Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Þar sem hæstv. forsrh. er nú mættur hér --- og hefði nú verið betra að hann hefði getað hlustað á umræðurnar hér í dag --- þá vil ég að gefnu tilefni upplýsa hann nokkuð um þau atriði sem komu fram í umræðunni og skýra vel stöðu þeirra banka sem hafa verið að skila reikningum fyrir árið 1988. Mér finnst það nauðsynlegt þar sem ég skrifaði niður hjá mér það sem hæstv. viðskrh. sagði í sambandi við það, en mér skilst oft á hæstv. forsrh. að þarna séu okrararnir og þeir sem fara illa að fólkinu með því að leggja óeðlilega vexti á almenning. Varðandi stöðu bankanna sagði hæstv. viðskrh. orðrétt í umræðunni fyrr í dag:
    ,,Þessar hagnaðartölur,,, þ.e. hagnaðartölur bankanna fyrir árið 1988, ,,eru það sem þarf til að tryggja stöðu þeirra í samræmi við landslög þannig að þeir fullnægi þeim skuldbindingum sem lög kveða á um.`` Og einnig bætti hæstv. ráðherra við, ef ég man það rétt, ég skrifaði það ekki hjá mér, að þetta væri veigamikið atriði til að tryggja stöðu innstæðueigenda. Hæstv. viðskrh. lagði mikið upp úr því, sem er auðvitað rétt, að það þyrfti að vernda og verja og styrkja stöðu innstæðueigenda. Það væri grundvallaratriði fyrir íslenskt efnahagslíf. Því miður mun sú staða ekki vera jafngóð í dag og hún var fyrir þremur til fjórum mánuðum. Eftir því sem best er vitað mun allur frjáls sparnaður fara hraðminnkandi dag frá degi. Má eiginlega segja að eftir því sem næst verður komist sé um algjöra stöðnun að ræða í bankakerfinu hvað varðar hinn frjálsa sparnað.
    Þetta taldi ég nauðsynlegt að kæmi fram vegna hæstv. forsrh. þannig að hann vissi um það hvað hér hefði fram farið og hver væri skoðun hæstv. bankamálaráðherra á því efni sem lýtur að einkabönkunum og þessum hagnaði þeirra. Hann er nú ekki meiri en svo að hann gerir lítið betur en að tryggja stöðu þeirra og tryggja það að þeir standist þau lagaákvæði um eiginfjárstöðu og fleira.
    Varðandi lánskjaravísitöluna, sem hér var einnig mikið til umræðu í dag --- og hæstv. forsrh. gat því miður ekki verið viðstaddur þar sem hann hafði öðrum skyldum að gegna sem við hv. þm. auðvitað skiljum --- þá vil ég segja þetta: Ég er ekki fullkomlega sáttur við það að jafnágætur maður og hæstv. forsrh. raunverulega er skuli tala jafnóvarlega um lánskjaravísitöluna eins og hann gerir í fjölmiðlum. Ég tek undir þau orð hv. þm. Halldórs Blöndals að hann talar hér með allt öðrum hætti um þessi mál en hann gerir í fjölmiðlum. Hér talar hann raunverulega eins og við gerum öll þegar við fjöllum um þetta mál. Við gerum okkur öll grein fyrir því að það að komast út úr lánskjaravísitölukerfinu, sem ég get tekið undir að sé mjög æskilegt markmið, er ekki eins auðvelt og fljótt á litið má ætla þegar menn koma utan að þessu. Það er rétt sem hæstv. forsrh. sagði --- og ég vildi óska þess að hann tæki það fram oftar, hann hefur að vísu gert það, ég tek það fram --- hann undirstrikaði það að þegar jafnvægi er komið á peningamál í íslensku peningakerfi þá er auðvitað

meira en sjálfsagt, þá eru raunverulega forsendur fyrir lánskjaravísitölu brostnar eða horfnar réttara sagt. Það er því auðvitað tómt mál að tala um þetta svona eins og hæstv. forsrh. gerir of oft. Hann segir að þetta verði unnið svo fljótt sem auðið er. Þá verður einnig að koma með þær forsendur sem hann byggir á og einnig verður hann að skýra betur en gert hefur verið hvað hann á við þegar hann segir að vísitalan verði afnumin svo fljótt sem auðið er.
    Þetta með jafnvægið, ég skil það þannig að þegar verðbólgan er komin niður fyrir 10% þá sé kominn sá jafnvægispunktur sem menn stefna að og er það dálítið í samræmi við það sem tíðkast erlendis í sambandi við vaxtanívó og vextir eru þar á bilinu 8--10--11%. Ég vil því láta það koma skýrt fram hér í umræðunni þannig að forsrh. þurfi ekki einn að vera að tjá sig um þetta efni að við sjálfstæðismenn erum að sjálfsögðu reiðubúnir til þess og viljum gjarnan, og meira en gjarnan, við viljum stuðla að því að lánskjaravísitalan verði ekki notuð sem viðmiðunarmælikvarði. En þá þarf tvennt að vera fyrir hendi. Það er ekki nóg að það sé komið svokallað jafnvægi sem miðast við reikult vaxtanívó því að vextir geta breyst þó að lánskjaravísitalan sé tekin úr sambandi. Þá viljum við einnig leggja áherslu á það, og ég vona að hæstv. forsrh. sé sammála því, að þá verður líka að gefa peningakerfið frjálst, þ.e. þá verður að afnema ákveðnar þvinganir sem eru á frjálsum viðskiptum með peninga innan íslensks efnahagslífs. Á ég þar sérstaklega við það að aðilar sem geta haft veruleg áhrif á vaxtanívóið, sem eru lífeyrissjóðirnir, geti þá komið inn á þennan markað og inn í bankana, inn í þessar fjármálastofnanir sem bera höfuðábyrgð á íslenskum peningakjörum, með eðlilegum hætti. Og þá er ég sannfærður um það að við mundum ná því markmiði, sem ég veit að forsrh. stefnir að, að koma vöxtunum niður. Þetta er hlutur í því að tryggja það jafnvægi sem hæstv. forsrh. er stundum að tala um. Ég undirstrika því að það er vilji okkar sjálfstæðismanna að lánskjaravísitalan verði ekki samtengd með þeim hætti sem verið hefur undanfarin ár, en það verða þá að vera fyrir hendi réttar forsendur sem tryggja framkvæmd þess máls.
    Ég vil einnig taka undir það sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði og varpa fram þeirri spurningu, og ætla ekki að fara út í það í löngu máli að ræða það, að auðvitað verða menn að fjalla um það með öðrum hætti heldur en bara tala um vexti og peninga, þó að það sé mikilvægt, hverjir hafa búið til verðbólguna á Íslandi. Ég vil segja það sem mína skoðun að það voru ekki sparifjáreigendur og það voru ekki framkvæmdaraðilar í atvinnulífinu. Ætli það sé ekki frekar það opinbera sukk sem ýmsir stjórnmálamenn bera ábyrgð á. Síðan verðum við náttúrlega að viðurkenna það og taka það með í reikninginn að góðu árin 1985--1987 ríkti hér eyðslustefna á öllum sviðum. Það var öllu eytt. Þetta hafði auðvitað sín áhrif í þá átt að spenna hér allt upp, spenna upp bæði verð á vörum og þjónustu sem og verðlag á peningum. Því miður. En því miður var eyðslustefnan

einnig mikil hjá ríkinu og kannski hefur hún verið hvað mest þar, jafnvel miklu meiri en hjá öllum almenningi.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, segja það að menn eiga að láta af því að vera með óbeinar, ég vil kalla skipulegar árásir á þá sem hafa sýnt sparnað og ráðdeildarsemi og þar á ég sérstaklega við sparifjáreigendur og lífeyrissjóðsfélaga. Það er mál að linni í þeim efnum. Þetta fólk sem hefur verið að reyna að leggja fyrir til elliáranna af ráðdeildarsemi á það ekki skilið að fjallað sé um þennan þátt vandamálanna í íslensku þjóðlífi sem peningakerfið er og spariféð með þeim hætti sem gert hefur verið. Og við megum heldur ekki tala þannig um þessi mál að þau, ég vil segja þau öryggisatriði sem eru mikilvæg til að tryggja það að þetta fjármagn fái eðlilega vexti --- ég er sammála því sem kom fram hjá hæstv. viðskrh. í ræðu hans hér áðan þegar hann svaraði okkur hv. þm. að raunvextir verða að vera í hófi. Þeir hafa farið of hátt upp, undir það skal tekið, en það er ekki einfarið þeim að kenna sem hafa fjallað um peningamál í íslensku efnahagslífi á undangengnum árum.