Viðskiptabankar
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. taldi að kjarni þessa frv. væri tillaga 2. gr., fyrri mgr. í tillögugreininni, sem gerir tillögu um orðalag 4. mgr. 21. gr. laganna. Það má til sanns vegar færa. Og það er líka rétt, sem kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Vesturl., að þetta er það vandasama í málinu. Og þá fer fyrir þeim eins og oft vill verða, og reyndar fyrir okkur flestum, að hvenær sem komið er að kjarna máls verða menn klumsa og segja: Við skulum bara ekki skipta okkur af þessu, við snúum okkur bara til veggjar. Ég minni á að það var ekki síst vegna endurtekinna erinda frá stofnunum sem ég hygg að hv. 2. þm. Norðurl. e. muni a.m.k. stundum taka mark á, en það eru Verslunarráð Íslands og Félag ísl. iðnrekenda sem ítrekað hefur sent mér sem viðskrh. erindi og reyndar bönkunum, Seðlabankanum, forsrh., um þá mismunun sem þeir telja að felist í viðskiptum viðskiptabankanna með viðskiptavíxla þeirra og skuldabréf í samanburði við aðra vaxtatöku bankanna. Það er tilgangur þessarar málsgreinar að leggja þá skyldu á bankaráðin að taka afstöðu til þessa máls, að marka stefnu um þetta mál sem þau hafa ekki gert og hafa skotið sér undan með því að segja: Þetta er ekki á okkar valdsviði. Það er hins vegar misskilningur, sem fram hefur komið hér í máli sumra þeirra sem hér hafa talað, að hér sé stefnt að einhverri meginbreytingu um verkaskiptinguna á milli bankaráða og bankastjórnar. Það er kannski gleggst af þeirri brtt. sem fram kemur á þskj. 655 frá 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Þar er ekki verið að taka völdin af bankastjórunum heldur er verið að leggja til að þeir ráði útibússtjórana sjálfir. Um þetta má náttúrlega hafa ýmsa skoðun, en þetta er eindregin afstaða Sambands ísl. viðskiptabanka. Ég vil þess vegna vísa því frá að ekki sé á þá hlustað. En auðvitað er ekki á þá hlustað í öllum greinum og ég ætla hv. 2. þm. Norðurl. e., sem er bankaráðsmaður, að hann finni til skyldunnar, að honum renni blóðið til skyldunnar. Hann getur ekki bara fjallað um þau mál sem er þægilegast um að fjalla í bankaráðinu. Hann verður líka að taka á því sem vandasamast er sem eru viðskiptakjör framleiðslufyrirtækjanna í landinu og verslunarfyrirtækjanna sem kvarta undan þessu sárlega. Það er meginmarkmiðið, ekki að breyta verkaskiptingunni, ekki að raska valdframsali frá bankaráði til framkvæmdastjóra. Ég vildi benda hv. 11. þm. Reykv. á það að það er alls ekki sambærilegt að jafna bankaráðunum til hluthafafunda. Það væri nær að jafna þeim til stjórnar í hlutafélagi. Það er hlutverk stjórna í félögum eins og hér um ræðir að marka meginstefnu um það sem máli skiptir fyrir rekstur fyrirtækisins. Þetta er skilgreining á því sviði ákvarðana en ekki um það að taka skuli einstakar ákvarðanir upp í bankaráðin.
    Þetta er málið. En ég játa það fúslega að um viðskipti með þriðjamannspappíra, eins og hér hefur verið hreyft ítrekað af hv. 2. þm. Norðurl. e. og reyndar af hv. 11. þm. Reykv., er úr vöndu að ráða. Það er öllum ljóst að það er ekki hægt að girða fyrir

affallaviðskipti með öllu, en ég tel að það sé hægt hvað varðar viðskipti fyrirtækja við bankana að taka með öðrum hætti á þessu viðskiptavíxla/viðskiptaskuldabréfamáli en gert hefur verið og það sé ekki sæmileg afstaða hjá bankaráðunum að vísa því bara frá og segja: Það eru aðrir sem eru í þessum óhreinu verkum. Við komum þar hvergi nærri. Það er ekki málið. Ég er ekki þar með að segja að hér sé búið að finna lausnina á vaxtavandamálinu. Það eru ekki allir vaxtaverkir úr okkur gengnir með þessu frumvarpi. Því fer víðs fjarri. En það er þó verið að takast á við málið sjálft.
    Um þau orð hv. 2. þm. Norðurl. e. að aðrar greinar þessa frv. skipti engu máli og breyti engu til eða frá er ég honum innilega ósammála. Ég bendi t.d. á 1. gr. frv. Hvað sem hv. forstöðumaður bankaeftirlitsins kann að hafa sagt um það mál er þessi grein samin í samráði við þá stofnun, bankaeftirlitið, vegna máls sem upp á kom og í ljós kom að ekki var svo auðvelt að túlka ákvæði 13. gr. laganna eins og þau eru þegar að því kom að meta hvort hlutafjáreign bankastjóra teldist þátttaka í atvinnurekstri. Ég tel það brýnt og mikilvægt og reyndar í samræmi við löggjöf nágrannalandanna að gera þessa tillögu.
    Hvað varðar 5. mgr. 21. gr., sem er síðari mgr. 2. gr. í tillögunni, að bankaráð skuli vísa þessum reglum til bankaeftirlitsins árlega, þá er það mikilvæga í þessu hámark lána til einstakra lántakenda. Það er ekki rétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að þetta geti bankaeftirlitið gert á grundvelli gildandi laga. Það getur það einmitt ekki gert. Þessi grein er samin í samráði við þá á grundvelli svipaðra ákvæða sem eru í nágrannalöndunum. Sama máli gegnir um 3. gr. Það er alveg furðulegt að kalla það einhvers konar smáatriði þar sem um það er að tefla að girða fyrir hagsmunaárekstur í yfirstjórn þessara mikilvægu stofnana eins og því miður eru dæmi um að orðið hafa í reynslu okkar í bankamálum á undanförnum árum. Mér finnst furðu sæta að bankaráðsmaður skuli leyfa sér að gera lítið úr því sem hér er á borðum vorum og bendi á að það er einmitt mikilvægt að lesa saman 3. gr. og síðari mgr. 2. gr. því þar geta einmitt komið upp hin vandasömu málin þegar farið er yfir hámark lána til einstakra lántakenda, stórra lántakenda, stórra skuldara við
bankana, ef skyldu vera í bankaráðunum menn sem eiga tengsl við þessi stóru fyrirtæki. Þetta er málið. Þetta er kjarninn í þessu. Ekki það að það sé gert ráð fyrir því í 3. gr. þessa frv. að bankaráðið sé að vasast í einstökum lánveitingum. Með því er hvergi reiknað. En einmitt vegna 5. mgr. 21. gr. sem hér er gerð tillaga um, sem hv. þm. féllst svo fúslega á, verður þetta mjög mikilvægt mál.
    Um endurskoðun hjá ríkisviðskiptabanka vil ég benda hv. þingdeild á að sú tillaga er flutt vegna tillagna frá stofnun þingsins, Ríkisendurskoðun, og forsetum þingsins.