Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Frsm. 3. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég saknaði þess að hæstv. viðskrh. skyldi ekki tala meira um þá hluti sem máli skiptu í sinni ræðu en um hin atriðin sem léttvægari eru. Sérstaklega þótti mér eftirtektarvert hversu lipurlega og léttilega ráðherrann svaraði þeirri gagnrýni sem til hans hefur verið beint bæði frá dr. Guðmundi Magnússyni prófessor og eins frá Seðlabankanum. Ég hygg að þeirri gagnrýni prófessorsins sé ósvarað sem lýsir sér í þeim orðum að það sé broslegt þegar fram koma hugmyndir um að leysa efnahagsvanda ríkissjóðs með skattlagningu á tekjur og yfirdrætti ríkissjóðs í Seðlabankanum eða aðrar sértekjur hans eins og innheimt viðurlög. Prófessorinn segir að í fyrra tilvikinu væri ríkissjóður að útvega sér afslátt á vöxtum til að fela raunverulegan kostnað við hallarekstur. Í báðum tilvikunum sé verið að útþynna stjórn peningamála eins og nánar mun vikið að, segir í greininni. Auðvitað vitum við að þessi gagnrýni prófessorsins er réttmæt. Það liggur fyrir að ríkissjóður verður rekinn með verulegum halla á þessu ári. Ríkisstjórnin var búin að ganga svo langt í skattheimtu að hún treysti sér ekki til að ganga lengra vegna hins lága atvinnustigs sem hér er og vegna þess að margvíslegar nauðþurftir voru hækkaðar mjög verulega með ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar um áramótin. Þess vegna er gripið til þessarar nýju skattheimtu til að ná inn aukatekjum og mæta þannig þeim sérstöku vandamálum sem ríkisstjórnin á nú við að glíma.
    Ég hlýt líka að segja að næsta broslegt er þegar hæstv. ráðherra líkir því saman að efnisinnihald þeirra greina sem við erum að fjalla um í brtt. og frv. sé sambærilegt, þegar hann enn er að reyna að halda sig við það að orðið ,,hóflegur`` skipti máli í lagatexta en viðurkennir þó í hinu orðinu að auðvitað verði að hafa huglægt mat á því hvað ,,hóflegur`` þýðir og vekur síðan athygli á því síðar í sínu máli að Seðlabankinn hafi ekki treyst sér til að útskýra hvað felist í orðinu ,,óhæfilegur vaxtamunur`` sem kemur fyrir í þessari sömu grein. Auðvitað á Seðlabankinn erfitt með að útskýra hvað er óhæfilegur vaxtamunur. Með sama hætti vafðist það fyrir hæstv. ráðherra að útskýra hvað hann ætti við með orðinu ,,hóflegur`` því að auðvitað gat hann ekki upplýst þingheim neitt um það atriði. Ég tek það því ekki aftur að það er hálfgert orðakonfekt, eins og formaður Alþfl. sagði einu sinni af öðru tilefni, að skjóta þessu orði hér inn.
    Ég vil líka vekja athygli á því að það er ekki aðeins hv. 2. þm. Norðurl. e. sem hefur haldið því fram að hin nýja regla sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv. komi sér illa fyrir þá banka sem sinna útflutningsatvinnuvegunum heldur er það sú niðurstaða sem Útvegsbankinn hefur komist að eins og Landsbankinn. Á hinn bóginn koma einstakir mánuðir misjafnlega út hjá Búnaðarbankanum, en um aðra banka er naumast að ræða þegar verið er að tala um veruleg lán til útflutningsatvinnuvega. Þær upplýsingar sem liggja fyrir benda til þess að þessi breyting sé

ekki til hagsbóta fyrir þá banka sem þjónusta útflutningsatvinnuvegina. Ef hæstv. viðskrh. hefur um það einhver fyllri eða betri gögn er fróðlegt að fá að sjá þau. Ég vona að nefndarmenn meiri hlutans hafi kynnt hæstv. viðskrh. þau plögg sem nefndinni bárust varðandi þessi atriði. A.m.k. liggur ljóst fyrir að yfir nefndinni vakti sérstakur fulltrúi ráðherra sem kom ofan úr ráðuneyti og maður hlýtur að ætla að hann hafi kynnt ráðherranum þessi gögn. Ef hæstv. ráðherra hefur einhverjar fyllri upplýsingar en þessar væri gott og fróðlegt að sjá þær. Hitt liggur fyrir, sem Iðnaðarbankinn hélt fram, að ef markmið ríkisstjórnarinnar væri að hygla sérstaklega þeim bönkum sem þjónuðu útflutningsgreinum væri erfitt að sjá hvernig það gæti farið heim og saman við hina fullyrðinguna, að með þessari frvgr. væri verið að jafna starfsskilyrði innlánsstofnana, ef tilgangurinn var augljóslega hinn, að mismuna einstökum bönkum. Það getur vel verið að það hafi verið nauðsynlegt að mati ráðherrans að mismuna bönkunum og þá er að segja það. En hann getur ekki gert hvort tveggja, jafnað aðstöðuna og mismunað þeim. Um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð.
    En það er tvennt sem ég vil vekja athygli á í málflutningi ráðherra. Hann sagði fyrst í ræðu sinni að enn væri góður hagur í rekstri bankanna þótt farið væri að halla undan fæti hjá atvinnuvegunum, en tók sig svo á síðar í ræðu sinni og viðurkenndi þá að rekstrarafkoma bankanna er allt önnur og miklu verri en á sl. ári. Ég hygg að sumir viðskiptabankanna hafi tapað verulegum fjárhæðum. Þetta er m.a. og kannski eingöngu vegna þess að verðbólgan sem verið hefur í landinu mjög mikil, 30% verðbólga, hefur á skiptikjarareikningum komið þannig við bankana að þeir hafa tapað miklum fjárhæðum á meðan reynt er að halda nafnvöxtum niðri. Þess vegna er það að bankarnir hafa neyðst til þess í þessum mánuði að hækka nafnvextina verulega, enda er það í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 6. febr. 1989 um peninga- og vaxtamál en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Seðlabankanum er í samráði við viðskrn. falið að veita nafnvöxtum lánastofnana sérstakt aðhald á umþóttunartímabili í kjölfar verðstöðvunar þannig að samræmi verði milli raunávöxtunar verðtryggðra og óverðtryggðra lánssamninga.``
    Ég hygg, herra forseti, að rétt sé að gefa kaffihlé á fundinum þannig að
hægt sé að halda umræðum áfram með eðlilegum hætti. Ég sé ekki að það sé tilefni fyrir mig að halda áfram ræðu minni á meðan ég hef ekki hæstv. ráðherra nærstaddan. Ég vil líka óska eftir því að annaðhvort hæstv. forsrh. eða varamaður hans, hæstv. sjútvrh., séu viðstaddir. Sú skýring var gefin hér í dag að hæstv. forsrh. væri vant við látinn, væri að fylgja forsetanum yfir Íslandi á flugvöll og eru það auðvitað lögleg forföll. Á hinn bóginn svaraði hæstv. viðskrh. ekki mjög skýrum spurningum sem til hans var beint og jafnframt lét ég þess getið að ég óskaði eftir því að fá hér forsrh. til að svara þeim. Ég vona að herra

forseti fari ekki að þreyta einstaka þingmenn með því að sýna þá bersýnilegu ósanngirni að ... ( Forseti: Hæstv. viðskrh. er ekki í salnum.) Ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. gangi líka í salinn. ( Forseti: Ég hef óskað eftir því líka.) Alveg ljómandi.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem ber yfirskriftina ,,Samþykkt ríkisstjórnarinnar 6. febrúar 1989 um peninga- og vaxtamál``, segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Seðlabankanum er í samráði við viðskrn. falið að veita nafnvöxtum lánastofnana sérstakt aðhald á umþóttunartímabili í kjölfar verðstöðvunar þannig að samræmi verði milli raunávöxtunar verðtryggðra og óverðtryggðra lánssamninga.``
    Ég tel nauðsynlegt vegna ummæla sem hæstv. forsrh. hefur viðhaft í dagblöðunum í dag, m.a. í Tímanum og Morgunblaðinu, að fá það upplýst hér við umræðuna frá hæstv. viðskrh. hvort þessi yfirlýsing sé enn í gildi og eins frá hæstv. sjútvrh. hvort þessi yfirlýsing sé enn í gildi.
    Það mætti kannski segja miklu fremur: Var í huga þessara tveggja ráðherra þessi yfirlýsing nokkurn tíma í gildi? Það liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur kallað til sín bankaráðsmenn sem fylgja ríkisstjórninni að málum til að reyna að hafa þau áhrif á bankaráðsmennina að þeir höguðu sér ekki í samræmi við þau orð sem ég hef verið hér að lesa upp.
    Jafnframt vekur það athygli að hæstv. forsrh. segir í Tímanum í dag, með leyfi forseta: ,,,,Ég er í vaxandi mæli þeirrar skoðunar að á meðan við höfum verðtryggingu á innlánum og þau eru að mestu á 3,5% vöxtum að auki og á sama tíma horfum við á óhagstæðar rekstrareiningar bankanna sem kalla á mikinn vaxtamun, þá ráðum við seint við þessi mál fyrr en verðtrygging hefur verið afnumin,,, sagði Steingrímur Hermannsson. Sagði hann þessar hækkanir mikil vonbrigði fyrir sig. Taldi hann að bankarnir hefðu vel mátt þola verðbólgusveiflu þá tvo mánuði sem útlit var fyrir að hún varaði. ,,Það eru mér mikil vonbrigði að bankarnir sjái sér ekki annað fært en að hækka vexti og það sýnir okkur það að við verðum að taka á þessum málum á annan og miklu ákveðnari hátt,,, sagði hann. Staðfesti hann síðan að um leið og breytingar við seðlabankalögin fáist samþykktar á Alþingi muni forsrh. beita sér fyrir hertari aðgerðum á hendur viðskiptabönkum í vaxtafrelsi þeirra.
    Í frv. því sem nú liggur fyrir Alþingi felst að heimildir Seðlabanka eru rýmkaðar til muna og er gert ráð fyrir því að bankinn geti bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana að fengnu samþykki ráðherra og einnig komið í veg fyrir að munur innlánsvaxta og útlánsvaxta verði óhóflegur.``
    Mér finnst nú, herra forseti, miklu æskilegra að hæstv. forsrh. svari sjálfur úr því hann er kominn í salinn en sjútvrh. og óska eftir því að hann svari við umræðurnar þeirri einföldu spurningu hvað hann meinti með því sem stendur í Tímanum í dag. Ég get þá vikið að öðru á meðan á þessu stendur.
    Það er annars svolítið spaugilegt þegar maður sér uppsláttinn í Tímanum og hversu vel hann tekur sig út, hæstv. forsrh., á forsíðunni --- ,,Stutt í hertar

aðgerðir í bönkunum`` er yfirfyrirsögnin --- að lesa það sem segir í riti sem hefur verið gaukað að mér, ekki svo að skilja að ég sé áskrifandi að ritinu, og heitir ,,Fréttabréf um verðbréfaviðskipti`` og síðan stendur ,,Verðbréfaviðskipti Samvinnubankans, 3. tbl. 3. árg., mars 1989``. Þar stendur um stefnu ríkisstjórnarinnar, með leyfi hæstv. forseta: ,,Maður fær það á tilfinninguna að verið sé að villa um fyrir lesandanum á ýmsan hátt. Látið er í veðri vaka að Seðlabankinn geti lækkað raunvexti með sölu á spariskírteinum ríkissjóðs gegn 5% raunvöxtum óháð verðbólgu og væntingum fólks. Ríkissjóður getur auðvitað náð þessu markmiði fyrir sitt leyti með því að gefa út skírteini sem seljast ekki. Raunvextir lækka hins vegar ekki fremur en verðbólga með einfaldri ríkisstjórnarsamþykkt. Það er verið að ruglast á orsök og afleiðingu og finna sökudólga í lánastofnunum og Seðlabanka fyrir háum raunvöxtum. Til þess að raunvextir lækki þarf að snúa dæminu við. Það verður að byrja á því að ákveða fjárlög og áætla erlendar lántökur og peningaframboð í landinu í heild með tilliti til þess að heildareftirspurn í þjóðfélaginu sé í samræmi við heildarframboð þannig að ákveðnu markmiði í verðlagsmálum sé náð. Þetta gerist með því að breyta peningaframboði af hálfu Seðlabankans með reglum um bindiskyldu og lausafjárhlutfall og með sölu spariskírteina við þeim vöxtum sem það þarf til þess að ná tilteknu sölumarkmiði. Á venjulegum markaði getur fyrirtæki annaðhvort ákveðið verð vöru sinnar eða það magn sem það vill selja á tilteknu verði. Þegar bæði verð og magn er ákveðið er nánast um tilboð að ræða fremur en markaðsstarfsemi. En það er einmitt þess vegna sem svo
mörgum stjórnmálamönnum er illa við markaðinn. Það er erfitt fyrir þá að ráða yfir honum eða ákveða með lögum að hann skuli láta að vilja þeirra.``
    Þetta stendur í ,,verðbréfaviðskiptum`` Samvinnubankans. Nú er oft gert samasemmerki á milli samvinnuhreyfingarinnar og Framsfl. og þetta er eftirtektarvert. Þetta er kannski verri hliðin á Framsfl. Ekki skal ég um það segja. En af því að hæstv. forsrh. er kominn í salinn vil ég varpa þeirri spurningu til hans hvort hann sé sammála þeirri yfirlýsingu hæstv. viðskrh. að það hafi engin ákvörðun verið um það tekin að beita þeim heimildum sem hér liggja fyrir um að Seðlabankinn grípi inn í vaxtaþróun. Það er nauðsynlegt að fá um þetta skýr svör. Jafnframt hliðraði hæstv. viðskrh. sér við því að svara þeirri spurningu hvort hann væri sammála því að leggja niður lánskjaravísitölu. Það væri fróðlegt að fá í þingtíðindin hvert er viðhorf hæstv. forsrh. til þessa.
    Ég sé að hæstv. viðskrh. hefur tekið forsrh. inn í hliðarherbergið til að passa upp á að hann tali rétt og varlega. Það er auðvitað ekki gott ef menn svara út úr pokanum það sem þeim finnst. Það er ekki gott.
    En það voru fleiri en ég sem spurðu hæstv. viðskrh. þeirrar spurningar hvort hann vildi afnema lánskjaravísitöluna eða ekki og hefur engu verið um það svarað.

    Ég vil jafnframt spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji að þegar í stað verði gripið til þeirra heimilda sem felast í brtt. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. um seðlabankalögin, hvort það eigi að handstýra vöxtunum nú í marsmánuði og reyna að keyra frv. fram fyrir hátíðar til þess að svo megi verða.
    Ég hef, herra forseti, rétt til að tala þrisvar sinnum við þessa umræðu og kýs að stytta mál mitt til að gefa hæstv. forsrh. tækifæri til að svara þessum fyrirspurnum.