áhrifin orðið þau að færa verðbréfaviðskipti út á ,,skúmaskotamarkaðinn``, en síðustu ár hafa þau einmitt komist upp á yfirborðið hér á landi sem víðast annars staðar. Síðustu ár hefur verið reynt að skapa hér á landi skilyrði fyrir heilbrigðum verðbréfaviðskiptum fyrir opnum tjöldum. Umrætt ákvæði mundi eyða slíkum möguleikum og spilla t.d. fyrir starfsemi Verðbréfaþings Íslands og öðrum markaðsviðskiptum með verðbréf, þar á meðal húsbréfum og verðbréfum Atvinnutryggingarsjóðs. Einnig hefur verið bent á nauðsyn þess að auka eigið fé fyrirtækja og koma í því skyni á fót öflugum markaði fyrir hlutabréf, m.a. á Verðbréfaþingi. Ekki verður annað séð en að tillagan um 3. mgr. komi einnig í veg fyrir það.``
    Hæstv. forseti. Það er ekki undarlegt þótt hæstv. viðskrh. gangi út á meðan verið er að lesa upp úr þessu áliti Seðlabanka Íslands. Það er heldur ekki undarlegt að meiri hl. nefndarinnar, framsögumaður nefndarinnar og formaður nefndarinnar, skuli bæði hverfa á braut á meðan verið er að lesa upp það sem Seðlabankinn hefur um þessi mál að segja. Ég man ekki eftir því í þeim umræðum sem ég hef hlýtt á hér á Alþingi, né man ég eftir því annars staðar, að fulltrúar Seðlabanka hafi gert jafngóðlátlegt og raunar beitt grín, til skiptis, að ríkisstjórn eins og Seðlabankinn gerir í þessu máli, m.a. þegar hann líkir þessari nýju reglu við það að þetta sé ámóta og að Seðlabankanum sé ætlað að setja reglur um það

hversu mikið menn megi fá fyrir notaðar bifreiðar ef þeir vilja á annað borð bjóða þær til kaups úti á hinum almenna markaði.
    Ég bað um það, hæstv. forseti, að hæstv. forsrh. kæmi hér. Mig langar að spyrja hæstv. forsrh. einnar spurningar. Ég sé að fulltrúi Framsfl., sem er
framsögumaður nefndarinnar, er ekki hér inni í deildinni og ég átta mig ekki á því svona í fljótu bragði --- það fer að vísu ekki mikið fyrir framsóknarmönnum þessa síðustu daga, þessum sérstöku sjálfskipuðu fulltrúum dreifbýlisins, og ekki von á því að þeir vilji vera mikið á mannþingum eins og búið er að sauma að landsbyggðinni. ( Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að forsrh. er ekki í húsinu og mun vera að fylgja forseta Íslands út á flugvöll.)
Sjá nú hvað ég er beinaber,
brjóstin visin og fölar kinnar.
Eldsteyptu lýsa hraunin hér
hörðum búsifjum ævi minnar.
Kóróna mín er kaldur snjár,
klömbrur hafísa mitt aðsetur.
Þrautir mínar í þúsund ár
þekkir guð einn og talið getur.
    Þannig sá Bólu-Hjálmar fyrir sér fjallkonuna fyrir 115 árum. Það minnir svolítið á það hvernig er að búa úti á landi núna. Það er kalt þar núna. Það er ekki aðeins að snjórinn sé mikill. Það er ekki aðeins að þetta aumingja fólk verði að hlusta á það úti á landi að ríkisstjórnin nenni svo sem ekkert að hyggja að því þótt þar sé atvinnuleysi. Virðulegir prófessorar við Háskóla Íslands koma í sjónvarpsþætti og gera lítið úr atvinnuöryggi þessa aumingja fólks á sama tíma og fiskafli er að dragast saman í landinu. Og menn sjá ekki fram á það í heilu byggðarlögunum hvernig eigi að standa að því að viðhalda þó því litla sem eftir er af atvinnuörygginu. Ég veit ekki hvort ég á að minna t.d. á það sem var að gerast á Þórshöfn. Þar var verið að selja burtu skipið sem aflar hráefnis fyrir frystihúsið þar. Og það er ekki að sjá að þeir Þórshafnarbúar geti haldið þeim togara sem eftir er. Hvað verður þá um þá þar? Hvar á það að vinna, það verkafólk sem þar er? Það verður ekki tekið á málum þess fyrsta kastið, svo mikið er víst. Og þetta er ekki bara svona á Þórshöfn. Það er ekki bara svona þar.
    En það má kannski einu gilda, herra forseti, hvort náð sé í einhvern af þingmönnum Framsfl. til þess að reyna að spyrja þá út úr hvaða skoðun þeir hafi á einu eða öðru núna, þessir óbreyttu þingmenn. Það er auðvitað bara til að ergja þá og ergja sjálfan sig.
    Fyrst þegar ég kynntist vinnubrögðum á Alþingi datt engri þingnefnd í hug að vera að kalla á einhvern fulltrúa ráðherra til þess að útskýra frumvörp. Það kom ekki fyrir. Þingmenn þóttust ekkert þurfa á þeirra fyrirsögn að halda. Nú er málið þannig breytt að það sitja yfir manni fulltrúar frá ráðuneytunum lon og don. Og ef maður spyr um hvað eitthvað þýði er hringt upp í ráðuneyti og beðið um mann ráðherrans, Umba. Og svo kemur Umbi niðureftir og hann segir okkur hvernig eigi að skilja þetta og hvernig eigi að skilja

hitt. Og þingið veit ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er ekki aðeins að það sé lágt risið á strjálbýlinu, það er líka lágt risið á þessari stofnun hér eins og verið er að nota hana, þegar fleygt er inn illa unnum frv. og menn mega ekki skoða þau með eðlilegum hætti. Og fyrirlitningin er svo mikil að það er ekki enn búið að afgreiða lánsfjárlög. Það mætti kannski segja að það kæmi ekki að sök ef atvinnulífið í landinu hefði verið með eðlilegum hætti á sl. ári og fyrirtækin væru nokkurn veginn sjálfbjarga. En að geta ekki komið frá sér lánsfjárlögum fyrr en í dymbilviku, í öðru eins árferði og nú er, og með þeim hætti stöðvað afgreiðslu úr sjóðunum er auðvitað makalaust.
    Síðasta grein frv., ég hef ekki athugað það sérstaklega en ég hygg að eins sé um þá grein eins og er í samsvarandi grein í frv. um viðskiptabanka, að hún er illa unnin. Það þarf eflaust að breyta fleiri ákvæðum í lögum um Seðlabanka ef þetta á að verða að lögum. Ég geri ráð fyrir því að það sé eins en auðvitað þýðir ekkert að vera að hafa orð á því þótt lagasetningin sé vond og ill. ( Viðskrh.: Þessi lagasetning er samin í Seðlabankanum.) Hún er samin í Seðlabankanum, segir hæstv. viðskrh. Eru það meðmæli frá hæstv. viðskrh.? ( Viðskrh.: Það er bara þingmönnum til fróðleiks.) Ég veit ekki hvort það eru meðmæli. Ja, ég tek það ekki alvarlega og er alveg reiðubúinn að fella greinina. Hún skiptir auðvitað engu máli. Það er bara leiðinlegt að vinnubrögðin skuli ekki vera vandaðri en þetta.
    Ég legg til, herra forseti, að frv. verði fellt í heild. Þær greinar sem hafa efnisinnihald horfa til verri vegar. Aðrar greinar skipta svo sem engu máli og gefa ekki tilefni til þess að breyta lögum um Seðlabanka Íslands.