Sparisjóðir
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Valgerður Sverrisdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 642 frá 1. minni hl. hv. fjh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingar á lögum nr. 87/1985, um sparisjóði.
    Nefndin hefur athugað frv. og kallað á sinn fund Baldvin Tryggvason frá Sambandi ísl. sparisjóða, Tryggva Pálsson frá Verslunarbanka Íslands, Stefán Pálsson frá Sambandi ísl. viðskiptabanka og Þórð Ólafsson frá bankaeftirliti Seðlabankans. Þá hefur nefndinni borist skrifleg álitsgerð um frv. frá Sambandi ísl. sparisjóða.
    1. minni hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. fimm sem birtar eru á sérstöku þingskjali. Þær brtt. eru fluttar vegna athugasemda frá Sambandi ísl. sparisjóða og kveða nánar á um kosningu sparisjóðsstjórna og ákvörðun vaxta og gjaldskráa sparisjóða.
    Ragnar Óskarsson var fjarverandi lokaafgreiðslu málsins.
    Danfríður Skarphéðinsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk áliti þessu.
    Undir nefndarálitið rita, auk framsögumanns, Jóhann Einvarðsson og Karl Steinar Guðnason.
    Ég ætla þá að gera í örstuttu máli grein fyrir þessum brtt.
    1. brtt. gerir skýrt að sveitarstjórnir eða fulltrúar þeirra geta samkvæmt samþykktum sínum kosið fulltrúa í stjórn sparisjóða eins og aðalfundir sparisjóðanna ákveða hverju sinni.
    2. brtt. er aðeins um það að fyrri efnismálsgr. 4. gr. falli brott.
    Í 3. brtt. er verið að taka af öll tvímæli um það að einstökum sparisjóðsaðilum sé aldrei heimilt að fara með meira en *y1/5*y hluta af heildaratkvæðamagni.
    Um 4. brtt. er það að segja að þar er verið að taka tillit til þeirrar sérstöðu sem leyfð er samkvæmt 25. gr. sparisjóðslaga, að leyfa stjórn Sambands ísl. sparisjóða að leggja fram tillögur um vexti o.fl. Að öðru leyti er ákvæðið svipað og ákvæði viðskiptabankalaga um bankaráð.
    Um 5. brtt. gildir það sama og um þá þriðju.
    Hæstv. forseti. 1. minni hl. hv. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem liggja fyrir á þskj. 648.