Viðskiptabankar
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins koma hér upp og ítreka það sem hv. 6. þm. Reykn. Júlíus Sólnes sagði um frv. um Seðlabankann sem var hér fyrr til umræðu. Hann ræddi að nokkru þetta frv. í því sambandi og tjáði skoðun Borgfl. á því. Í máli hans kom fram að við gætum að flestu leyti fallist á frv. eins og það lítur út, en þó gerum við fyrirvara við 2. gr. þess þar sem kemur fram að bankaráð ákveði alla vexti sem bankarnir taka. Ég tel þetta vera mjög óhentugt, aðallega með tilliti til þess að bankaráðin eru mjög lítið inni í einstökum málum bankanna og sjá ekki nema að litlu leyti um daglegan rekstur þeirra. Það eru bankastjórarnir, deildarstjórarnir í bönkunum sem sjá þörfina en ekki bankaráðin. Að hafa ákvörðunarvaldið í höndum bankaráðanna er að opna leið fyrir ríkisstjórnina til að skipta sér beint af vaxtaákvörðunum. Það má að vissu leyti segja að ríkisvaldið eigi að hafa visst hlutverk eða eigi að geta skipt sér af þessu, en þá erum við að mínu mati komnir út fyrir þá verkaskiptingu sem bankalögin gera ráð fyrir, að bankarnir eigi að ákveða þetta sjálfir. Það var meginhugsunin með lögum um viðskiptabanka á sínum tíma.
    Það má líka gagnrýna þetta ákvæði fyrir það að þarna er verið að höggva á verkaskiptingu á milli annars vegar bankaráðanna og hins vegar bankastjóranna sem ég tel vera mjög óheppilegt. Bankastjórarnir eiga að bera ábyrgð gagnvart daglegum rekstri og gagnvart tekjum og gjöldum, en bankaráðin hins vegar ekki. Myndast þarna visst ósamræmi á milli. Hver er með ábyrgðina o.s.frv.? Þetta er svona nokkurn veginn það sama og í hlutafélagi eða fyrirtæki að stjórn hlutafélagsins taki ákvörðun eða réttara sagt, hluthafafundur taki ákvörðun um það hvað vara fyrirtækisins á að kosta, en lítið gert úr stjórninni sem slíkri eða þá framkvæmdastjóranum.
    Það er annað í þessari 2. gr. sem ég vildi gera að umtalsefni og vil taka undir það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði. Hvernig eiga bankaráðin að ákveða þessa þriðja manns pappíra? Hvaða afföll eiga að vera á þeim? Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. og raunar gerði ég það líka við 1. umr.: Hvernig á að meta þetta? Hvað eiga afföllin að vera mikil? Á að gilda frelsi að þessu leyti eða á að rígbinda þetta, að það megi ekki taka meiri vexti eða kaupa með meiri afföllum en bankaráðin ákveða? Raunar er þetta líka í lögum um Seðlabanka þar sem rætt var um eignarleigu- eða verðbréfafyrirtæki, þar var sams konar ákvæði fyrir þau fyrirtæki.
    Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að fara ofan í einstakar greinar þessa frv. Í heildina geri ég ekki athugasemdir við þær. Hinar greinarnar eru að mínu mati minni háttar atriði, en atriði sem kannski varða bankana miklu, en engar stefnubreytingar eins og í 2. gr. Þar er um verulega stefnubreytingu að ræða, að það skuli vera bankaráðin sem ákveða tekjur bankanna, en aðaltekjur bankanna eru einmitt vextirnir, en ekki þeir sem eru og starfa í þessu dagsdaglega.

    Að þessum orðum loknum vonast ég eftir því að fá svar frá viðskrh. um þetta atriði.