Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir að ég skuli fá tækifæri til að segja nokkur orð honum. Ég er með nokkrar spurningar fyrir utan ákveðnar vangaveltur um stöðu mála. Ég skal ekki gera þetta að umræðu sem færi fram með þeim hætti að hér hæfust upp miklar deilur um þetta frv. Það gefur tilefni til þess að vísu. En hvað sem því viðvíkur skal ég ekki fara út í þá sálma nema að mjög takmörkuðu leyti.
    Það sem mér finnst skipta höfuðmáli þegar maður skoðar þetta frv. til breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands er það að reyna að gera sér grein fyrir því hvert frv. stefnir í meginatriðum. Ég held að það hafi verið rétt skilið hjá hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur, 6. þm. Vesturl., að þetta frv. stefnir í miðstýringu. Það stefnir í áttina að þeim sósíalisma sem sumar kvennalistakonur vilja stefna að. Þær gera það að vísu ekki allar sem betur fer. Það er alveg rétt skilið hjá henni að frv. fullnægir þeim gömlu sósíalisku markmiðum að reyna að stýra öllu, þ.e. að koma stjórn mála, hvort sem það er á sviði peninga- eða fjármála, undir ofurvald ríkisvaldsins á Íslandi. Þar með er ekki sagt að það sé röng stefna að koma þessu undir vald Alþingis nema síður sé heldur stefnir það fyrst og fremst að því að koma þessu undir vald þess aðila sem fer með embætti bankamálaráðherra á hverjum tíma.
    Nú vill svo til að við erum með í ríkisstjórn svokallaða fulltrúa félagshyggjuflokkanna --- ég segi það alltaf í gæsalöppum --- og þeir hugsa sér gott til glóðarinnar, ef þeir koma þessum breytingum fram, hvernig þeir geti miðstýrt þessu sviði íslenskra fjármála sem er að vissu leyti mjög takmarkað hvað frelsið áhrærir eins og ég kem að á eftir þannig að það er rétt skilið hjá hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur að þetta fellur mjög vel í vinstra kramið. Ég er ekki viss um það nema síður sé að það sé jafngott fyrir Íslendinga og íslenska þjóð þegar til lengri tíma er litið og mun færa nokkur rök að því hér á eftir. En áður en ég fer inn á það og ræði einstök efnisatriði frv. eru það nokkur atriði sem ég vildi ræða um og gjarnan heyra síðan svör ráðherra eða hugleiðingar um hvernig hann leggur út af því sem ég segi nú.
    Maður les í dagblöðum og heyrir í fjölmiðlum þegar hæstv. viðskrh. kemur þar fram að hann sé mikill fylgismaður þess, sem við erum t.d. sjálfstæðismenn mjög, að Ísland sé í sem bestum tengslum við vestrænar þjóðir. Það fer ekki á milli mála að hæstv. viðskrh. vill að Ísland búi við svipaðar aðstæður hvað frelsi áhrærir og nágrannaþjóðirnar gera. Í þeim efnum efast ég ekki um heilindi ráðherrans þó að ég geti ekki að öllu leyti gengið jafnlangt í þeim hugmyndum og hann vill gera. Þó get ég verið sammála honum í því meginatriði að ég vil að við Íslendingar búum við sambærilegt frelsi og sambærilega möguleika. Þá kemur það einmitt inn á þetta svið að hæstv. ráðherra hefur sagt opinberlega bæði heima og erlendis að hann sé fylgjandi því að erlent fjármagn geti komið inn í landið. Ég tek það

skýrt fram að ég hef ekki sett fram þessa skoðun út af fyrir sig. Ég geri mér grein fyrir því að það þarf að fara mjög varlega í þeim efnum. Þó ber að því að huga að í sambandi við stóriðjuna komumst við líklega ekki hjá því að erlent fjármagn komi til skjalanna. En hvað sem því líður og hvað sem líður minni skoðun hefur það verið skoðun hæstv. ráðherra að það þurfi að opna Ísland fyrir erlendu fjármagni og hann hefur lagt alveg sérstaka áherslu á að það þyrfti að koma erlent fjármagn inn í íslenskt bankakerfi til að skapa og framkalla það sem hann nefnir aukna samkeppni í peninga- og fjármálum á Íslandi.
    Ég get einhvern veginn ekki fengið það til að ganga upp að þær breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem hér eru til umræðu stefni að því markmiði sem hæstv. bankamálaráðherra hefur prédikað og haldið fram núna núverið á þingi Norðurlandaráðs um stefnu hæstv. ráðherra og þá væntanlega ríkisstjórnar í þessum efnum. Mér sýnist að þetta frv. stefni í alveg þveröfuga átt. Ég kannast ekki við að í lögum um seðlabanka eða stofnanir sem eiga að fylgjast með því í nágrannalöndunum með sambærilegum hætti séu ákvæði sem eru jafnmiðstýrandi og ég vil segja þvingandi og fram kemur í þessu frv. Þess vegna vil ég fá það svar hjá hæstv. ráðherra hvort hann hafi breytt um skoðun og hvort hann trúi því að ef þetta frv. nái fram að ganga með þessum hætti geti hann nálgast það markmið sem hann sjálfur hefur sett fram og ég vil trúa að hann vilji fylgja eftir, en ég vil einnig taka fram að ég er honum ekki algerlega sammála í því hvernig eigi að nálgast það.
    Meginefni þessa frv. stefnir í þveröfuga átt, þá átt að loka því sviði sem það fjallar um, sem er peninga- og fjármálamarkaður á Íslandi, með þeim hætti að íslensk stjórnvöld geti með íhlutun og afskiptum skert frelsi manna, ekki bara banka, ekki bara verðbréfasjóða eða verðbréfafyrirtækja heldur einnig einstaklinga, skert meðferð fólksins í landinu á eigin aflafé.
    Það hefur einnig verið stefna margra alþýðuflokksmanna fyrir utan hæstv. viðskrh. að það eigi að hleypa erlendu fjármagni inn í landið. Þeir hafa greinilega skipt um skoðun því að ég geri ráð fyrir að þingflokkur Alþfl. hafi tekið afstöðu til þessa frv. til að tryggja því framgang. En það sem er mjög
ámælisvert og ég vil segja vítavert er hvernig á að standa að þessum málum án þess að það sé gert upp, hvernig það kerfi sem snýr að banka- og peningamálum hefur byggst upp og hvernig það raunverulega er saman sett. Það er ekki nóg að setja reglur og það er ekki nóg að setja lög. Það verður að vera þannig markmið á bak við lagasetninguna að lagasetningin hafi ekki þveröfug áhrif og það munu þessi lög örugglega hafa verði þau samþykkt.
    Það sem hér er um að ræða er raunverulega að það er verið að færa vald í peningamálum þjóðarinnar í hendurnar á ríkisvaldinu og þá sérstaklega í hendur þess manns sem fjallar um bankamál á hverjum tíma. Á sama tíma sem þetta er gert er gengið fram hjá

þeirri grundvallar- og meginstaðreynd að eins og íslenskt bankakerfi er og eins og íslenskir bankar eru er mjög takmarkað frelsi á þessu sviði nú þegar vegna þess að þeir sem ráða yfir íslensku bankakerfi, þeir sem stjórna raunverulega stefnunni eru ríkisstjórnin og ríkisvaldið, ríkisbankarnir og opinberir sjóðir. Það er staðreynd að ríkisbankarnir eru með um 70--80% hlutdeild í íslenskum peningamarkaði. Einkabankarnir svokölluðu, þ.e. sparisjóðirnir, Samvinnubankinn, Alþýðubankinn, Verslunarbankinn og Iðnaðarbankinn, eru með 20--30% á markaðnum. Þá vaknar auðvitað sú spurning þegar menn sjá þær hagnaðartölur sem hér hafa verið settar fram: Getur það verið að einkabankarnir með svona litla hlutdeild séu svo miklu betur reknir en ríkisbankarnir? Hver er ástæðan fyrir þessu? Það er ekki svo einfalt að segja að einkabankarnir hafi ákveðið vaxtamuninn sem hentar þeim vel eða hentar þeim betur en ríkisbankarnir geta framkvæmt. Við skulum hafa í huga einnig að ríkisbankarnir búa við ákveðna sérstöðu í sambandi við gjaldeyrisviðskipti. Þeir búa einnig við að þeirra viðskipti gagnvart erlendum aðilum eru ríkistryggð eða með ríkisábyrgð sem skapar þeim betri möguleika til lántöku erlendis á mun betri kjörum en einkabankarnir geta fengið. Þótt hagnaður hafi verið mikill á síðasta ári hjá nokkrum tilteknum fyrirtækjum sem flokkast undir það að vera einkabankar eða fyrirtæki í eigu einkaaðila er það ekki einhlítur mælikvarði á hvort bankakerfið í heild hafi skilað sínum árangri sem einkabankarnir virðast hafa gert. Þess vegna segi ég við hv. þm.: Trúa menn því raunverulega að einkabankarnir ráði ferðinni í íslensku peningakerfi? Ég trúi því ekki vegna þess að ég veit að það er ekki rétt.
    En við skulum víkja að öðrum aðila sem ræður miklu um hvers vegna íslenskir peningar eru svo dýrir sem raun ber vitni. Staðreyndin er sú að það hefur verið gert eftir ýmsum leiðum að þrengja að svokallaðri samkeppnisstöðu á íslenskum peningamarkaði og þar fer fremstur í flokki ríkissjóður. Þarfir ríkissjóðs, þarfir hins opinbera í sambandi við fjármagn og fjármuni hafa verið svo miklar á undanförnum árum að það hefur þegar tekið verulegan hlut út úr hinu svokallaða frjálsa peningakerfi á Íslandi. Þar við bætist alls konar lagasetning sem hefur haft í för með sér að aðilar sem hafa yfir miklu fjármagni að ráða hafa ekki fengið frelsi eða aðstöðu til að setja þetta fjármagn inn á íslenskan peningamarkað með þeim hætti að það gæti framkallað vaxtalækkanir. Nefni ég í því sambandi sérstaklega lífeyrissjóðina sem eru þvingaðir með lögum, að vísu á grundvelli samkomulags milli aðila vinnumarkaðarins sem mega auðvitað ekki setja lög á hinu háa Alþingi en það var gert þannig samt, þvingaðir til að láta 55% af árlegu ráðstöfunarfé í húsnæðismálakerfið og þaðan eru meira að segja þessir peningar endurlánaðir út á lægri vöxtum en Húsnæðisstofnun tekur lánin á sem er í hæsta máta óeðlilegt.
    Síðan erum við með í lögum alls konar ákvæði

sem snúa að einstökum atvinnugreinum þar sem peningunum er beint í ákveðnar áttir í stað þess að þeir ættu að fara inn á hinn frjálsa markað og framkalla þannig vaxtalækkun gagnvart atvinnuvegum, fyrirtækjunum í atvinnulífinu, gagnvart heimilunum og gagnvart þeim einstaklingum sem eiga undir þessa aðila að sækja.
    Ég vil undirstrika það vegna orða hv. þm. Danfríðar Skarphéðinsdóttur að það er alrangt hjá hv. þm. að ráðast að einkabönkunum og segja að þeir ráði vaxtastiginu á Íslandi. Það séu þeir bankar sem skiluðu hagnaði á sl. ári sem ráði því vaxtaokri, ef ég mætti nefna það því nafni, sem er á Íslandi. Það eru allt aðrar grundvallarástæður þar að baki og ég held að það væri mjög gott fyrir hv. þm., sem ég held að sé opinber starfsmaður, að gera sér grein fyrir því að ríkið á mjög verulegan þátt í því hvað vaxtastig er orðið hátt á Íslandi. Við skulum skoða þetta í réttu samhengi. Það er rangt að kenna þeim um sem eru með minnstan hluta og minnstu áhrifin á íslenskum peningamarkaði að vextir séu svo háir á Íslandi sem raun ber vitni um.
    Þar með er ég ekki að taka upp vörn fyrir hina háu vexti á Íslandi. Hins vegar leyfi ég mér að halda því fram og ég óska eftir því að hv. þm. sem ráðast að einkabönkunum ræði þetta í rökréttu samhengi en slíti ekki úr samhengi eins og gert er hér oft í umræðunum og getur hentað pólitískum markmiðum þeirra sem þar um fjalla.
    Í stuttu máli sagt má segja að meginorsökin fyrir hinu háa vaxtastigi á Íslandi sé hinn þurftarfreki ríkissjóður sem við öll höfum staðið að, m.a. með samþykkt fjárlaga á hinu háa Alþingi. Stærsti seljandi skuldabréfa á Íslandi
er ríkissjóður. Ríkissjóður er langsamlega stærsti seljandinn á skuldabréfum sem eru spariskírteini ríkisins. Er ekki ríkissjóður stærsti viðskiptavinur lífeyrissjóðanna? Lífeyrissjóðirnir hafa ekki frelsi til að selja skuldabréf. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason hefur ekki áttað sig á því að á sínum tíma samþykkti hann yfir sjálfan sig þvingunarlög sem verkalýðsleiðtoga um að hann skyldi afhenda svo og svo stóran hluta af fé fólksins í þessa hít sem heitir ríkissjóður. Ég greiddi ekki atkvæði með því, hv. þm. ( KP: Það er ekki rétt.) Hafi ég gert það er ég margsinnis búinn að lýsa því yfir að ég gerði rangt sem ég vil gjarnan fá tækifæri til að leiðrétta með hv. þm. báðum og verkalýðsleiðtogum, Karvel Pálmasyni og Karli Steinari Guðnasyni. Nú er tækifærið.
    Staðreyndin er sú að það er hið opinbera sem er of þurftarfrekt, of stórt fyrir þetta litla þjóðfélag sem íslenskt þjóðfélag er. Ríkissjóður hvílir of þungt á atvinnuvegunum. Hann hvílir of þungt á heimilunum, hvílir of þungt á einstaklingunum og framkallar m.a. þá óeðlilegu vexti sem við erum að berjast við. Ríkisbáknið, hið opinbera er þjóðinni of dýrt. Það þrengir of mikið að íslensku þjóðlífi og íslensku atvinnulífi. Það hefur sín áhrif á vextina í landinu. Og það hefur áhrif á fleira en vextina. Það hefur áhrif á verðlag í landinu með ýmsum hætti sem hægt væri að

ræða í mun ítarlegra máli.
    En það er kannski ekki við hæfi að tala um hlutina eins og þeir raunverulega eru. Það er miklu betra að setja lög og reglur og telja sjálfum sér trú um að í gegnum slíka miðstýringu geri menn betur, en því miður er það alveg í andstöðu við stefnu ýmissa hv. þm. Alþfl. sem tala þannig erlendis a.m.k. að þeir vilji að hér á Íslandi búi frjáls þjóð og frjálst fólk. En það getur passað að setja þvinganir á þá sem hafa af eigin rammleik myndað einkafyrirtæki á þessu sviði, hvort sem það heita einkabankar, verðbréfasjóðir, fjárfestingarfélög eða lífeyrissjóðir. Það getur vel verið að menn vilji kaupa sér pólitíska framtíð og framlengingu á sínu pólitíska lífi í því gerspillta pólitíska stjórnmálakerfi sem Íslendingar horfa upp á með þeim hætti sem hér er verið að gera. Það getur vel verið að það henti að menn stundi einhverja fyrirgreiðslupólitík í gegnum opinbera sjóði og opinber kerfi. Ég hefði haldið og held enn að hv. þm. Alþfl. vilji það ekki og ég vona að svo muni reynast þegar á á að herða í framtíðinni þegar þeir ná þeirri stöðu í íslenskum stjórnmálum sem þeir hafa greinilega glatað í þeirri ríkisstjórn sem þeir er núna í.
    Virðulegi forseti. Ég vil segja það sem mína skoðun í sambandi við þetta frv. að það stefnir í þveröfuga átt við það sem ég hefði búist við að kæmi frá hæstv. bankamálaráðherra og á ég þar alveg sérstaklega við þá brtt. sem gerð er við 2. gr. þar sem segir, með leyfi forseta, sem er brtt. frá 1. minni hl. fjh.- og viðskn.:
    ,,Við 9. gr. laganna bætist ný málsgr. sem verði 3. mgr. og orðist svo:
    Hafi Seðlabanki Íslands hlutast til um vexti hjá innlánsstofnunum á grundvelli þessarar greinar getur bankinn, meðan sú íhlutun varir, að fengnu samþykki ráðherra, bundið ávöxtunarkröfur og annað endurgjald fyrir fjármagn í viðskiptum eignarleigufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða takmörkunum sem miðast við hliðstæða áhættuflokka. Setur Seðlabankinn um það nánari reglur.``
    Síðan segir einnig í 2. gr. frv.: ,,2. mgr. 9. gr. laganna orðist svo: Seðlabankinn getur að fengnu samþykki ráðherra bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði hóflegir og eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslendinga, svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána að teknu tilliti til annarra tekna innlánsstofnana.``
    Mér finnst, virðulegi forseti, að með þessari brtt. sé raunverulega verið að færa þetta upp í ráðuneyti til hæstv. bankamálaráðherra til ákvarðanatöku. Ég efast um það og meira en efast um það, ég er sannfærður um það, að hæstv. ráðherra þótt hæfur sé, ég dreg ekki úr því að núv. hæstv. bankamálaráðherra er mjög hæfur á sínu sviði, sem hagfræðingur, muni þó hann vilji geta framkvæmt þetta lagaákvæði verði það samþykkt í deildinni. Ég held að það sé gersamlega útilokað miðað við núverandi aðstæður að ráðherra eða starfsmenn hans geti farið þannig ofan í rekstur

banka að hann geti framkvæmt þessa lagagrein verði hún samþykkt.
    Ég nefni sem dæmi: Hvað eru ,,hóflegir`` útlánsvextir? Hvernig á að meta hvað eru hóflegir útlánsvextir? Ég vildi gjarnan heyra hagfræðilega skilgreiningu hæstv. bankamálaráðherra á því hvernig hann gæti hugsað sér að skilgreina það sem mundu nefnast hóflegir vextir. Mér er það nú ekki alveg ljóst. Þó sit ég í bankaráði lítils banka. Það er víða erfitt að gera það upp við sig hvað flokkast undir hóflega vexti. Þetta er svo afstætt. Það fer eftir því hvað maður tekur til samanburðar. En ég veit að hæstv. ráðherra mun örugglega geta skýrt það fyrir mér á eftir.
    Svo er einnig þetta atriði, virðulegi forseti: ,, ... vextir séu eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslendinga.`` Ja, ég man ekki
nákvæmlega hvað helstu viðskiptalönd Íslendinga eru mörg, en ég mundi álíta að ef við tökum þau stærstu séum við að tala um 8--10 viðskiptalönd og þar eru vextir afar mismunandi. Við getum tekið sem dæmi Vestur-Þýskaland. Í Vestur-Þýskalandi eru vextir mjög lágir. Ætli þeir séu ekki 2--3%. (Gripið fram í.) Já, eitthvað um það til. Vextir eru aftur á móti tiltölulega háir í Bretlandi. Ég held að Bretland sé orðið annað eða þriðja stærsta viðskiptaland Íslands. ( JúlS: Það er hávaxtasvæði.) Það er hávaxtasvæði eins og hv. þm. greip fram í fyrir mér og nefndi. Ég held að vextir þar séu núna, þessir almennu vextir sem við tölum um, 11*y1/2*y%. Þriðja stærsta viðskiptaland Íslands eru Bandaríki Norður-Ameríku. Ég man ekki hvað ,,prime rates`` eru, svo að ég noti enska orðið yfir það, í dag. Ég gæti ímyndað mér að þeir séu á bilinu 9--10%. Þeir hafa verið það lengi. Eru þeir komnir upp í 11? ( Viðskrh.: Um 10.) Um 10, segir hæstv. ráðherra.
    Ég veit ekki hvert vaxtastigið er í Japan, enda ætla ég ekki að fara út í slíkar hártoganir því að þó að japanski markaðurinn hafi mikla þýðingu fyrir okkur Íslendinga held ég að við reynum ekki að miða okkur við Japana því að það er svo sérstakt þjóðfélag. En ég held að vextir séu þar mjög lágir. Kannski gæti hv. þm. Júlíus Sólnes upplýst þingheim um það, en hann er gerkunnugur Japan og því sem þar gerist. En ég held að vextir séu þar mjög lágir. Ég ætla ekki að tala um einn stóran viðskiptavin, enda ekki við hæfi, broslegt, en það eru Sovétríkin. Það er mjög stór viðskiptaaðili við Ísland, en það er ekki viðmiðunarhæft. Á meðan við erum ekki búnir að koma á okkar sovéti miðum við okkur ekki við Sovétríkin.
    Þetta getur orðið mjög erfitt í framkvæmd fyrir hæstv. ráðherra og ég hef fulla samúð með þessum mæta manni sem nú situr í því embætti að eiga að framkvæma svona lagaðar þvinganir og ég er sannfærður um, og ætla ekki að biðja hann samt um að svara því hér á eftir, að þær hugmyndir sem hér eru á blaði um frv. til l. um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands og í framkomnum minni hl. fjh.- og viðskn. eru ekki komnar frá hæstv. ráðherra. Ég

bið hann ekki um að svara þeirri samviskuspurningu. Ég vil honum ekki svo illt. Þetta er örugglega komið frá einhverjum öðrum sem ráða miklu í núv. hæstv. ríkisstjórn sem greinilega halda að þeir geti lokað Íslandi enn á ný eins og gert var á sínum tíma. Það mun ekki verða hægt.
    Síðan segir að draga skuli úr vaxtamun á milli inn- og útlána. Ég get verið sammála því markmiði út af fyrir sig að það þurfi að minnka þennan mun eftir því sem hægt er, en mér er ekki alveg ljóst hvernig á að komast að þeirri niðurstöðu að vaxtamunur í banka A skuli vera kannski 5--6% á sama tíma sem hann er kannski 7--8% hjá öðrum. Hugsanlega gæti það skeð, ég vek athygli ráðherrans á því, að einkabankar gætu í þeirri samkeppnisstöðu sem þeir eru í minnkað þetta vaxtabil mun meir en ríkisbankarnir sem eru helstu viðskiptabankar aðalútflutningsatvinnugreinanna. Það getur orðið mjög vandasamt og gæti komið mjög illa út og illa niður á ríkisbönkunum sem bera ábyrgðina á höfuðviðskiptunum við þær atvinnugreinar sem eiga hvað erfiðast uppdráttar þessa dagana sem er landbúnaður, sjávarútvegur, íslenskur fiskiðnaður. Ég er hræddur um að það sé verið að leiða hæstv. ráðherra í --- ég segi ekki dauðagildruna en ég held að það sé verið að leiða hæstv. ráðherra í alveg hrikalega gildru sem getur verið erfitt fyrir hann að komast út úr ef það verður sett í lög að hann skuli eiga að beita sér fyrir því að sjá um að hafa áhrif á vaxtamun milli inn- og útlána með þeim hætti sem mér virðist vera að stefnt samkvæmt frv. Ég tek fram að ég er því enn eindregið fylgjandi út af fyrir sig að í samkeppni sé reynt að minnka þennan vaxtamun sem mest þannig að vextir geti af þeirri ástæðu lækkað því að það er markmiðið með allri starfsemi banka- og peningastofnana að viðskiptavinirnir búi við sem best kjör.
    Þá er það eitt atriði sem hv. þm. Skúli Alexandersson vék að. Ég er ekki með þá blaðaúrklippu sem hv. þm. las upp úr, en það mun hafa verið blaðaúrklippa úr Morgunblaðinu þar sem vísað var til ummæla sem höfð eru eftir hæstv. forsrh. Steingrími Hermannssyni. Á sama tíma sem ríkisbankarnir eru að hækka vexti, Landsbankinn hækkar vextina um 2--6% en Búnaðarbankinn um 2--2*y1/2*y%, þá segir hæstv. forsrh. mjög einfaldlega, með leyfi forseta: Vil afnema verðtryggingu. Mér er nú spurn, en ég spyr með öðrum hætti en hv. þm. Skúli Alexandersson þar sem ég er stjórnarandstæðingur. Hann er stjórnarstuðningsmaður. Hvernig í ósköpunum stendur á því, ef þetta er ekki allt saman grín hjá hv. þm., ef hann vill í raun og veru og af einlægni vegna atvinnurekstrar í landinu, vegna erfiðleika heimilanna og vegna einstaklinganna, að hann notar ekki það afl sem hann hefur og knýr það í gegn að hæstv. ríkisstjórn framkvæmi það sem hæstv. forsrh. vill, þ.e. að afnema verðtrygginguna? Því miður hef ég ekki vald til þess þar sem ég er minnihlutamaður á þingi sem stendur að tryggja þessa framkvæmd hæstv. forsrh. En ég skora á hv. þm. Skúla Alexandersson að

beita sér fyrir því að hæstv. forsrh. komi með lagafrv. þessa efnis þannig að við getum fengið tækifæri til að fjalla um það í þinginu. ( Viðskrh.: Er þingmaðurinn að lýsa stuðningi við þetta?) Nei. Hugsanlega að því tilskildu að frelsið fái að ríkja á íslenskum
peningamarkaði, að aðrar hömlur verði þá afnumdar á frjálsu flæði peninga, íslensku peningakerfi. Þá kemur vel til greina að gera þetta. En sá er munurinn á okkur þingmönnum Sjálfstfl. annars vegar og hv. þm. sem styðja ríkisstjórnina að þeir segja við íslensku þjóðina: Við viljum gera þetta, við viljum gera hitt. Við viljum afnema verðtryggingu. Við viljum lækka vexti. Við viljum lækka verðlag. Ekki segjast þeir vilja hækka laun fólks. Það gera þeir ekki. En hvers vegna framkvæma þeir þetta ekki? Þeir hafa vald til þess. Annað eins hafið þið, hv. þm. og stjórnarstuðningsmenn, gert á hinu háa Alþingi í vetur og það að framkvæma þetta. Ég held að hv. þm. stjórnarinnar og stuðningsmenn Steingríms Hermannssonar ættu að hjálpa honum við að afnema verðtryggingu á lánum, sýna í verki að þeir séu menn. --- Og hættið þið þessu. Ég er ekki stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar. Ef hv. þm. Karl Steinar vill afnema aðrar hömlur á frjálsu peningakerfi á Íslandi skal ég taka þátt í því. Ef hv. þm. vill taka þátt í því með mér að láta fé lífeyrissjóðanna fara með frjálsum og eðlilegum hætti inn í íslenskt peningakerfi, inn í íslenskt bankakerfi, skal ég taka þátt í að framkvæma þá lækkun á vöxtum sem er hægt ef þetta er gert. En ég tek ekki þátt í því falsi, sem hv. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar iðka dag eftir dag, að segja við fólkið í landinu: Við skulum gera þetta og við skulum gera hitt fyrir ykkur, og framkvæma það svo ekki.
    Þá ætla ég að koma að öðru atriði vegna þess að hv. þm. og verkalýðsleiðtogi ( KP: Hver?) Karl Steinar greip fram í fyrir mér og ég vona að hann vilji taka þátt í því. Hann hefur áhrif. Hann hefur áhrif inn í ríkisstjórnina. Hann er stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar. Þið ráðið þessu, hv. þm. Þið ráðið því hvort hægt er að lækka vexti á Íslandi. Þið ráðið því hvort fé lífeyrissjóðanna fer inn í íslenskt bankakerfi og lækkar þar með vextina. Þið ráðið líka ef þið viljið hvort vísitalan sé tekin úr sambandi á þeim lánum sem eru í umferð. Þið skuluð þá standa við það, hv. þm. Skúli Alexandersson. Þið skuluð standa við það loforð sem hæstv. fjmrh. gaf og semja strax við fólkið um að kaupmáttur launa skuli vera hinn sami nú og hann var um síðustu áramót. Kannski hv. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafi ekki reiknað út enn þá hvað það þýðir í samningum eða þeir vilja kannski ekki heyra það. Hvað hindrar Alþýðusambandið, sem er undir forustu Alþb. og Alþfl., hvað hindrar ríkisstjórnina í því að semja við fólkið í landinu um 8% kauphækkun til að það fái sama kaupmátt og við síðustu áramót? Um hvað er deilt í þessum samningaviðræðum? Til hvers var farið í páskafrí? Semjið þið, ágætu herrar, um þau laun, um þann kaupmátt sem hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar lofuðu fólkinu. Ég ráðlegg hv. þm. úr verkalýðshreyfingunni sem því miður styðja þessa

ríkisstjórn og allt það böl sem fylgir henni gagnvart atvinnulífinu, gagnvart fólkinu, gagnvart heimilunum, gagnvart kaupmáttarskerðingunni. Ég ráðlegg allavega þeim þingmönnum sem eru í verkalýðshreyfingunni að fara varlega í að grípa fram í fyrir ræðumönnum í ræðustól hér á hinu háa Alþingi. Þá verður svarað á móti. Þið skuluð fá að standa fyrir máli ykkar gagnvart fólkinu víðar en hér. (Gripið fram í.)
    Virðulegi forseti. Ég hef vakið athygli þessara ágætu þingmanna á því, sem eru meðal áhrifamestu forustumanna í verkalýðshreyfingunni á Íslandi í dag, stjórna stórum verkalýðsfélögum, sitja í miðstjórn Alþýðusambandsins, að þeir geta beitt sér fyrir því að opinberir starfsmenn geti fengið nú þegar tryggðan kaupmátt launa í samræmi við loforð hæstv. fjmrh. um að kaupmátturinn skyldi verða hinn sami strax í samningum og var um síðustu áramót, þ.e. 8% hækkun geti komið til framkvæmda. Ég hef vakið athygli þessara hv. þm. líka á því að þeir geta með sínum atkvæðum á hinu háa Alþingi staðið við það, sem hæstv. forsrh. klifar á sýknt og heilagt, að hann vilji taka lánskjaravísitöluna úr sambandi. Viljið þið nú ekki, hv. tveir þingmenn, skoða hvort þið viljið ekki taka þátt í þessu verki með hæstv. forsrh.? Þá skuluð þið láta hæstv. forsrh. vita það, ég sá að hv. þm. hristi höfuðið, að hann geti sparað sér svona ummæli, sparað sér svona blekkingar, sparað sér þær ferðir í sjónvarpið sem hann hefur farið í vetur með yfirlýsingum sem eru þá ekki marktækar. ( KP: Vill ræðumaður taka þátt í slíku?) Ég sagði það, hv. þm. Karvel Pálmason, að ef þið eruð reiðubúnir að taka þátt í því með mér og sjálfstæðismönnum öðrum sem vilja hafa frjálst peningakerfi á Íslandi og nema úr gildi þau lög sem koma í veg fyrir það, þá skal ég taka þátt í því að taka verðtrygginguna úr sambandi. Mín yfirlýsing felst í því að ég hef forsendur fyrir því hvernig ætti að framkvæma það, en það hefur hæstv. forsrh. ekki. Hann er með fullyrðingar án rökstuðnings, án skuldbindinga. Ég hef gefið bindandi yfirlýsingu um að ég sé reiðubúinn að gera það að gefnum ákveðnum forsendum og ég treysti hv. þm., sérstaklega tveimur heiðursmönnum úr verkalýðshreyfingunni, hv. þm. Karvel Pálmasyni og Karli Steinari. Við skulum gera það þannig að forsrh. þurfi ekki að vera ómerkingur oftar í íslenskum fjölmiðlum eins og hann er búinn að vera út af þessu máli, því miður, meira og minna síðan sl. sumar.
    Virðulegi forseti. Ræðan er orðin lengri en ég gerði ráð fyrir og hef ég komið víða við. Ég ítreka það og endurtek að það er alrangt að leggja þessi
mál þannig fyrir, það er alrangt að koma með frv. inn á Alþingi sem fela það í sér að miðstýra þeim litla hluta íslensks peningakerfis sem enn er frjáls með þeim hætti sem þetta frv. býður upp á. Ég hef samúð með hæstv. bankamálaráðherra að þurfa að standa að frv. vegna stjórnarsamstarfsins vegna þess að ég veit að hann með sína góðu hagfræðiþekkingu veit að þetta er illframkvæmanlegt. Ég tel mig vita það líka að hann hefur ekki mikinn áhuga fyrir því að framkvæma það. En það sem skiptir máli er að gera

sér grein fyrir því að ein meginástæðan fyrir því hvernig komið er og hvers vegna vextir eru svona háir, hvers vegna það hvílir svo þungt á atvinnuvegunum, er sú staðreynd að opinber innheimta, þ.e. ríkiskerfið, ríkisgeirinn, hið opinbera tekur of stóran hluta af þjóðartekjunum, þrengir um of að atvinnuvegunum, að einstaklingunum, að heimilunum. Skattar og opinber gjöld eru allt of stór hluti fyrir þetta litla þjóðarbú. Þegar þar við bætist að við erum núna í samdráttartímabili hvað þjóðartekjur áhrærir er þetta mun erfiðara viðureignar og það endurspeglast á íslenskum peningamarkaði. Það er samdrátturinn í þjóðartekjunum sem kemur einnig til skjalanna í sambandi við þá erfiðleika sem hér um ræðir.
    Virðulegi forseti. Ég tel að þetta frv. muni því miður gera stöðu einstaklinga og fyrirtækja enn verri. Ég tel að frv., verði það samþykkt, muni þrengja enn meira að hinum svokallaða frjálsa fjármagnsmarkaði á Íslandi með þar af leiðandi neikvæðum áhrifum. Ég harma fyrir mitt leyti að hæstv. viðskrh. skuli þurfa að standa að frv. sem þessu með þeim brtt. sem hér liggja fyrir og vænti þess að deildin felli þessar tillögur og frv. í heild.