Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Frsm. 3. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að hann svaraði með sínum hætti þeim fyrirspurnum sem ég beindi til hans. Það er alveg ljóst að hann svarar öðruvísi hér á Alþingi spurningunni um hvort hann vilji afnema lánskjaravísitöluna en úti í bæ. Það er alveg augljóst mál. Hann lætur svo í blöðum sem hann sé bara að hugsa um það undir eins að afnema lánskjaravísitöluna. Hann talar um það nú, eins og úti í bæ raunar líka, að lánskjaravísitalan sé helsti bölvaldur þjóðarinnar og nú áðan talaði hann um að svo mætti vel vera að hagnaður banka og innlánsstofnana á síðasta ári hafi verið óeðlilega mikill þvert ofan í það sem hæstv. viðskrh. sagði í sinni ræðu áðan. Það væri nú fróðlegt við annað tækifæri að spyrja þessa tvo hæstv. ráðherra út úr um það atriði eða þá kannski hæstv. forseti vildi í matarhléinu spila fyrir forsrh. það sem viðskrh. sagði áðan um stöðu innlánsstofnana.
    Ég skal ekki fara út í það. Þeir geta talað um það á ríkisstjórnarfundi fyrir mér. En hitt liggur nú fyrir sem ég ekki vissi að hæstv. viðskrh. er búinn að gera áætlun um lækkun vaxta sem Seðlabankanum verður falið að beita sér fyrir. Hæstv. forsrh. talaði með þeim hætti að óhjákvæmilegt er að skýra orð hans svo að þessi brtt. við seðlabankafrv. sé liður í þeirri áætlun til þess að gera þá áætlun mögulega. Ég spurði hæstv. viðskrh. áðan hvort hann hefði í hyggju að beita sér fyrir því að vextir af innlánsfé í bönkum og sparisjóðum yrðu neikvæðir undir verðbólguhraðanum, sú regla yrði almennt tekin upp. Hann svaraði því ekki einu einasta orði. En eins og hæstv. forsrh. hefur talað í blöðum og áðan verður ekki annað lesið milli línanna en þeir hafi komið sér saman um það, ráðherrarnir í ríkisstjórninni, að beita þeim ákvæðum sem hér er talað um til hins ýtrasta nema hægt verði að fá viðskiptabankana og þá einstaka verðbréfasjóði til að færa vaxtakröfuna undir verðbólgu í landinu. En þá er spurningin: Hver bjó til þessa verðbólgu? Varð verðbólgan til af sjálfu sér? Og hvernig er þetta jafnvægi sem hæstv. forsrh. er að tala um? Hvar er jafnvægið? Hefur hæstv. forsrh. svarað því og vill hann svara því hér núna til að reyna að koma á jöfnuði á peningamarkaðnum hvernig brugðist verður við í maímánuði þegar það fé sem nú er í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins verður gengið til þurrðar, þegar það fé sem sjávarútvegurinn fékk og kallað er ,,endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti`` hefur gengið til þurrðar? Treystir hæstv. forsrh. sér til að lýsa því yfir núna að frekari erlend lán verði tekin í maímánuði til að halda áfram millifærslunum til sjávarútvegsins? Er það hugmyndin? Er hugmyndin að reyna að halda verðbólgustiginu niðri með þeim hætti eða er hugmyndin sú að ríkisstjórn hans felli gengið í fimmta skiptið nú í maímánuði til að tryggja afrakstur sjávarútvegsins? Það mundi kyrra lánamarkaðinn og það mundi valda meiri stöðugleika í efnahagslífinu ef menn gætu áttað sig á því hver væri stefna ríkisstjórnarinnar svo sem 2--3 mánuði

fram í tímann í atvinnumálum.
    Ekki vill hæstv. forsrh. svara því a.m.k. þar sem hann stendur með jái eða neii hvort hann ætli að fella gengið í maímánuði. Sjútvrh. heyrir líka hvað ég segi og væri fróðlegt að vita hvað hann hefur í pokahorninu fyrir frystiiðnaðinn í maímánuði --- nema kannski þetta bjargist af sjálfu sér. Var það ekki svo um Magnús sálarháska? Lifði hann ekki á guðsblessun á sínum tíma og dafnaði vel? Ég veit ekki hvort útvegirnir geta til lengdar framfleytt sér á blessun ríkisstjórnarinnar þó að hún sé kannski mikil.
    Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. um þessa áætlun um lækkun vaxta sem hæstv. forsrh. gat um. Í fyrsta lagi hæstv. viðskrh.: Er þessi áætlun til? (Gripið fram í.) Er áætlun um lækkun vaxta til, sú áætlun sem hæstv. forsrh. talaði um? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fá svar við þessu þegar verið er að tala um sérstakar heimildir til Seðlabankans til að hafa íhlutun ekki aðeins í bankana heldur líka í verðbréfasjóðina. Er þessi áætlun til? Það er hægt að svara þessu með jái eða nei. Eða er þetta eitthvert feluplagg? ( Viðskrh.: Nei, að sjálfsögðu ekki.) Er hún til? ( Viðskrh.: Hún var í meginlínum kynnt 6. febrúar.) Hún var ekki í meginlínum kynnt 6. febrúar vegna þess að hæstv. forsrh. hefur þrásinnis talað gegn því ákvæði þeirrar yfirlýsingar sem fjallar um að það skuli vera samræmi milli nafnvaxta og vaxta af verðtryggðum skuldabréfum. ( EgJ: Forsrh. var að segja að hún væri í smíðum.) Nú, tók ég rangt eftir? Er hún í smíðum? ( EgJ: Já.) Jahá. Ég biðst afsökunar að hafa tekið svo rangt eftir, en ég spyr enn: Er þar gert ráð fyrir því að þar verði raunvextir? ( Viðskrh.: Á spariinnlánum.) Það er gert ráð fyrir því að það verði raunvextir á bankainnistæðum. Líka á almennu sparisjóðsbókinni? Á hún að vera með raunvöxtum? Hún hefur ekki verið það undanfarnar vikur og mánuði og þó er talað um að bankarnir hafi óhæfilega háa nafnvexti. Hún hefur ekki náð verðbólgunni. Það má þá vera að í þessari sérstöku áætlun sem verið er að tala um felist hækkun vaxta eftir allt saman þvert ofan í það sem hæstv. forsrh. var að segja.
    Ég sé ekki að það sé ástæða til að tala lengur um það sem kom fram hjá hæstv. viðskrh. Hann hliðraði sér við því að tala um þau mál sem mestu skipta. Í fyrsta lagi kom ekkert fram í ræðu hans sem hnekkir þeirri fullyrðingu
viðskiptabankanna að breytingin á reglunum um bindiféð sé til óhagræðis fyrir þá banka sem þjóna útflutningsatvinnuvegunum. Í annan stað svaraði hann þannig spurningum mínum um 9. gr. að ekki er auðvelt að skýra hvað fyrir honum vaki. Ég spurði áðan skýrt um það hvort hugmynd hans og Seðlabankans væri sú að það yrði sett sérstakt þak á þá vexti og þá ávöxtun sem mætti taka af því sem kallað er þriðja manns pappírar og hef ekki fengið svar við því. Ég hygg þó að nauðsynlegt sé að fá svar við því. Er það hugmyndin með þessari grein að það sem kallað hefur verið þriðja manns pappírar falli undir hana? Að verðbréf frá þriðja aðila skuli sæta almennum ávöxtunarreglum frá Seðlabankanum? Er

það hugmyndin? Er hugmyndin að hverfa aftur til þess ástands sem var áður en vaxtafrelsið var veitt eða er hugmyndin að ganga enn lengra? Ekkert um það. Svo segir hæstv. viðskrh. að hugmyndin sé sú og hugur hans standi til þess að hingað komi erlendir bankar. Hann er að tala um það að hann vilji endilega hjálpa til við það að minnka vaxtamuninn. Og hann er að tala um það að hann vilji og skilji nauðsyn þess að viðskiptabankarnir séu reknir með góðri afkomu og góðum hagnaði. En svo einfaldri spurningu eins og þeirri hvernig farið verður með þriðja manns pappíra ef þessi grein verður að lögum er ósvarað.
    Ég ítreka það sem ég sagði áður, herra forseti, að því leyti sem þetta frv. hefur merkingu, þá er það aftur í tímann og til hins verra en hitt verður að viðurkenna að sumar greinar í frv. eru skaðlausar og skiptir þá auðvitað ekki máli hvort sagt er já eða nei við þeim.