Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Það mætti segja að núv. ríkisstjórn eigi afmæli þessa dagana. Hún er að verða hálfs árs, alveg um það. Ríkisstjórn félagshyggju og jafnréttis var mynduð m.a. til að hefta þenslu bankakerfisins, minnka fjármagnskostnað fyrirtækja. Manni hefur fundist að ýmislegt í starfi ríkisstjórnarinnar hafi tekist á undanförnum mánuðum, á þessu hálfa ári sem hún er búin að starfa, þar til nú hina síðustu daga að svo virðist sem hlutirnir séu að fara nokkuð á annan veg. Í fjölmiðlum hafa undanfarna daga birst hver fréttin á fætur annarri um að bankakerfið sé að skila stórkostlegum gróða á sama tíma og atvinnuvegirnir, sem okkar ríkisstjórn var mynduð til að styrkja og jafnvel bjarga úr þeirri stöðu sem þeir voru í í haust, halda áfram að tapa.
    Ég er með úrklippur úr blaði okkar allra landsmanna, Morgunblaðinu, frá því fyrir helgi, fréttir frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis þar sem gróði þess fyrirtækis er sagður yfir 30 milljónir. Hagnaður Iðnaðarbankans er sagður tæplega 140 milljónir. Og í dag heldur Morgunblaðið áfram að birta fréttir um stöðu bankanna. Þar er sagt að hagnaður Verslunarbankans sé rúmar 90 milljónir og að eigið fé hafi aukist um 56% á árinu. Þarna kemur fyrirtæki sem sýnir alveg öfuga afkomu miðað við það sem okkur hefur verið sagt að fyrirtækin í sjávarútvegi hafi sýnt, þ.e. þarna er fyrirtæki sem eykur eiginfjárstöðu sína um 56% á sama tíma og okkur er sagt að sjávarútvegsfyrirtæki séu að tapa helmingi sinnar eiginfjárstöðu. Getur verið að þetta sé arfur liðins árs meira en það að hægt sé að segja og stilla þessu heim og saman við aðgerðir núv. ríkisstjórnar? Ég vona að svo sé, að það sé verið að breyta um stefnu með þeim frv. sem hér er verið að fjalla um og ríkisstjórnin er að vinna að að koma í gegnum þingið. Vissulega eru nokkrar efasemdir um að svo sé, en áður en að einhver reynsla er komin af því ætla ég ekki að hafa þau orð um að þau frv. sem hér eru séu ekki á betri veg í sambandi við að styrkja stöðu atvinnuveganna og að bankarnir verði notaðir sem sérstök tæki til að skerða stöðu undirstöðuatvinnuveganna.
    Ég taldi rétt nú á hálfs árs afmæli ríkisstjórnarinnar að minna á þetta, benda á þessar fréttir sem fjölmiðlarnir eru að færa okkur, fréttir sem eru að koma út frá aðalfundum þessara stofnana. Ég þori ekki alveg að fara með tölur í sambandi við gróða Landsbankans, en mig minnir að þar séu tölurnar eitthvað í kringum 200 milljónir. ( Viðskrh.: 117.) Nú, það eru 117, þá hef ég þarna áætlað heldur mikið. ( GHG: Er það Landsbankinn?) Landsbankinn. En á sama tíma er maður svo aftur að frétta til viðbótar því sem ég hef nefnt hér áður og margrætt er í sambandi við sjávarútveginn að hjá afurðastöðvum bændanna, sem héldu fund fyrir skömmu, sé allt á sömu bókina lært og í sjávarútveginum. ( EgJ: Bændur eiga engar afurðastöðvar.) Eru það ekki sameignarfyrirtæki bænda ýmsar afurðastöðvar eins og Sláturfélagið, kannski ekki á Austfjörðum, en það er í eigu kaupfélaganna

og eru það ekki bændur sem standa að kaupfélögunum aðallega? Það eru þó alla vega stöðvar sem bændur nota og hafa viðskipti við þó að það sé hægt kannski að deila um eignarréttinn. Þar er bullandi halli, nefnd jafnvel hundruð milljóna í halla. Og um óskabarn margra Íslendinga, sérstaklega framsóknarmanna, Sambandið, hafa verið gefnar upp stórar tölur og allt á sömu bókina lært. Vonandi er þetta að færast á annan veg undir ríkisstjórn félagshyggju og jafnréttis þó að enn sjáist þess ekki mikil merki.
    Það var haldinn fundur í Osta- og smjörsölunni og arfurinn frá síðasta ári þar var rúmlega 25 milljóna tap út af gjaldþrotum. Út af almennri rekstrarstöðu fyrirtækja í þjóðfélaginu þurfti það fyrirtæki að taka á sig 25 milljóna kr. tap.
    En það er fleira í blöðunum upp á síðkastið. Í Morgunblaðinu er í dag frétt um að forvextir víxla muni hækka í dag um 4% og fyrirsögnin í þeirri frétt er að lánskjaravísitala mælist nú 27,6% af verðbólguhraða. Ég var að hringja niður í Þjóðhagsstofnun áðan og ætlaði að fá upplýsingar um hvernig staðan hefði verið miðsumars í fyrra eða jafnvel í lok ágúst, en þeir höfðu svo mikið að gera í Þjóðhagsstofnun að ég hef ekki fengið enn þá þessar upplýsingar þannig að ég get ekki farið með það til samanburðar hver staðan var þegar verðstöðvun var sett á á liðnu sumri. En hver sem sú tala hefur verið er það mjög uggvænlegt ef þróunin er á þann veg að við séum með um og yfir jafnvel 30% verðbólgu.
    En það eru fleiri fréttir í Morgunblaðinu. M.a. er viðtal við hæstv. forsrh. Steingrím Hermannsson. Fyrirsögnin í þeirri frétt er sú að hæstv. forsrh. vilji afnema verðtryggingu. Hann segir að það hafi komið sér nokkuð á óvart hve verðbólgan sé mikil og haft er eftir honum, með leyfi forseta: ,,Það sem hér hefur farið úrskeiðis er verðbólguholskeflan sem hefur dunið yfir í miklu ríkari mæli en mér hafði verið talin trú um.`` (Gripið fram í.) Þetta hefur Morgunblaðið eftir hæstv. forsrh. ( Gripið fram í: Það er alltaf verið að blaðra.) ( GHG: Það tekur því ekki að vitna í hann.) Ja, það væri kannski rétt að spyrja hæstv. viðskrh. Mér þykir nú miður að minn ráðherra í deildinni skuli ekki vera hér þannig að það væri hægt að spjalla við hann líka, en spyr
viðskrh. um hvort ástandið sé svo hjá fleiri ráðherrum að þeim hafi verið sagðar ýmsar sögur sem nú sé að koma í ljós að séu ekki sannleikanum samkvæmar og hvort ekki sé meiri rökfesta og fyrirframvissa og nokkurt öryggi um hvernig hlutirnir séu og hvað hlutir séu að gerast innan okkar ágætu ríkisstjórnar félagshyggju og jafnréttis.
    En það er fleira í þessu viðtali. ( Gripið fram í: Þeir flykkjast inn ráðherrarnir.) Það er gott að kemur inn flokksmaður minn. ( KP: Þeir eru komnir þrír í deildina.) Það er fleira sem kemur fram í þessu viðtali, með leyfi forseta, en ég skal taka fram að það er ekki alveg innan gæsalappa --- jú, það er innan gæsalappa hjá Morgunblaðinu svo það er beint haft eftir hæstv. forsrh. Það er verið að tala um þá þróun sem á sér stað í þjóðfélaginu, þessa

verðhækkunarskriðu. Hæstv. forsrh. segir við Morgunblaðið: ,,Þar að auki eru bankarnir mjög óhagkvæmir og illa reknar einingar.`` ( GHG: Segir hver?) Hæstv. forsrh. ( GHG: Og þeir stórgræða bankarnir.) ,,Ég sannfærist betur og betur um réttmæti þess sem einn Norðmaður sagði við mig úti``, trúlega núna á EFTA-fundinum, ,,hvernig í ósköpunum getið þið verið með minnkandi sjávarafla, minnkandi þjóðartekjur og verðtryggt fjármagn?`` sagði Steingrímur. ,,Og það í verðbólgu. Þetta gengur einfaldlega ekki upp. Ætli bankar og sjóðir hafi ekki grætt eitthvað á annan milljarð hér á síðasta ári á meðan allir aðrir eru á hausnum. Ég er kominn á þá skoðun``, segir hæstv. forsrh., ,,að það verði að afnema verðtryggingu.`` ( GHG: Hvers vegna gerir hann það ekki í skjóli ríkisstjórnarinnar?) Ég ætla, hv. þm., að spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann sé á sömu skoðun og hæstv. forsrh. er að túlka í Morgunblaðinu ( KP: Spurðu hv. 14. þm. Reykv.) og hvernig þessi staða sé í ríkisstjórninni, hvort hæstv. forsrh. sé að tala þarna í nafni ríkisstjórnarinnar. ( VS: Hver er skoðun ræðumanns á þessu?) Það er kannski rétt, áður en ég svara hv. skrifara um það, að fá að heyra stefnu ríkisstjórnar vegna þess að ég er mjög traustur stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar.
    Hér hefur verið rætt nokkuð um þann þátt í þessu frv. að ríkissjóður skuli fá viðurlagasektir, að viðurlagasektir Seðlabankans skuli renna í ríkissjóð. Maður fer að hugsa út í það, þegar þetta ákvæði er sett og á að setja í lög, hvort bankarnir, þá jafnt Seðlabankinn sem aðrir, telji þá eftir sem áður, og þá sérstaklega Seðlabankinn, nauðsynlegt að bankinn sé rekinn með svipuðum gróða áfram og hann hefur verið rekinn undanfarið? Þýðir þetta ekki þá, ef á að láta þennan tekjustofn Seðlabankans renna í ríkissjóð, að þessi stofnun verður enn þá meira þenslugerandi en hún hefur verið hingað til? Er ekki þarna á einum stað enn þá verið að auka þensluleiðirnar í þjóðfélaginu?
    Áður en ég lýk máli mínu vil ég enn á ný benda á þá þróun sem er í þjóðfélaginu, þessa verðbólguholskeflu sem yfir okkur er að ganga. Ég tel að aðalorsök þessarar holskeflu sé ekki að bankarnir séu illa reknir eða eitthvað það sem hæstv. forsrh. segir, mikið frekar hitt að þjóðfélagið er svo illa rekið að undirstöðuatvinnuvegirnir eru reknir með halla. Á meðan svo er hlýtur það að vera mjög þenslugerandi í þjóðfélaginu þegar undirstöðuatvinnuvegirnir, aðalatvinnuvegir þjóðarinnar verða að sækja meira fjármagn í bankakerfið, í veltuna, en þeir geta aflað sér. Á meðan þannig er haldið á málum að rekstrargrundvöllur undirstöðuatvinnuveganna er ekki tryggður hljótum við að búa við áframhaldandi verðbólguþróun eins og hún er og eins og hún hefur verið á undanförnum missirum.