Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Gagnstætt þeim tveimur hv. ræðumönnum sem hér töluðu síðast ætla ég að lýsa yfir stuðningi við meginefni frv. Þar sem ég á aðeins áheyrnaraðild að fjh.- og viðskn. þessarar deildar ætla ég í örfáum orðum að lýsa viðhorfum okkar til þess.
    Með þeim reglum um lágmark eða meðaltal lauss fjár sem bönkum ber ætíð að hafa yfir að ráða skv. 1. gr. er verið að setja kvaðir á banka og innlánsstofnanir sem geta komið misjafnlega niður á þeim. Í raun og veru er aðeins verið að breyta til þess sem var á síðasta ári. Tilgang breytinganna tel ég góðan og nauðsynlegan, en auðvitað skiptir mestu máli hvernig bönkum tekst að aðlaga sig að þeim breytingum og hvernig til tekst með framkvæmd þeirra. En það sem er auðvitað allra mikilvægast er að koma á stöðugleika, bæði á fjármagnsmarkaðnum og í efnahagslífinu, þannig að ekki þurfi stöðugt að vera að grípa til stjórntækja sem geta komið misjafnlega niður á stofnunum eða fyrirtækjum sem eru rétt búin að aðlaga sig breyttum aðstæðum vegna nýorðinna breytinga, en sú var einmitt raunin í þessu tilviki.
    Seinni hluti 1. gr. sem fjallar um bindiskyldu verðbréfasjóða og verðbréfafyrirtækja sem var áður sérstök grein í frv. til laga um verðbréfasjóði og verðbréfafyrirtæki en var tekin út úr því frv. og sett hér inn í frv. til seðlabankalaga í staðinn er mjög umdeildur. Það var fjallað töluvert um það atriði í fjh.- og viðskn. beggja deilda og í seinni deildinni var það síðan tekið út en sett síðan aftur inn í lagafrv. sem við höfum hér til meðferðar nú.
    Það er vissulega rétt að starfsemi innlánsstofnana annars vegar og verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða hins vegar er ekki að öllu leyti sambærileg og því eru margir þeirrar skoðunar að þetta ákvæði um bindiskyldu verðbréfasjóða og verðbréfafyrirtækja vinni gegn því markmiði að hin ýmsu fyrirtæki á fjármagnsmarkaði sitji við sama borð. Seðlabankinn er bakhjarl innlánsstofnana. Þær eiga aðgang að honum um fyrirgreiðslu og geta fengið þar aðstoð og hafa yfirdráttarheimildir samkvæmt ákveðnum reglum, og þannig er í raun ríkisábyrgð á þeirra starfsemi. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að verðbréfasjóðir og verðbréfafyrirtæki njóti slíkrar verndar og í rauninni væri eðlilegt að setja um það ákvæði að ef þessi fyrirtæki eru látin sæta bindiskyldu þá njóti þau einnig sambærilegra réttinda á við aðrar innlánsstofnanir.
    Ég vil aðeins lýsa því, vegna þess að hv. þingkona Kristín Halldórsdóttir gerði fyrirvara varðandi þessa grein í Nd. þegar það var til umfjöllunar varðandi verðbréfasjóð og verðbréfafyrirtæki, að ég tel að heimildarákvæðið um bindiskyldu hefði orðið ásættanlegra fyrir alla aðila og mundi eftir sem áður hafa gegnt því hlutverki að vera nokkurs konar stíflugarður eins og ætlunin var. Ég hef þó enga sérstaka samúð með verðbréfafyrirtækjum og verðbréfasjóðum og þykist vita að margir muni meta öryggi bankanna fram yfir hugsanlega hagnaðarvon hjá verðbréfasjóðum. Get ég því fyrir mitt leyti fallist á þetta ákvæði með þeim fyrirvara um skyldur og

réttindi slíkra fyrirtækja sem ég hef nú lýst. Þessi starfsemi er til orðin, hún býður upp á ákveðna kosti og er að mörgu leyti gagnleg.
    Þá vil ég einnig taka undir efni 2. gr. um heimild Seðlabanka til að hafa áhrif á vaxtaákvarðanir. Hér er verið að árétta heimild Seðlabankans til að veita aðhald í vaxtamálum. Á því er að sönnu full þörf að mínu mati nú á tímum þar sem vextir og annar fjármagnskostnaður eru að velta um koll bæði heimilum og fyrirtækjum.
    Um seinni hluta greinarinnar eru margir sem til þekkja fullir efasemda að hún sé framkvæmanleg, þ.e. að það sama gildi um ávöxtunarkröfur og annað endurgjald fyrir fjármagn í viðskiptum eignarleigufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða. Sjálf hef ég ekki mikla þekkingu á þessari starfsemi beint þannig að ég get ekki fullyrt um það og hlýt því að gera ákveðinn fyrirvara um þann þátt greinarinnar einnig.
    Um aðrar greinar frv. og brtt. við þær ætla ég ekki að fjölyrða. Kvennalistinn getur fallist á það sem í þeim kemur fram. Það hefði e.t.v. verið ærin ástæða samt til að taka upp umræðu um bankamálin almennt. Ég ætla ekki að verja tíma til þess nú, en vildi samt taka undir þær athugasemdir sem fram komu í máli hv. 7. þm. Reykn. og 2. þm. Norðurl. e. um stöðu atvinnuveganna í samanburði við stöðu bankanna. Ég vil einnig benda á að það eru ekki einasta fyrirtækin sem standa höllum fæti. Við virðumst lifa á einhvers konar áratugi gjaldþrotanna þar sem jafnvel heimilin, mikilvægasta grunneining þjóðfélagsins, standa veikar en nokkru sinni fyrr, að ekki sé minnst á þá upplausn og óhamingju sem fylgir í kjölfarið hjá einstaklingum og fjölskyldum. Það væri fróðlegt að heyra, og ítreka ég þær spurningar sem hv. 7. þm. Reykn. bar fram áðan, heyra frá hæstv. viðskrh. hvort hann kunni á því einhverja haldbæra skýringu hvernig er komið fyrir heimilum og fyrirtækjum á þessu mesta blómaskeiði bankanna á Íslandi. Ég held að það sé mál sem hlýtur
að þurfa að taka til mjög alvarlegrar skoðunar og reyna að finna lausnir. E.t.v. eru þeir sem nú starfa í bönkunum miklu betri fagmenn við að reka fyrirtæki en allir aðrir. Getur það verið skýring eða er um að ræða það að bankarnir taki þjónustugjöld í stórum stíl af okkur öllum sem verður til þess að koma mörgum á kné? Það væri mjög fróðlegt að heyra hvort ráðamenn hæstv. ríkisstjórnar hafi á því einhverjar haldbærar skýringar hvernig þessum málum er nú komið.